13.12.1962
Sameinað þing: 21. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í B-deild Alþingistíðinda. (294)

1. mál, fjárlög 1963

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja 3 brtt. við fjárlagafrv. og vildi gera grein fyrir þeim með örfáum orðum.

1. brtt. mín er á þskj. 189 og er 1. till. á því þskj. Þessi till. er um það, að bætt verði nýjum lið víð 11. gr. frv. og ráðgert að taka upp 1 millj. kr. fjárveitingu til þess að vinna gegn áfengis- og tóbaksneyzlu æskufólks. Gert er ráð fyrir því, að dómsmrn. sjái um úthlutun á þessu fé til þeirra félagssamtaka í landinu, sem vinna að þessum málum. Ég tel, að eins og nú er orðið ástatt í okkar landi í þessum efnum, þá sé full ástæða til þess, að ríkið leggi íram nokkru meira fé til þess að berjast gegn aukinni áfengisneyzlu og einnig aukinni tóbaksneyzlu meðal æskufólks, svo miklar tekjur sem ríkið hefur af því að selja þessar vörur.

Um það er ekkert að villast, að nú á síðustu árim hefur mjög sótt til hins verra í þessum efnum. Áfengisneyzla fer alveg greinilega ört vaxandi, enda hafa verið gerðar hér ráðstafanir, m.a. af hálfu Alþingis, til þess að búa þannig um málin, að greiðara sé fyrir flesta að komast í áfengi en áður var. Mér finnst því vera komin ástæða til þess að auka nokkuð fjárframlög af hálfu ríkisins til þess að vinna gegn aukinni áfengisneyzlu, alveg sérstaklega meðal æskufólks. Þá vil ég einnig minna á, að það er nú víða erlendis farið að vinna að því allkröftuglega að draga úr tóbaksneyzlu, þar sem það liggur fyrir nú sem fullvíðurkennd staðreynd, að tóbaksneyzla og þá sérstaklega sígarettureykingar meðal æskufólks leiða tvímælalaust af sér stóraukna hættu á krabbameini. Ég hefði því viljað vænta þess, að hæstv. ríkisstj. vildi athuga þessa till, mína í fullri vinsemd, hvort ekki væri rétt að mæta þeim óskum, sem þar koma fram, annaðhvort með því að samþ. mína till. eða þá a.m.k. með einhverri fjárveitingu í þessu skyni.

Önnur brtt. mín er á þessu sama þskj. og er 12, brtt. á þskj. Hún er flutt sem brtt. við brtt. fjvn. og er um það að hækka nokkuð fjárveitingu til leiklistarstarfsemi í landinu. Fjvn. hefur í till. sínum gert ráð fyrir því að hækka að vísu örlítið fjárveitingar til leikstarfsemi frá því, sem verið hefur nú um skeið, en tiltölulega mjög lítið, en fjárveitingar þessar hafa ekki breytzt nú um margra ára skeið, svo að neinu nemi. Fjvn. gerir ráð fyrir því að hætta að ákveða í fjárl. sjálfum, til hvaða einstakra leikfélaga fjárveitingin skuli ganga, en gerir rúð fyrir því að draga allar fjárveitingar, sem verið hafa til einstakra félaga, saman í einn sjóð og síðan verði úthlutað til leikfélaganna. Það er auðvitað ómögulegt að gera slíka till. sem fjvn. hefur gert í þessum efnum, nema þá um leið séu ákveðnar einhverjar reglur um það, hvernig fénu skuli skipta. En mér sýnist fjvn. ganga gersamlega fram hjá því. Að vísu hef ég heyrt, að fjvn. hafi gert sjálf samþykkt um það, hvernig með skuli fara, og hún hafi sérstaklega ákveðið, að tiltekin leikfélög skuli fá verulega hækkun, á sama tíma sem önnur skyldu ekki fá hækkun. En það kemur hvergi fram í hennar till. En það er vitanlega Alþingi, sem á að setja þær reglur, sem fara á eftir í þessum efnum, en ekki fjvn. ein út af fyrir sig á einföldum nefndarfundi sínum. Til þess hefur hún ekkert umboð. Ég hef því lagt til í minni till., að menntmrn. skuli að vísu skipta upphæðinni, og geng þar til móts við það, sem fjvn. leggur til, en að ráðuneytinu sé skylt að miða úthlutunina við starfsemi þá, sem félögin hafa haft með höndum, og þá aðstöðu, sem félögin búa við til þess að annast leiklistarstarfsemina. Hér má ekki verða um neina handahófsúthlutun að ræða, eftir að um slíka fjárveitingu er að ræða eins og þessa. Hér verður að fara eftir föstum reglum. Ég vænti því, að þessi till. mín verði samþ., en hún gerir ráð fyrir nokkurri hækkun fjárveitingarinnar og einnig því að binda það að nokkru leyti, hvernig fénu skuli skipt.

Þriðja brtt. mín, sem einnig er á þessu þskj. og er 21. till., er um það að hækka fjárveitingu til atvinnubótasjóðs úr 10 millj. upp í 20 millj. Eins og hefur komið fram í þessum umr., vita allir hv. þm., að það er mikil þörf á því að hækka þessa fjárveitingu. Hér er um að ræða viðbótarlán, sem veitt er til ýmiss konar atvinnulegra framkvæmda í landinu. En eins og dýrtíðin er orðin mikil og framkvæmdir allar eru orðnar dýrar, þá er alveg augljóst, að það er ekki hægt að búa víð það öllu lengur, að heildartekjur atvinnubótasjóðs séu ekki nema 10 millj. á ári. Það er alveg óhjákvæmileg nauðsyn að hækka þessa fjárveitingu, og því hef ég lagt til, að hún yrði tvöfölduð nú eða upp í 20 millj. kr. Ég vil líka minnast á það, að fyrir nokkrum árum, — ég hygg, að það hafi verið árið 1957, — var fjárveiting í þessu skyni 15 millj. kr., en verðlag var þá vitanlega allt annað en það er nú, svo þó að nú væri veitt til þessa sjóðs 20 millj. kr., þá er samt um að ræða miklu minni fjárveitingu hlutfallslega miðað við byggingarkostnað heldur en var á árinu 1957. Ég vona líka, að hv. þm. geti tekið undir með mér í þessum efnum og samþ. þessa till. mína.

Fleiri till. á ég hér ekkí að sinni og get því látið máli mínu lokið.