12.12.1962
Sameinað þing: 20. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í D-deild Alþingistíðinda. (2966)

59. mál, vegabætur á Vestfjörðum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Nokkrar umr, hafa hér orðið um þáltill. Sigurðar Bjarnasonar og nokkurra fleiri þm. Sjálfstfl. um vegabætur á Vestfjörðum og um brtt., sem fram er komin við þessa till. frá Sigurvín Einarssyni og nokkrum öðrum hv. þm. Framsfl. Þáltill. þeirra sjálfstæðismannanna fer ekki fram á mikið, hún er í anda hógværðarinnar, enda sjálfsagt ekki þörf mikils að biðja eða krefjast að því er snertir vegamál á Vestfjörðum. Þessi till. fer fram á það að skora á ríkisstj. að fela vegamálastjóranum að láta gera áætlun um vegagerð á Vestfjörðum. Og hvað á þessi áætlun að gera? Hún á að stefna að því takmarki, að lokið verði á sem stytztum tíma öllum aðalvegunum um þennan landshluta og tryggt öruggt akvegasamband milli byggðarlaga hans meginhluta árs. Ég fæ nú ekki skilið, að ein fróm ósk til ríkisstj. geti orkað þessu, stefnt að því takmarki með þál., að lokið verði á sem stytztum tíma öllum aðalvegum um þennan landshluta, og tryggt akvegasamband um hann meginhluta árs. Það er máttugt orð þetta, það verð ég að segja, og þarf ekki mikið til, til þess að bæta samgöngurnar á Vestfjörðum, ef ekki þarf annað til. Mér finnst þessi till. vera í meiri ævintýrastíl en sem þskj. á Alþingi, ævintýri fyrir börn, það verð ég að segja.

Ég held, að það sé ekki ofmælt af hv. þm., sem hér talaði áðan, 4. þm. Vestf. (SE), að það er ekki þörf á svona till. Hún gerir ekkert gagn í því mikla máli, sem hún fjallar um. Ég væri miklu hræddari um það, að þessi till. leiddi til, að það yrðu settar í gang víðtækar rannsóknir, tímafrekar, og sagt: Aðgerðir í vegamálum á Vestfjörðum verða að bíða, þangað til niðurstöður rannsóknarinnar liggja fyrir. — Hún gæti orðið til tafar. Og þó veit ég ósköp vel, að hv. flm. hennar hafa áreiðanlega ekki meint það að verða vegamálum Vestfjarða til tjóns. En helzt gæti þó af henni leitt, að það væri beðið með fjárveitingar o aðgerðir í vegamálum, þar til þessari nauðsynlegu undirstöðurannsókn væri lokið. En að hún gæti hraðað nokkrum aðgerðum í vegamátum Vestfjarða, það fæ ég ekki séð, og væri gott að fá skýringu á því, hvernig það mætti verða, að till. eins og þessi, svona lauslega orðuð, geti stefnt að því takmarki, að lokið verði á sem stytztum tíma öttum aðalvegum um þennan landshluta og hann verði akfær meginhluta ársins.

Nei, það, sem hér hefði þurft með, var það, að þessir hv. þm., sem sjálfsagt eru mikils megnandi í sínum flokki allir saman og eru nú í stjórnaraðstöðu og einn af þeim formaður fjvn., sá, sem rekur endahnútinn á þetta, er í þeirri aðstöðu, að vera formaður fjvn., annar af tillögumönnunum er fyrrv. formaður fjvn. og þriðji einn af forustumönnum flokksins, og svo er þarna einn með frá Alþfl., — þessi hersing ætti að geta valdið miklu um það, hvaða fjárveitingar fást til akvega á Vestfjörðum, til brúargerða á Vestfjörðum, til hafnarmála á Vestfjörðum á þessu þingi, á þeim fjárlögum, sem nú á að fara að afgreiða. Það væri ekki í ævintýrastíl, það væri í realistískum stíl, og það er betra að tala í realistísku máli um vegamál á Vestfjörðum heldur en í ævintýrastil fyrir börn.

Hv. 1. þm. Vestf. taldi ástæðu til að vekja athygli á, að það hefði verið gremjutónn í ræðu hv. 4, þm. Vestf. Ég hneykslast ekkert á því. Ég þóttist líka finna gremjutón í hans máli. En það getur enginn þm. Vestf. staðið upp á Alþ. og talað um vegamál Vestfjarða og samgöngumál þeirra án þess, að það gæti gremju í rómnum og gremju í hans máli, því að það er ástæða til þess. Og ég skil ekkert í hv. 1. þm. Vestf., að hann skuli einmitt spjalla um þetta með ánægjuhreim, eins og malandi kisa, ánægð. Og þá er það allt út af því, hvað mikið hafi lagazt síðan hann varð þm. fyrir nærri tveimur áratugum. Það hefur svolítið þokazt í áttina á þessum tíma og hefði gert, hver sem hefði verið þm. þessa landshluta.

En þegar litið er yfir árangurinn og ástandið, eins og nú er, þá er engin ástæða til þess að tala í ánægjutón eða mala. Hér var verið að tala um það, að hv. 4. þm. Vestf. hefði eitthvað ofmælt, en ég vík að því aftur, sem hv. 1. þm. Vestf. sagði í sínum ánægjutón hér áðan. Hann sagði, að það væri hægt að aka um allt þetta svæði núna. Hvílík reginfirra! Var ekki hv. 1. þm. Vestf. á ferðatagi um Vestfjarðakjördæmi s.l. sumar? Hvað gerði hann, þegar hann kom í Bjarnarfjörð? Ók hann ekki áfram á sínum bíl norður um Strandir, norður í Kaldbaksvík og þaðan í Reykjarfjörð og áfram um Árnesveg og um allar byggðir, um allt héraðið? Nei, hann gerði það ekki. Og af hverju gerði hann það ekki? Hann var á bíl. Hann komst norður í Bjarnarfjörð. Þá dugði hans bíll ekki lengur. Þá fékk hann ungan mann til þess að flytja sig á jeppa. Og svo fékk hann bát, af því að hann vildi ekki fara þetta fótgangandi, það er hægt að klöngrast það þannig náttúrlega, en á sínum bíl komst hann ekki. Og þar þraut, að jeppinn komst ekki lengra, og þá varð hann að grípa til bátsins. — Eða vestur í Barðastrandarsýslu, þar sem hv. alþm. var líka á ferð, eins og vera ber. Hann ætlaði út í Lokinhamra. Fór hann ekki akandi á sínum bíl? Onei. Hann lagði ekki heldur á sig að fara labbandi, sem varla er von um mann á áttræðisaldri. En hann fékk sér bát og fékk sig fluttan, horfði upp á vegarstæðið af sjó. Vegarstæðið, segi ég, ekki veginn, því að enginn vegur er þar nema mitt á milli bæja. Svo segir þessi hv. þm. hér til þess að villa þingheimi sýn: Það er hægt að aka um allt héraðið. — Þetta eru reginósannindi. Það er fjarri því, að það sé hægt að aka um Vestfjarðahérað allt saman. Og það þarf ekkert að vitna til annarra manna ferðalaga en hv. þm. sjálfs. Hann kemst hvergi nærri um allt Vestfjarðakjördæmi á neinum bíl, ekki einu sinni á rússneskum jeppa, sem hann hafði þó lengi í sínum förum og ég tel einasta farartækið, sem hægt er að klöngrast á um meiri hl. kjördæmisins. En öðrum farartækjum er þetta kjördæmi varla bjóðandi en farartækjum, sem eru búin til fyrir lélega vegi, nánast til að komast um vegleysur. Menn voru að brosa að þessu. Ég mætti einu sinni hv. 1. þm. Vestf. á fundi í Bíldudal, og þá var hann að kalla mig og Karl Guðjónsson, sem þar vorum til leiks mættir á móti honum, umboðsmenn Rússa, og þá varð mér að benda fundarmönnum út um dyrnar, að þar stæði rússneskur jeppi og á honum væri þáv. þm. Barð., sem hefði umboð fyrir þessar rússnesku bifreiðar og væri því einasti umboðsmaður Rússa í þessum sal mér vitanlega.

Ég tel sem sé, að hv. þm. hafi ofmælt, þegar hann til þess að slá nokkrum ljóma á sinn þingmannsferil, nokkuð langan þingmannsferil, sagði um hv. 4. þm. Vestf.: Hann var ekki að fjölyrða um það, hve mikið hefur áunnizt í vegamálum Vestfjarða frá því að ég varð þm. Nú er hægt að aka um allt kjördæmið. — Ég hef sannað og sýnt fram á, að þetta er mikil fjarstæða. Það er mikið oflof um afrek hv. þm. að segja, að nú sé árangurinn sá, að það sé akfært um allt kjördæmið. Það, sem við þyrftum nú að fá í staðinn fyrir rannsókn, er það, að Árneshreppur kæmist í akvegasamband við akvegakerfi landsins. Það væri vel að verki verið, ef það fengist í gegn á þessu þingi, og það þarf ekkert að rannsaka til þess. Það þarf hvorki að rannsaka vegarstæðið frá Ingólfsfirði til Ófeigsfjarðar né gera neina sérstaka rannsókn á því, hvað það kosti. Vegamálastjóri veit ósköp vel nokkurn veginn, hvað það kostar að leggja hvern km vegar, bæði á Vestfjörðum og annars staðar. Og það þarf ekkert annað en mæla vegalengdina út á korti. Það er ekki rannsókn, sem þarf til þess að Árneshreppur komist í akvegasamband. Það þarf fjárveitingu, og það þarf framkvæmdir og ekkert annað. Við erum tilbúnir án nokkurrar rannsóknar að fá þennan veg lagðan. í annan stað, það þarf fjárveitingar til brúa og vega, til þess að Snæfjallahreppur í Norður-Ísafjarðarsýslu komist í akvegasamband við akvegakerfi landsins, hvorki rannsókn né neinar áætlanir, þær koma að engu haldi. Þá þarf í þriðja lagi stórkostlegar fjárveitingar til þess, að ytri hluti Ögurhrepps sé í akvegasambandi. Hann hefur engan veg nú. Það þarf fjárveitingar til þess að leggja meginhlutann af aðalvegunum um Vestfirði. Þetta eru, eins og hv. þm. þó í öðru orðinu játaði, að miklu leyti ruðningsvegir, og það þarf að byggja þá. Það þarf stórfé í að byggja veg yfir Breiðdalsheiði, næsta fjallveg við Ísafjarðarkaupstað. Það var vegleysa s.l. sumar. Það var ekki boðlegt neinum venjulegum bil að klöngrast um þann veg eða vegleysu. Það er gamall ruðningsvegur og hefur verið vanræktur í viðhaldi, og liggur mikið á því, að þessi vegur sé lagður. En rannsókn held ég að sé engin nauðsynleg undirstaða þarna. Vegavinnuverkstjórarnir þekkja þetta land, vegamálastjóri þekkir það líka. Og öll skilyrði til vegagerðar á Vestfjörðum eru svo kunn öllum þeim mönnum, sem um þetta eiga að fjalla, að þeir vita nákvæmlega, hvað km í slíkum vegi kostar. Þeir vita ósköp vel líka, hvaða kröfur eru gerðar til vega, um hæð þeirra og breidd. Og það eru ekki gerðar fyllstu kröfur. Það þarf vitanlega að byggja upp veg líka til byggðar eins og Ingjaldssands. Það eru örfá ár, síðan hægt var að klöngrast það á bil, og svolítið hefur verið lagfærður ruðningsvegurinn þangað, en enginn akvegur hefur verið þangað byggður, enginn vegur, sem neinn getur gert sér vonir um að sé nothæfur nema um hásumarið. Allar byggðirnar vestan Patreksfjarðar bíða eftir því að fá atmennilega vegi.

Þó að hv. þm. segði hér áðan, að það væri hægt að aka um allt Vestfjarðahérað, þá kom ég í eina byggð vestan Patreksfjarðar í sumar, þar sem búendurnir sögðu: Það lítur út fyrir, að íslenzka ríkið ættist ekki til þess, að við séum í íslenzku þjóðkirkjunni, því að okkur er meinað að komast til okkar sóknarkirkju nema með því að fara margfalt lengri vegalengd en ef við fengjum veg hér úr byggðinni okkar og yfir til kirkjunnar í næstu vík. En það hefur ekki fengizt. Það hefur ekki fengizt alla þingmannstíð hv. þm., Gísla Jónssonar, sögðu þeir. Vegur frá Kollsvík til Breiðuvíkur er til, hefur verið lagður krókaleiðir margfalt lengri veg. En þeir eiga ekki veg að sinni þjóðkirkju og sögðu, — mér fannst það vel sagt: Við erum að hugsa um að segja okkur úr þjóðkirkjunni. Við sjáum ekki annað en það sé til þess ætlazt, að við komumst ekki til okkar sóknarkirkju. — Og svo er hv. þm. í ánægjutón að hjala um það hér á Alþingi, að það sé hægt að aka um allt þetta kjördæmi. Það má vel vera, góðir þingbræður, að það gæti gremju í minni rödd líka eins og hv. 4. þm. Vestf., en ég bið engrar afsökunar á því, hef til þess fyllstu rök. (Gripið fram í.) Systkin, já, það er réttara, og það skal heldur hafa það, sem réttara er. Þingsystkini heitir það.

Nei, ég bíð ekki eftir því með neinni eftirvæntingu, hvort þessi fánýta till. verður samþ. eða felld. Hún gerir ekkert tjón, nema hún helzt yrði til tafa, vegna þess að menn gætu vitnað til þess, að víðtæk rannsókn væri í gangi og það væri ekki ástæða til fjárveitinga eða aðgerða, fyrr en henni væri lokið. Þess vegna finnst mér, að hún væri líkleg til þess að gera heldur tjón en gagn. En það verður þá varla mikið, og ef flm. hefðu heldur ánægju af því, að hún yrði samþ., þá get ég alveg eins gefið það eftir.

Brtt., sem hér liggur fyrir, er um það að skora á ríkisstj. að láta Vestfirði og Austurland njóta jafnréttis um lánsfé til vegagerðar við þann landshluta, þar sem að tilhlutan ríkisstj. er nú þegar unnið að vegagerð fyrir lánsfé. Og það vita allir, að hér er átt við hina stóru lántöku til akbrautarinnar milli Reykjavíkur og Keflavíkur, 50 km vegalengd. Þar á að undirbyggja mjög vandlega háan og breiðan veg og steypa slittagið, og er talið, að þetta kosti aldrei undir 50–60 millj. kr. Ég segi fyrir mig, að ef þessi brtt. fengist samþ. og hæstv. ríkisstj. fengist til að skilja hana, — hv. 1. þm. Vestf. taldi sig nú varla geta skilið hana, hún var á svo strembnu máli, — þá mætti ætla, að þarna fengist 25–30 millj. kr. lántaka til vegagerða á Vestfjörðum og önnur eins upphæð á Austfjörðum, 50–60 millj. kr. sem lánsfé til vegagerða á Austfjörðum og Vestfjörðum. Þannig mundi ég skilja till. Og ég játa það, að ég legði miklu meira upp úr því, að þessi breyting á till. fengist samþykkt, af því að hún er þó um áþreifanlega hluti, hún er um það, að veittar verði fjárveitingar sambærilegar til Austfjarða og Vestfjarða og þegar hafa verið veittar eða ákveðið að veita til ákveðins vegar hér á Suðvesturlandinu. Og ég er alveg sannfærður um, að það yrði ekki hægt að ljúka vegargerð á Vestfjörðum, þannig að öll sveitahéruð þar væru komin í akvegasamband við akvegakerfi landsins, þó að 25–30 millj. kr. færu í það, svo mikið er ógert. Má þó búast við, að látið væri sitja á hakanum að byggja þær aðalleiðir, sem enn þá eru óbyggðar í akvegakerfi Vestfjarða. Það er búið að byggja upp veg yfir Dynjandisheiði, en það er óuppbyggður vegur beggja vegna við hana, tugi km til hvorrar handar. Og þegar maður er nú á Dynjandisheiðinni, þá hygg ég, að bæði 1. þm. Vestf. og mér og öðrum Vestfjarðaþm. yrði hugsað til þess, að það vantar nauðsynlega að leggja 11–12 km vegarspotta úr Þorskafirði og upp á Dynjandisheiðarveg og þm. Vestf. hafa átt að fá bréf frá mjög mörgum Bílddælingum um það, að þessi vegur væri lagður, áttu að fá bréf á s.l. þingi, og þessar kröfur eru vakandi og þeim er haldið fast að okkur, því að mönnum hugnast ekki að því, ef Bílddælingur ætlar til Ísafjarðar, að þurfa þá að fara vestur yfir Hálfdán um Tálknafjörð, um Mikladal í Patreksfjörð, um Kleifarheiði frá Patreksfirði og austur eftir Barðaströnd og alla leið eftir Barðaströndinni, um Þingmannaheiði og Þorskafjörð og þaðan til Ísafjarðar, í staðinn fyrir, ef þessi 11 km vegur fengist lagður, að vera þá kominn upp á Dynjandisheiði og á, beina leið til Ísafjarðar. Menn eru ekki ánægðir með þetta, enda var undirritað bréf af líklega meiri hl. kjósenda í Bíldudal um þetta á s.l. vetri, og hefur þó ekki fengizt einn eyrir í þennan veg enn, með alla þá aðstöðu, sem þessir hv. tillögumenn hafa þó á Alþingi, með stjórnaraðstöðu í bak og fyrir og verandi þar væntanlega flestir eða allir miklir áhrifamenn. Nei, þá er hógværðin svo mikil, þegar menn eru í þessari aðstöðu, að þá koma þeir með fróma ósk um rannsókn og áætlun um vegamál á Vestfjörðum og annað ekki, og þá er þeirra óskum fullnægt. Nei, það, sem hv. fim. tili. ættu að gera núna, væri upp á vestfirzka vísu að skyrpa í lófana og herja nú bæði á Sjálfstfl. og Alþfl. um það að láta almennilegar fjárveitingar koma til vegamála, brúa og hafna á Vestfjörðum á þessum fjárlögum, einkanlega með tilliti til þess, að það séu kosningar í vor. Í upphafi næsta kjörtímabils væri svo hægt að tala í ánægjutón og mala svolítið um það, að mikið hefði áunnizt.

Ég skal svo ekki orðlengja um þetta meira, tel þó málið meira en einnar messu virði. Ég mun með góðri samvizku sitja hjá við atkvgr, um till. hv. þm. Sjálfstfl., Sigurðar Bjarnasonar, Gísla Jónssonar, Birgis Finnssonar og Kjartans J. Jóhannssonar, á þskj. 59, af því að ég tel hana einskis verða, en mundi hins vegar greiða atkv. með till. hv. 4. þm. Vestf., Sigurvins Einarssonar, o.fl. á þskj. 100, af því að ég tel, að í henni felist ákveðin krafa um stórfellda fjárveitingu til Vestfjarðasamgangna, sem mundi, ef samþykkt væri, bæta verulega, en þó hvergi nærri til fulls, úr þessu verkefni, sem þar blasir við og við allir vitum að er ekkert hégómamál að koma áfram, því að það er þannig, að það er hvert byggðarlagið á fætur öðru að leggjast í eyði á Vestfjörðum. Ketildalahreppurinn, sem Gísli Jónsson, hv. 1. þm. Vestf., er alinn upp í, er að visna upp, er að leggjast í eyði. Og af hverju er hann að leggjast í eyði? Af því að vegirnir komu of seint. Þar var ekkert ræktanlegt land á að ganga nema mýrar, og það þurfti fyrst og fremst skurðgröfur, og þeim var ekki hægt að koma í hreppinn fyrr en vegirnir kæmu, og þá var það orðið of seint. Þá var flótti brostinn í liðið, og þess vegna er Selárdalur í eyði nú. Bakki, sem við Gísli báðir höfum átt heima á, liggur í eyði og hefur legið í eyði í mörg ár, og það eru eftir aðeins tveir bæir í þeim dal, sem þó milli fjalla er allur ræktanlegur. En vegirnir komu of seint, og þess vegna er Ketildalahreppur í eyði. Höfuðástæðan til þess, að Sléttuhreppur lagðist í eyði, var auðvitað einangrunin líka. Ástæðan til þess, að fólkið yfirgaf Grunnavikurhrepp í haust, var líka einangrunin. Það var einn af þeim hreppum á Vestfjörðum, sem ekki voru í akvegasambandi við vegakerfi landsins. Og á 7. tug aldarinnar þola menn ekki við, þegar þeir eru einangraðir og hafa ekki akvegi. Það vofir eyðingarhætta yfir þeim hreppum, sem ég áðan nefndi, bæði Árneshreppi og Snæfjallahreppi og að nokkru leyti Ögurhreppi líka vegna einangrunarinnar, vegna þess að þeir hafa ekki vegi, ekki frumaðstöðu, sem þjóðfélaginu ber að veita þeim, eins og t.d. samband við akvegakerfið. Það þarf ekki, þegar byggðin er farin að grisjast, annað en einn eða tveir búendur taki saman pjönkur sínar og yfirgefi sitt býli, til þess að hrunið komi. Þess vegna erum við ekki fullir af biðlund og ánægju, sem horfum upp á hvert byggðarlagið eyðast á fætur öðru, og það má hver sem vill leggja mér og öðrum það til lasts, að við erum óánægðir. Við erum hræddir um, að okkar hérað sé að leggjast í eyði.