28.11.1962
Sameinað þing: 17. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í D-deild Alþingistíðinda. (2943)

53. mál, vinnsla grasmjöls á Skagaströnd

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Rannsóknaráð ríkisins mun hafa fyrir nokkru gert athugun á þessu máli, á vinnslu grasmjöls, að vísu ekki á Skagaströnd sérstaklega, en hefur tekið það til athugunar, hvort hagkvæmt mundi að hefja slíka framleiðslu hér á landi, og skýrsla um þetta frá rannsóknaráði ríkisins mun á sínum tíma hafa verið send ríkisstj. En nokkru eftir að þetta gerðist var það, sem SÍS ákvað að hefja ræktun og vinnslu grasmjöls í Rangárvallasýslu, á Hvolsvelli, á þeim slóðum, þar sem Ormur Stórólfsson gekk að slætti forðum. Það var vorið 1961, sem SÍS fékk á leigu land þar austur frá og byrjaði þar ræktunarframkvæmdir og kom upp verksmiðju til grasmjölsvinnslu. Sú starfsemi var rekin í fyrsta sinn í fyrra, 1961, og svo enn í ár.

Haustið 1960 barst mér bréf frá hreppsnefndinni á Skagaströnd. Það var dagsett 23. okt. 1960. í upphafi þess bréfs er vitnað til þess, að rannsóknaráð ríkisins hafi gert athugun á þessu máli, og hreppsnefnd Höfðahrepps skrifaði landbrh. bréf um þetta mál 16. ágúst 1980. Afrit af þessu bréfi til ráðh. fylgdi með bréfi hreppsnefndarinnar til mín, og hreppsnefndin mun einnig hafa skrifað öðrum þm. Norðurl. v. um þetta mál. í bréfinu til ráðh., sem við fengum afrit af, var þeirri áskorun beint til ráðh., að hann hefði forgöngu um, að heymjölsvinnsla væri starfrækt í sambandi við síldarverksmiðjuna á Skagaströnd. Og í bréfi, sem ég og aðrir þm. í kjördæminu fengu, var þess óskað, að við fylgdumst með þessu máli, athugunum á því, hvort nýta mætti hið mikla síldarverksmiðjumannvirki, sem þar er, eins og það er orðað í bréfinu, þótt svo færi, að nokkurt magn af síld bærist til vinnslu.

Í fyrra, eftir að grasmjölsvinnsla var hafin á Stórólfsvelli, fór ég fram á það við SÍS, að það fengi forstöðumann þess fyrirtækis, Jóhann Franksson, til þess að fara norður til Skagastrandar til að athuga þar aðstæður allar. Og SÍS varð við þessum tilmælum mínum og fékk forstöðumanninn til að fara norður til Skagastrandar til þess að líta þar á verksmiðjuna og athuga málið. Og eins og frsm. þessarar till. og flm. gerði grein fyrir áðan, sendi Jóhann Franksson oddvitanum í Höfðahreppi bréf um málið, eftir að hann hafði athugað þetta. Það var dagsett 1. marz 1962. í þessu bréfi er m.a. skýrt frá því, hvaða breytingar Jóhann Franksson telur að þurfi að gera á síldarverksmiðjunni á Skagaströnd, til þess að þar sé hægt að mala hey. Og hann birtir einnig áætlun um kaupverð þeirra tækja, sem afla þurfi til þess að afla hráefnis fyrir væntanlega grasmjölsvinnslu. Hann hefur einnig gert áætlun um, hvað kosti að vinna þar 200 hektara af framræstri mýri.

Eins og þegar hefur verið tekið fram hér af frsm., þá, kemur það fram í þessu bréfi Jóhanns Frankssonar til hreppsnefndarinnar, að það muni vera hægt að framleiða grasmjöl í verksmiðjunni með því að kaupa til hennar nokkur tæki til viðbótar. Og hann segir í bréfinu, að það taki ekki langan tíma að breyta til úr síldarmölun í grasmölun. Það sé hægt að gera það á aðeins fáum klukkuatundum. Ég tel það alveg tvímælalaust, að þessi maður, Jóhann Franksson, sé sá maður hér, sem hafi mesta þekkingu á þessum efnum, vegna þess að hann hafði kynnt sér þetta alveg sérstaklega, áður en hann tók að sér að vera framkvæmdastjóri fyrir fyrirtæki SÍS á Stórólfsvelli.

Ég held því, að það liggi nokkuð ljóst fyrir og muni ekki þurfa mikla nýja rannsókn til að komast að raun um, að það sé vel framkvæmanlegt að vinna grasmjöl í síldarverksmiðjunni á Skagaströnd. En hér kemur að sjálfsögðu fleira til álita. Ef svo færi, sem við viljum vona, að það berist einhvern tíma meiri síld til vinnslu á Skagaströnd en verið hefur að undanförnu, þá gætu þarna orðið árekstrar, ef verksmiðjunni væri ætlað að vinna mjöl bæði úr síld og heyi. Það er ekki hægt að láta síldina bíða óunna nema takmarkaðan tíma, ef mikið berst að. Og þannig er með vinnslu á grasmjöli, að það þarf að slá grasið á réttum tíma og það verður að vinna heyið strax, eftir að sláttur hefur farið fram. Gæti þarna vissulega orðið um örðugleika að reeða, ei á sama tíma bærist mikil síld til verksmiðjunnar.

En það, sem ég held að þurfi fyrst og fremst að athuga í sambandi við þetta mál, er það, hvaða aðili ætti að rækta landið þar á Skagaströnd og annast þennan rekstur.

Ættu það að vera síldarverksmiðjur ríkisins, ef heyið væri unnið í þeirra verksmiðju? Ætti að fela síldarverksmiðjum ríkisins að taka þarna land til ræktunar og rækta það og hafa þar heyskap og öflun hráefnis fyrir verksmiðjuna? Eða er það hugsanlegt, að það væru einhverjir aðrir aðilar, Höfðahreppur eða sérstakt félag íbúanna á Skagaströnd, sem ræktaði landið og heyjaði það og annaðhvort seldi svo síldarverksmiðjum ríkisins heyið til vinnslu í verksmiðjunni eða gerði samninga við verksmiðjuna um vinnslu á því fyrir ákveðið gjald? Þarna gæti verið um ýmsar leiðir að ræða, og ég held, að þá ætti fyrst og fremst að taka til athugunar ásamt því, hvaða möguleikar væru til að láta slíkan rekstur bera sig. Hitt sýnist mér að liggi nokkuð ljóst fyrir, að það sé framkvæmanlegt að mala hey í síldarverksmiðjunni.

Eins og ég gat um áður, mun það hafa verið 1. marz s.l., sem Jóhann Franksson skrifaði hreppsnefndinni í Höfðakaupstað og sendi henni skýrslu um sínar athuganir. Síðan hef ég ekkert heyrt frá hreppsnefndinni um þetta mát. Mér er því alveg ókunnugt um það, hvaða athuganir hún hefur gert á málinu síðan eða hvort þær eru nokkrar. Og ég hefði talið það eðlilegt, að sú nefnd hér í þinginu, sem fær þessa till. til athugunar, kynnti sér þær hugmyndir, sem þar kynnu að vera uppi um rekstur á þessu fyrirtæki, ef til kemur.