28.11.1962
Sameinað þing: 17. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í D-deild Alþingistíðinda. (2951)

57. mál, heyverkunarmál

Flm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Þessi till. til þál. á þskj. 57 um heyverkunarmál, sem hér er til umr., var einnig flutt á síðasta þingi, en náði þá ekki fram að ganga.

Hv. fjvn. fékk mál þetta þá til athugunar og sendi það til umsagnar Búnaðarfélags Íslands, sem mætti mjög eindregið með samþykkt till. Hins vegar varð fjvn. ekki sammála um afgreiðslu þess. Meiri hl. n. vildi láta vísa málinu til ríkisstj. Voru það 5 af nefndarmönnum, sem það vildu. Minni hl., 4 nefndarmenn, vildi láta samþ. till. Til endanlegrar afgreiðslu kom ekki hér í þinginu, þar sem málið var ekki tekið til síðari umr. Ekki var þó því um að kenna, að málið væri svo seint fram borið, að fyrir þær sakir yrði það ekki afgreitt, því að það var flutt í byrjun þings eins og nú. Og það vili svo einkennilega til, að það er núna með sama þingskjalanr. og í fyrra. Við flm. teljum málið svo þýðingarmikið, að við endurflytjum það nú í þeirri von, að það fái þá afgreiðslu að þessu sinni, sem okkur finnst að því hæfi, þ.e.a.s. að till. verði samþ. hér.

Ég þykist nú varla þurfa að fara orðum um það, hversu þýðingarmikill þáttur í búskap bændanna og þjóðfélagsins í heild það er að tryggja eftir föngum sem bezta heyverkun. óþurrkar um heyannatímann hafa löngum torveldað það undirstöðustarf bændanna að afla heyja og spillt gæðum fóðurforðans, ýmist með því að hrekja heyið eða á þann hátt, að vegna bleytu og ónógrar þurrkunar hefur hitnað í heyjunum, svo að þau á þann hátt hafa misst næringargildi, eða heyin, eins og mörg dæmi eru um jafnvel á hverju ári, hafa hreinlega brunnið hjá ýmsum bændum vegna ofhita. Það er varla annað til ömurlegra í búskapnum af óhöppum heldur en þegar vetrarforðinn fyrir skepnurnar verður á litilli stundu að öskuhrúgu. Sumir segja, að ekki sé annar vandinn til að tryggja sig gegn slíkum óhöppum en sá að brunatryggja heyin. Það er að vísu gott, svo langt sem það nær, en leysir ekki fjárhagshlið þessa máls hjá hverjum bónda nema að takmörkuðu leyti, því að þótt fullt verð komi fyrir hin brunnu hey og hús, þá er hitt eftir, sem oft er ókleift, en það er að afla heyja í staðinn, svo að sá, sem fyrir óhappinu varð, þurfi ekki að fella bústofn sinn.

Nú er, svo sem kunnugt er, komin til sögunnar tækni, sem gerir mögulegt að verka góð hey, þó að óþurrkar séu um sláttinn. Ég þarf ekki að lýsa þessari tækni, hún er svo kunn, en ég á við votheysgerð og súgþurrkun. Votheysgerðin er um margra áratuga skeið búin að sanna ágæti sitt hér á landi, og nú í seinni tíð hafa orðið framfarir og endurbætur á þeirri heyverkunaraðferð. Hefur komið þar til bæði nýtt form bygginga og svo vélaafl. En auk þess má einnig nefna efnaíblöndun í heyið, svo að það haldi betur upprunalegu gildi sínu, en tapi því ekki við geymsluna. Þó er sá galli enn á gjöf Njarðar að þessu leyti, að sauðfé veikist oft af votheysgjöf, og verða af þeim ástæðum á ári hverju nokkur vanhöld í búfé landsmanna.

Súgþurrkun er miklu yngri heyverkunaraðferð. Þó er nú búið að reyna hana hér á landi a.m.k. hátt á annan áratug. Enginn, sem reynt hefur súgþurrkun, gæti hugsað sér að vera án hennar. Hægt er að aka heyinu grasþurru inn í hlöðu. Ef svo er blásið nógu lengi lofti gegnum heyið, þornar það og heldur fullu fóðurgildi, eins og þegar það var tekið af jörðinni.

En báðar þessar heyverkunaraðferðir kosta mikinn vélbúnað og orku hjá hverjum einstökum bónda. Það þarf því mikið fé til þess að koma þessari tækni upp á hverjum bæ. Margir bændur hafa lagt í mikinn kostnað til þess og bundið sér þunga skuldabagga af þeim sökum, en ég hygg þó, að enginn sjái eftir að hafa lagt í slíkar framkvæmdir. Þó hygg ég, að enn séu þeir bændur fleiri í landinu, sem enn hafa ekki fengið sér þessa tækni, og ég geri ráð fyrir, að fyrst og fremst stafi það af því, að þeir hafa ekki treyst sér til þess fjárhagslega eða af einhverjum ástæðum hafi þeir ekki getað fjárhagslega ráðizt í það.

till., sem hér er flutt, gerir ráð fyrir aðstoð af hálfu ríkisvaldsins til þess að hjálpa þeim, sem enn eiga eftir að tryggja heyverkun sína, til þess að koma því í lag hjá sér. Ég er viss um, að það væri stór gróði fyrir þjóðarheildina, ef stórt átak væri gert í þessu efni. Okkur flm. er vel tjóst, að það kostar allmikið fé að gera stórt átak af þessu tagi, og það er eflaust ýmsum erfiðleikum háð að útvega það fjármagn, sem til þyrfti, svo að hægt væri að lána ríflega til þeirra tækja og tæknibúnaðar, sem hin nýja heyverkun krefst. Ríkisvaldið á hér að okkar dómi að hafa forustu, og ég vil ekki trúa öðru að óreyndu, ef ríkisvaldið tæki að sér að hafa forustu í þessu máli, en hægt yrði þá á fáum árum að tryggja með þeirri tækni, sem nú er komin, góða heyverkun hjá bændum í flestum eða öllum árum. Og þegar ég segi þetta, þá hef ég í huga þá reynslu frá liðnum árum, sem mér er kunnugt að bændur hafa af þessari heyverkunaraðferð og þessari nýju tækni, sem þarna er komin til sögunnar. Ég er þess vegna viss um það, að fé, sem í þetta væri lánað eða lagt í þetta á einhvern hátt, mundi fljótt skila sér aftur með vöxtum og vaxtavöxtum. Hérna er því ekki um neitt áhættufyrirtæki að ræða frá mínu sjónarmiði, heldur aðeins spursmál um það, hvernig haganlegast yrði að því unnið að koma þessu í framkvæmd eða koma upp súgþurrkunartækjum á hverju bændabýli landsins og að hjálpa til við öflun tækninnar eða eflingu tækninnar í sambandi við votheysgerð hér á landi.

Í grg., sem fylgir þessari till., er að minni hyggju altýtarlegur rökstuðningur fyrir þessu máli, og ég sé þess vegna ekki ástæðu til að vera að hafa um það fleiri orð eða tala um það langt mál. Ég held, að það hafi verið ákveðnar tvær umr. um málið, og ég vildi þá leyfa mér að gera þá till., að málinu yrði að þessari fyrri umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. fjvn.