12.12.1962
Sameinað þing: 20. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í D-deild Alþingistíðinda. (2967)

59. mál, vegabætur á Vestfjörðum

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það er ekki ýkjamargt í ræðu hv. frsm., sem ég þarf að víkja að. Hann telur það hina mestu firru, að ekki þurfi að gera áætlun um vegina, eins og þeir flytja till. um. Hvernig hefur þjóðin farið að því að byggja upp alla þessa vegi í landinu, án þess að önnur áætlun hafi verið gerð en sú, sem vegamálastjóri gerir eða lætur gera á hverju ári, um leið og hver kafli vegar er byggður? Það er ekki hægt að komast fram hjá þessu, að það þarf enga áætlun til að leggja vegi, aðra en þá, sem gerð er af vegamálastjórninni á hverju einasta ári.

Hv. þm. minntist á það, að hann hefði nú eiginlega lagt alla vegi í Barðastrandarsýslu, því að þar voru engir vegir til 1942 nema vestur í Þorskafjörð. Hinir eru allir eftir hann! Ég vil ekkert vera að hrella hv. þm. á því að mótmæla þessu. Ég vildi helzt, að hann lifði í þessari skoðun það sem eftir er, ef hann hefur ánægju af því. En þá á hann ekki að lýsa vegunum svona hroðalega eins og hann gerir í þáltill., því að eftir henni að dæma eru ekki til vegir nema yfir hásumarið um nokkrar sveitir Vestfjarða, og það er í mótsögn við það, sem hann var að segja áðan.

Hann sagði, að ég hefði ekki átt neinn þátt í umbótum á vegum í Barðastrandarsýslu, eftir að ég kom á þing. Ég lofa honum bara að vera í þessari trú líka. Fjárveitingarnar voru nefnilega meiri í minni tíð en þær voru hjá honum. En hann á aftur á móti þátt í öðru. Hann á þátt í því, að nú er dýrara að leggja vegi en var, svo miklu dýrara, að hækkun vegafjárins er ekki nema hluti af því, sem fjárlögin hafa hækkað á síðustu 4 árum. Hann má ekki gleyma því.

Hv. þm. sagði, að það væri rangt, sem ég nefndi úr skýrslu vegamálastjóra, að ólagðir vegir í Norður-Ísafjarðarsýslu væru ekki nema 151 km fyrir fjórum árum. Ef skýrslan væri nú svona, þá væri hún bara vitlaus. Það er gott, að vegamálastjóri fær að vita, hvernig hv. þm. lítur á vinnubrögð hans. En samt flytur hann þáltill. um að fela honum að gera áætlun, rannsaka og gera áætlun, manninum, sem sendir Alþingi vitiausa skýrslu.

Þá kvartar hv. þm. undan því, að ég sé að mæla fyrir því, að lánsfé fáist til vegabóta á Austurlandi. Ja, var það nú hneyksli! Nú er einn af hv. þm. Austf. meðflm. að brtt., en frsm. hefur nú gleymt því. En það er sama. Mér þykir jafnsjálfsagt að flytja till. um það eins og Vestfirði, fyrst Austurtand er svona illa sett eins og ég hef nefnt dæmi um. Eða hefur hv. þm. ekkert við það að athuga, að fullgerðir vegir í Austurlandskjördæmi eru 37.2% af þjóðvegunum þar, þegar í flestöllum öðrum kjördæmum, nema Vestfjörðum og reyndar Vesturlandi, eru það 70–83%? Ætli þeir séu eitthvað of vel settir þarna fyrir austan?

Þá kom hv. frsm. með skýringu á flokkuninni á vegunum, sem ég spurði um. Eins og ég sagði, þá stendur það í till., að það séu aðalvegir, sem á að leggja áherzluna á, og ég skildi þetta ekki vel. Hann segir, að þarna sé um að ræða þjóðvegi og atvinnuvegi. Þetta er í fyrsta sinn, sem ég heyri vegi flokkaða í þjóðvegi og atvinnuvegi. Hitt vissi ég um, að það voru til þjóðvegir, sýsluvegir og hreppavegir, en ég hef ekki heyrt þetta fyrr, að það væru til vegir, sem hétu þjóðvegir og atvinnuvegir í þessum skilningi.

Hv. þm. segir, að það sé ekkert sérstakt um lánveitingu þá til Keflavíkurvegar, sem ég minntist á, og segir, að það sé alltaf verið að taka lán í vegi, það sé ekkert nýtt á ferðinni. Ég held, að þetta sé rangt hjá hv. þm. Ég held, að ríkið hafi ekki tekið lán í aðra vegi. Ríkið er ekki að taka neitt lán í vegi, þó að héruðin fái heimild til þess að leggja veg fyrir sina eigin peninga. Eða hefur ríkið greitt vextina af því fé, sem hefur farið í þá vegi, sem unnir hafa verið fyrir lán heiman frá? Ég hef ekki heyrt, að þeir, sem taka lán, þurfi ekki að borga vexti af lánunum. Það eina, sem hefur skeð í þeim tilfellum, er það, að heimahéruðin hafa fengið leyfi vegamálastjórnarinnar til þess að leggja vegi og fá verkstjóra ag vinnuflokka vegagerðarinnar til þess að gera það. Þeir hafa lagt til féð. Um þetta er allt annað að segja hvað snertir lánveitingu til Keflavíkurvegar.

Að lokum drap hv. þm. á það, að ég mundi vera í einhverri hernámsgöngu þarna um Vestfirði, og honum er alveg sérstaklega illa við það, ef menn fara að ganga. Það er honum mikill þyrnir í augum. Menn eiga yfirleitt ekki að ganga, — ganga á móti erlendri ásælni eða kröfum, það eiga menn ekki að gera! Og mér skilst á hv. þm., að hann vitji ekki heldur ganga á móti stefnu stjórnarflokkanna í vegamálum, sem hv. 9. landsk. lýsti í Ed., að vegaféð færi til þeirra héraða, þar sem fólkið er flest. Hann vill ekki ganga gegn þeirri stefnu heldur. Hann vill ekki ganga. En ætli hann vilji þá skríða?

Hæstv. vegamálaráðherra var að víta mig fyrir, að ég hefði fundið að því eða réttara sagt minnzt á það, að flugvöllurinn í Patreksfirði væri byggður, án þess að til hans hefði verið nein fjárveiting. Og hann sagði, að ég hefði sagt, að ríkisstj. hefði gert þan í heimildarleysi. En -hann sagði það nú rangt. Ég nefndi ekkert heimildarleysi. Ég sagði, að hún hefði gert það án þess að hafa fjárveitingu og meira að segja eftir að Alþingi var búið að fella fjárveitingu til þessa flugvallar. Hann segir, að þetta hafi verið gert fyrir fé, sem hafi verið óskipt af Alþingis hálfu og ríkisstj. hafi skipt á milli flugvalla. En sannleikurinn er sá, að það var eytt miklu, miklu meira í flugvelli í landinu en fjárveitingin var, og það var þess vegna ekki hægt að byggja flugvöllinn á Patreksfirði fyrir það fé, fyrst það vantaði svo mikið á, að það dygði í það, sem gert var. Hvaðan hæstv. ríkisstj. hefur tekið féð, hvort hún hefur tekið það að láni eða úr kassanum, það skal ég ekkert um segja. En það er held ég óvenjulegt, að Alþingi felli fjárveitingu í ákveðið verk, en svo er verkið unnið fyrir fé af einhverjum óskiptum fjárlagalið. Ég held, að það sé óvenjulegt. En ég var annars að þakka hæstv. ríkisstj. fyrir þetta og ekkert annað. Og ég endurtek þakklæti mitt fyrir flugvöllinn, þótt þeir væru búnir að fella það, stjórnarsinnar, í 4 ár að veita til hans fé.