13.12.1962
Sameinað þing: 21. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

1. mál, fjárlög 1963

Frsm. meiri hl. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv., sem talaði hér áðan, virtist mjög hræddur, að þingræðinu væri hér hætta búin og hætta á einræði yfirvofandi. Það virtist alveg greinilegt, að hann var mikið á móti einræði. Þessi hv. þm. bregður sér stundum í austurveg. Það skyldi þó aldrei vera vegna einhvers, sem hann hefur séð þar, sem hann er svona hræddur við einræði og að illa kunni að fara fyrir okkur á því sviði. Ég held, að þetta sé enn ástæðulaus ótti, og ég hef a.m.k. ekki orðið var við neitt, sem bendir í þá átt hér, og vona, að aldrei komi til slíks.

Hv. frsm. 1. minni hl. talaði mikið um kjararýrnun hjá almenningi. Þetta er alveg þvert ofan í þær upplýsingar, sem fyrir liggja og komu fram í ræðu hæstv. viðskmrh. hér á hv. Alþingi nú alveg nýlega, sem sanna það, að þvert á móti hafa raunveruleg lífskjör almennings, — þar er átt við þrjá fjölmennustu starfshópana, — batnað um 10% á s.l. 4 árum.

Framlög til framkvæmda hafa ekki aukizt, sagði hv. frsm. 1, minni hl. Þetta er líka alrangt hjá honum. Hann gat þess að vísu, að ef till. fjvn, yrðu samþ., mundu þau aukast nokkuð. En ef tekinn er lengri tími, ef við tökum frá 1958 og miðum við fjárlögin þá og væntanleg fjárlög 1963, ef þær hækkunartill., sem nú liggja fyrir, verða samþ., og tökum þessa liði: vegi, brýr, hafnir og nýjar skólabyggingar, þá er þetta á fjárlögum 1958: vegirnir 49 millj. 780 þús. kr., brýrnar 11 millj. 340 þús. kr., hafnirnar 10 millj. 775 þús. kr., skólabyggingar 13359500 kr. Samtals 85254500 kr. En ef brtt. þær, sem nú liggja fyrir frá meiri hl. fjvn. — eða frá fjvn. allri raunar, en sérstaklega studdar þó af meiri hl., því að minni hl. fjvn. hefur komið með nokkrar frekari brtt., en þó að ég geri ekki ráð fyrir, að þær verði samþ., en aðeins miða við það, sem meiri hl. væntanlega stendur með, þá litur þetta svona út nú, að vegirnir verða 89 millj. 680 þús., brýrnar 13 millj. 705 þús., hafnirnar 21 millj. og skólabyggingar 51651486 kr. samtals 175956486 kr. Eða m.ö.o., ef þetta er borið saman, þá hafa framlög til verklegra framkvæmda á þessu sviði meira en tvöfaldazt frá 1958 og til ársins í ár, ef þessar till. verða samþ.

Hann talaði líka mikið um vísitölu brúarkostnaðar, sem vegamálastjóri hefur reiknað út. Þetta er nú nánast einkavísitala vegamálastjóra, og getur margt komið til, að hæpið sé að taka hana allt of bókstaflega. Ég er ekki að saka hann um að hafa farið vísvitandi rangt með, heldur meðan ekki er vitað, hvernig hún er reiknuð út og við hvað hún er miðuð, þá getur þetta verið mjög villandi, að ekki sé meira sagt, því að okkur er kunnugt um það, — við sjáum það, sem ferðumst talsvert um vegina hér, — að brýrnar, sem nú eru byggðar, eru miklu voldugri en áður var, og það fer æ meira í vöxt, að brýr séu byggðar með tvöföldum akbrautum og jafnvei gangstígum til hliðar við akbrautirnar. Ég minnist þess að hafa nú einmitt allra síðustu árin séð þó nokkrar brýr, sem þannig eru byggðar, og vissulega ber að fagna því, því að það er meir til frambúðar. En það er ekki undarlegt, ef miðað er við lengdarmetra í brú, þó að slíkar brýr séu allmiklu dýrari en brýr, sem aðeins eru byggðar til að taka bílbreiddina. Þetta liggur sem sagt ekki fyrir, hvernig þessi vísitala er fundin, en af viðtali við vegamálastjóra í sambandi við framkvæmdir í ár skildist mér á honum, að það væri miðað við þær brýr; sem ekki var búið að áætla, sem um var spurt, þá miðaði hann við vissan kostnað á lengdarmetra í brú nú. Þar að auki eru slíkar vísitölur hæpnar, á meðan verkin eru ekki boðin út og ekkert er til samanburðar við það verk, sem þessi opinbera stofnun lætur vinna. Síðast þegar hinn hátturinn var á hafður um brúarbyggingar, kom það fyrir, að brýr voru byggðar þó nokkru ódýrar en vegamálastjórnin hafði áætlað. Voru gerð tilboð í þær og þær byggðar þó nokkru ódýrar. Auk þess hefur það komið fyrir nú alveg nýlega, sem ég hygg að hv, þm. muni, að ein stór brú, sem hafði verið áætluð yfir Hornafjarðarfljót, varð ódýrari í byggingu með nýrri tækni, sem við það var beitt, heldur en áætlunin hafði gefið, og var þó vitanlegt, að bæði höfðu vinnulaun og efni hækkað í verði, frá því að áætlunin var gerð og þangað til brúin var byggð.

Vegamálastjóri hefur líka búið sér út vísitölu vegagerðarkostnaðar. Um hana er eiginlega mjög svipað að segja og þessa. Hann reiknar með og byggir þar á reynslu síðustu ára, hvað kostnaður er á lengdarmetra í vegagerð. En við, sem höfum séð þessa vegi, erum ekkert undrandi á því, þó að vegir eins og þeir beztu, sem byggðir hafa verið nú á síðustu árum, þó að maður sleppi nú steyptu vegunum, eins og verið er að byggja á leiðinni suður í Keflavík, þá er ekki undarlegt, þó að vegir eins og hafa t.d. verið gerðir yfir Dynjandisheiði séu dýrari en vegir, sem ruddir eru með nútímatækjum yfir slétta mela, eins og sums staðar hefur verið gert. Og það kann vel að vera, og ég get vel trúað því, að meira af þeim vegum, sem nú eru gerðir, séu vandaðir framtíðarvegir. Þeir eru hærri, meira upphlaðnir og breiðari en til þessa hefur tíðkazt, vegna þess að það hefur komið í ljós, að það borgar sig, þegar til lengdar lætur. Þessir vegir endast miklu betur, og þar að auki er miklu ódýrara viðhald á þeim. Sérstaklega er það að vetrinum, að þeir verja sig miklu betur snjó en vegir, sem eru ekki upphlaðnir, heldur aðeins ruddir eða jafnvei niðurgrafnir, eins og kom fyrir áður, þegar verið var að reyna að gera fært það, sem ófært var.

Hv. frsm. stjórnarandstöðuflokkanna gerðu báðir í framsöguræðum sínum mikið úr hækkun fjárlaga nú frá s.l. ári og raunar undanfarin ár. Þeir leiddu þó að vonum hjá sér að gera grein fyrir, hvers vegna fjárlögin hækka nú, en það er aðallega vegna launahækkana og tilsvarandi hækkana á bótum elli- og örorkulífeyrisþega til samræmis við launahækkanirnar, einnig hækkana um nokkuð verulega upphæð vegna þess, að landið er nú gert að einu verðlagssvæði. Áður hafa verðlagssvæði almannatrygginga verið tvö á landinu, sem var orðið algerlega úrelt og nú hefur verið samþ. að hverfa frá. Auk þess er auðskilið, að fjárlög hljóta að hækka vegna fólksfjölgunar, og þá hækka fjárlög einnig vegna aukinnar framleiðslu og neyzlu landbúnaðarvara í landinu og nokkuð vegna útflutnings á þeim hluta landbúnaðarvaranna, sem ekki er neytt í landinu sjálfu. En auk þessa, sem væntanlega enginn hefur á móti, þá hækka fjárlögin verulega vegna stóraukinna framlaga til atvinnumála, verklegra framkvæmda, eins og ég gat um í framsöguræðu minni.

En það ánægjulegasta við þetta er það, að þrátt fyrir þessar miklu hækkanir er unnt að gera þetta án þess að hækka skatta. Það stafar að nokkru leyti af góðu árferði, en líka af hinu, að ýtrustu hagsýni er gætt um kostnað við rekstur ríkisins og stofnana þess. Einnig aukast tekjur ríkisins nokkuð af því, að afkoma þjóðarinnar er betri, en það er meðfram árangur af heilbrigðari fjármálastefnu en áður var.

Áður en ég lýk máli mínu að þessu sinni, vil ég leyfa mér að taka till. um starfsfræðslu á 14. gr. aftur til 3. umr. Það mun verða tekið til athugunar í fjvn., hvort ekki væri réttara að hafa þá till. á annarri gr. fjárlaganna. Um aðrar brtt., sem fyrir liggja, vil ég aðeins geta þess, eins og þm. er raunar kunnugt, að fjvn. hefur ekki athugað þær.