12.12.1962
Sameinað þing: 20. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í D-deild Alþingistíðinda. (2968)

59. mál, vegabætur á Vestfjörðum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég skal aðeins nota hér örstuttan tíma til þess að gera aths. við ummæli, sem þarf að leiðrétta, en ekki ræða meir efni málsins.

Hv. 4. landsk. sagði, að þessi till. væri aðeins frómar óskir og sáralítils virði. En hún kom þó svo við taugarnar í þessum hv, þm. og einnig hv. 4. þm. Vestf., að þeir geta ekki rætt einu sinni málið efnislega, heldur fara þeir inn á allt aðrar brautir, hafnarframlög o.fl., sem ekki kemur þessu máli við, rússnesk umboð og annað þess háttar, þannig að eitthvað hefur till. snert þeirra hjartastrengi, þótt hún sé ekki veigameiri en þeir vildu vera láta. Ég skal svo ekki ræða um það meira.

En það er rangt hjá hv. 4. landsk., að ég hafi sagt, að það væri hægt að aka um allt Vestfjarðahérað. Ég sagði, að það væri hægt að aka svo að segja á hvern bæ í Barðastrandarsýslu. Vildi ég aðeins leiðrétta þetta. Það var óþarfi fyrir hann að ræða um þessi atriði, eins og hann gerði hér, vegna þess að ég hafði aldrei sagt það og mér var fulltjóst, að ekki var hægt að aka um héraðið, svo að hann hefði getað sparað sér allan þann kafla. Hann minntist á menn, er kæmust ekki í kirkju sína. í þessu sambandi þykir mér rétt að upplýsa, að Rauðasandshreppur er sá einstæðasti hreppur í landinu að því leyti til, að það þarf að fara yfir 7 fjallgarða til þess að komast á hvern bæ. Og ég hygg, að það sé enginn annar hreppur í landinu, sem þannig er settur. En það hefur þó tekizt í einni þingmannstíð og þar sem Sjálfstfl. hefur setið að völdum að koma bílvegum á hvern bæ í Rauðasandshreppi, yfir alla þessa 7 fjallgarða. Og ef hv. þm. heldur, að það hafi ekki kostað nein átök, þá er það mikill misskilningur, enda fékk Rauðasandshreppur alla þá tíð, sem ég sat fyrir þá sem umboðsmaður, sem næst 1/3 af öllu framlagi til veganna í Barðastrandarsýslu, vegna þess að það var viðurkennt, að mennirnir, sem bjuggu við svona erfið skilyrði, þyrftu einmitt að fé, hjálp til þess að geta tengt bæina saman. Hitt er svo rétt, að það er ekki hægt að komast beina leið yfir hálsinn frá Kollsvík til Breiðuvíkur, en það er hægt að komast aðrar leiðir á bílum að og frá kirkjustað.

En hvers vegna lét ekki ríkisstj., sem þessi hv. þm. átti sæti í, leggja þennan veg á þeim tíma, sem þeir sátu við völd? Hvers vegna gerðu þeir það ekki? Voru þeir að ota þessu fólki út úr þjóðkirkjunni? Maður skyldi þó ætla, a,ð hv. 4, þm. Vestf. hefði haft áhuga fyrir því að gera þetta í sínum eigin fæðingarhreppi. En þetta var ein af leifunum, sem þessi hæstv. ríkisstj, lét eftir handa okkur að leysa, og skal ég koma nokkru nánar inn á það síðar.

Mér þykir líka rétt að leiðrétta það, sem er algerlega rangt, að eini umboðsmaður Rússa hér á landi sé 1. þm. Vestf. Ég hef nefnilega aldrei haft þetta Rússaumboð, sem hv. þm. er að tala um. Ég hef nefnilega aldrei lagzt svo lágt að taka að mér umboð fyrir nokkurn Rússa, hvorki á pólitísku sviði, efnahagssviði né viðskiptasviði. Ég hef aldrei haft neitt umboð fyrir þá. Ég ætti að vita það eins vel og hv. þm., hvort ég hef haft það eða ekki, svo að það er alveg óþarfi fyrir hv. þm. að reyna að þvo af sér rússneska litinn með því að reyna að klína því yfir á mig. En því verra er þeirra umboð, að umboðið er pólitískt, að reyna að koma yfirráðum Rússa á Ísland, ekki yfir einhverjum bílum, heldur pólitískt. Að því hefur stefnt allt þeirra starf hér á Alþingi og utan Alþingis. (HV: Ertu alveg viss?) Ég er alveg vísa um það. Ég þekki svo vel hjartalag þessara manna beggja, að ég er alveg viss um það, að það er þeirra hjartans ósk að reyna að koma sem mestum áhrifum á íslenzka pólitík frá Rússlandi. Þó að hv. 4. landsk. vilji bregða á sig grímu í sambandi við þessi mál, það haggar ekkert minni skoðun á þeim málum.

Ekki var nú betur orðuð brtt. við þáltill. en það, að hv. 4. landsk. þurfti að fara að skýra, hvernig hann mundi skilja hana. Ég held, að það þurfi sérstæða skilningsgáfu til þess að geta skilið brtt. þannig, að verði hún samþykkt, tryggi hún Vestfjörðum 30 millj. kr. í vegagerðir. Ég held, að það þurfi að orða hana miklu skýrar, ef á að tryggja það, að Vestfirðir fái 30 millj. í vegagerð, því að eins og ég sagði er till. orðuð þannig, að það er ómögulegt að finna út, hvað ætti að gera, ef hún væri samþ. Ég vænti þess, að hv. allshn. lagi orðalagið á till. þannig, að það verði hægt að skilja hana, ef meiri hl. n. vill láta breyta till. á þann hátt eins og ætlazt er til í brtt.

Það var annað atriði, sem mér þykir tíka nauðsynlegt að leiðrétta hér. Það er verið að drótta því að mér sem 1. þm. Vestf., að ég hafi leynt ákveðnu bréfi í sambandi við Trostansfjarðarveg. Þetta er alveg rangt. Það er viðurkennt af oddvitanum, að hann sendi samrit af þessu bréfi til hv. 4. þm. Vestf.

Þetta var ekkert leyniskjal. Hann hefur að vísu borið það af sér, hann hafi aldrei fengið bréfið, og vill kenna póststjórninni um það. En það geta öll lítilmenni gert. Það geta öll smámenni gert að láta ásaka aðra fyrir, að þeir hafi ekki gert skyldu sína. Við hinir vitum, að hann fékk bréfið, eins og við vitum það líka, að allir þm. Vestf. fengu að vita, hvað í þessu bréfi var. Ég get hins vegar upplýst hv. 4. landsk. um, að þetta mál var rætt á opinberum fundi á Bíldudal og sætzt við þessa menn um það, hvernig þeir vildu láta leysa þessi mál. En einkennilegast var nú, þegar hv. þm, lét það í ljós, að við skyldum ekki gera meiri kröfur í þessum málum núna, af því að kosningar væru fram undan. Ég hef nefnilega aldrei þurft að sækja mín atkv. í Vestfirðingafjórðung með neinum mútum og mun aldrei reyna það. (HV: Eru það mútur að gefa kosningaloforð?) Kosningaloforð, sem ekki er hugsað að uppfylla, eins og hvað eftir annað hefur verið gert af þessum hv. þm., eru ekkert annað en mútur.

Ég spyr svo að síðustu, á meðan ég er að tala við hv. 4. landsk.: Hvers vegna löguðu ekki þessir hv. þm. öll þessi vandamál í vegamálum Vestfirðinga, meðan þeir höfðu hér meiri hl. í ríkisstj.? Því var þá ekki lagður vegur út í Grunnavík? Því var þá ekki lagður vegur um alla þessa staði og vegirnir byggðir upp? Það er alveg óhugsandi verk fyrir hv. 4. landsk. að telja Vestfirðingum trú um það, að ég hafi verið minna liðtækur í vegamálum Vestfjarða en ríkisstj. eða þm, þeir, sem áttu sæti á þingi 1956–1958. Það er alveg óvinnandi verk, hvað sem þeir segja um þessi mál hér á Alþingi.

Hv. 4. þm. Vestf. skal ég aðeins svara því, sem hann bar á mig, að ég ætti sök á því, að nú væri dýrara að byggja upp vegi en áður. Þetta er algerlega rangt. Hann og hans stjórn á árunum 1956–1958 skildu eftir fjárhag ríkisins og þjóðarinnar í því ástandi, sem var óþolandi, og það kom í okkar hlut að rétta það við. Og ef nokkuð hefur orðið dýrara í þessu landi, síðan þessi stjórn tók við, þá er það vegna þeirra, sem stjórnuðu áður og sökktu þá fjárhag þjóðarinnar á kaf, svo að það varð reglulegt þrekvirki að bjarga fjárhagnum frá hruni, eins og hv. 2. þm. Vestf. sagði á þeim tíma, þegar hann sagði, að allt væri að fara hér fram af björgunum og engu væri hægt að bjarga, svo að það er ekki okkar sök. Það er hins vegar hreint kraftaverk af þessari hæstv. ríkisstj. nú að hafa unnið upp álit erlendis og innanlands á núverandi fjárhag þjóðarinnar. Hann skal því beina þeim geiri sínum til síns ágæta samþingismanns, hv. 2. þm. Vestf., en ekki til okkar.

Um önnur atriði ætla ég ekki að svara. Það er ekkert nýtt fyrir mig að hlusta á hv. 4. þm. Vestf. haga orðum sínum þannig, að áheyrendur hlæja og gera grín að þeim orðum, sem hann segir. Það er ekkert nýtt, það hef ég búið við í fjöldamörg ár, svo að ég þarf ekki að vera að svara því.