12.12.1962
Sameinað þing: 20. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í D-deild Alþingistíðinda. (2969)

59. mál, vegabætur á Vestfjörðum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vestf. var nú ekki alveg eins fullur af sjálfsánægju með ástandið um vegamál Vestfjarða eins og í sinni fyrri ræðu. Ég hef því ekki ástæðu til að vita hans ræðu nú, eins og ég áður gerði. Það var miklu minna af sjálfshóli í ræðunni nú, og vottaði þó enn fyrir. Hann sagði, að þessi till. hefði þó komið við taugarnar í mér og hv. 4. þm. Vestf. Það er ekki till. Það er ástandið í vegamálum Vestfjarða, hið hörmulega ástand vegamálanna, sem kemur við taugarnar í mér og helzt hefði þurft að koma við taugarnar í hv. 1. þm. Vestf. líka. Það er ekki við það unandi, að þegar hann lítur yfir þennan langa þingmannsferil sinn, þá skuli hann geta verið rólegur og ánægður yfir ástandinu í vegamálum Vestfjarða. Svo mikill þykkskinnungur hefur einn af þm. Vestfirðinga ekki leyfi til að vera.

Hv. þm. bar það af sér, að hann hefði sagt í sinni fyrri ræðu, að það væri hægt að aka á bíl á hvert heimili í héraðinu. En þetta skrifaði ég þá, þegar hann sagði það, upp eftir honum. Hann sagði: Það er hægt að aka um allt þetta byggðarlag nú. — Hvað átti hann við með „þetta byggðarlag“? Átti hann við Rauðasandinn eða átti hann við Barðastrandarsýslu eða átti hann við Vestfjarðahérað, sem hann er nú þm. fyrir? Ég lagði það þannig út, að hann væri að tala um Vestfjarðahérað. Hann segir nú, að hann hafi átt við Barðastrandarsýslu. En einnig það væri ofsagt. Hann þarf á margan bæinn í Barðastrandarsýslu að klöngrast yfir vegleysur og getur ekki ekið þangað á bil. Sú varð raunin á, þegar hann ættaði til Lokinhamra og Hrafnabjarga s.l. haust. (Gripið fram í: Eru Lokinhamrar þá í Barðastrandarsýslu?) Þeir eru í Vestur-Ísafjarðarsýslu. En ætli þeir séu ekki nokkrir bæirnir í Barðastrandarsýslu, sem hv. þm. æki ekki alveg heim í hlað á? Ég er hræddur um það. En rétt er það, Lokinhamrar eru í Vestur-Ísafjarðarsýslu, en hv. þm. er þm. fyrir það hérað nú, og þangað komst hann ekki öðruvísi en á bát s.l. sumar.

Hann fjölyrti nú nokkuð mikið um, hversu miklar vegabætur hefðu orðið í Rauðasandshreppi í sinni þingmanastíð. Ég efa það ekki, að meginhlutinn af þeim vegaspottum, sem þar eru nú til, hefur orðið til á síðustu 20 árum. En hv. þm. má ekki gera sig ánægðan með, að það hafi eitthvað lagazt í einum hreppi. Hann er þm. fyrir Vestfjarðakjördæmi núna, og það er það, sem gildir, að hann vinni fyrir Vestfjarðakjördæmi og komi auga á þörf þess. Hann má ekki leyfa sér að líta nú á það með sjálfsánægju, hvað áunnizt hafi í Rauðasandshreppi, og vantar þar þó mikið á.

Svo að ég víki að einstöku atriði, sem hv. þm. taldi ástæðu til þess að leiðrétta, þá var það skrýtlan, sem ég sagði um það, þegar ég hafði kallað hann umboðsmann Rússa á Bíldudal, því að hann hafði þá umboðið fyrir rússnesku bifreiðarnar. (GísIJ: Ég hef aldrei haft það.) Aldrei haft það, Gísli Jónsson? Nú, hvers konar er þetta? „Sór svo og sárt við lagði, að svoddan mann þekkti hann ei,“ stendur þar. Það hefur gerzt fyrr. En svo mikið er vist, að þegar ég skellti þessu á hv. þm. á fundinum á Bíldudal og jeppinn stóð fyrir utan dyrnar, þá mótmælti hv. þm. því ekki. Það urðu að líða nokkur ár á milli. Ég hefði lagt meira upp úr þessari neitun nú, ef hann hefði harkalega mótmælt því, að hann væri nokkur umboðsmaður fyrir þessa bílategund. Nei, hv. þm. sagði: Það eru líka góðir bílar. — Það var svarið, sem hann gaf þá. Ég man þetta ósköp vel. Og þess vegna kemur mér enn þá spánskara fyrir núna, að hann skuli neita því, að hann hafi nokkurn tíma verið umboðsmaður fyrir rússneska bifreiðaumboðið, sem nú heitir „Bifreiðar og landbúnaðarvélar“ og hann hefur að vísu ekki lengur.

Þá var það viðvíkjandi bréfinu, þegar Bílddælingar tugum saman (Gripið fram í: 127.) — 127 er sagt, skrifuðu þm. Vestf. bréf á s.l. þingtíma og skrifuðu auðvitað utan á til 1. þm. Vestf. (GísLJ: Og 4.) Ja, það var kannske skrifað annað bréf til einhverra annarra þm., það veit ég ekki. En bréfið til hv. 1. þm. Vestf., hvert átti það að fara? Var það einkabréf til hans? Stendur hann enn í þeirri meiningu? Eða var það bréf um málefni Vestfjarða til Vestfjarðaþingmanna, sem ætlunin var að biðja hann að koma á framfæri? Ég mundi hafa skilið það þannig, og mig grunar, að sumir bréfritararnir hafi skilið það þannig, að það hefði verið ritað utan á það til hv. 1. þm. Vestf., til þess að hann ræddi þetta mál héraðsins við samþm. sina í kjördæminu. (Gripið fram í: Hann gerði það líka.) Hann gerði það ekki fyrr en í ótíma a.m.k. Hann lá á bréfinu langa lengi, fór þannig að þessu leyti ekki heiðarlega með það, sem honum hafði verið trúað fyrir, og það er fyrst, þegar komið er í miðja afgreiðslu fjárlaga á síðasta þingi, að það er minnt á þetta bréf af hv. 4. þm. Vestf., sem þá hafði í símtali fengið vitneskju um bréfið, og þá er getið um það. Og þegar við svo flytjum till. um innihald bréfsins, um þá kröfu, sem Bílddælingarnir báru fram, þá gekk hv. 1. þm. Vestf. í þennan ræðustól og sagði, að við hefðum rofið samkomulag um tillöguflutning viðvíkjandi málefnum kjördæmisins, og taldi okkur brjóta af okkur með því að flytja till. um þennan veg. Þetta kalla ég ekki góða frammistöðu, það verð ég að segja. En nú segir hann, að þetta mál, þetta bréfmál, hafi verið rætt á fundi á Bíldudal, — ég var þar ekki viðstaddur og veit ekki, hvað þar hefur farið fram, — og verið sætzt á málið. Hver var sú sætt? Er sættin á þá lund, að Bílddælingar geri ekki lengur kröfu um fjárveitingu til þessa vegar, telji sér hana ekki lengur nauðsyn, eða er sætzt á málið á þann veg, að nú skuli fjárveiting tekin á þessi fjárlög og vegurinn koma? Ef svo hefur verið um sættargerðina, sem ég vænti að hafi verið, Bílddælingum til gagns, þá vona ég, að ég fái að sjá það í till. meiri hl. fjvn., að efndirnar séu á næsta leiti. Annars megum við eiga von á öðru bréfi, það er alveg áreiðanlegt.

Hv. þm. taldi, að ég hefði verið að gefa þeim vísbendingu um það, þm. Sjálfstfl., að gefa nú rífleg kosningaloforð, af því að kosningar væru að vori. Þarna hefur hann alveg misskilið mál mitt. Ég beindi því til hv. þm. að vera nú ekki með neina tilburði álíka fánýta eins og þessa hégómatill., heldur beita aðstöðu sinni, sem ég tel vera mjög sterka. Fyrrv. formaður fjvn., núv. formaður fjvn., stærsti flokkur þjóðarinnar í samstarfi við Alþfl. með meiri hl., ríkisvaldið í höndunum, þessir aðilar geta gert mikið, ef þeir vilja, og þörfin er mikil á Vestfjörðum að láta verkin tala, og það að láta þetta koma á fjárlögin núna, hvað skuli gert á næsta kjörtímabili, á næsta ári, á fjárlagaárinu 1963, það yrði aldrei flokkað undir kosningaloforð, það væru fuglar í hendi, en ekki á þaki, ekki í skógi. Það væru hlutir, sem kæmu og væri ekki svo auðvelt að smokra sér hjá eftir kjördag. Þess vegna legg ég allt upp úr því, að það sjáist eitthvað áþreifanlegt, sjáist, hvað á að gera og hve miklar fjárveitingar eiga að verða á þessa árs fjárlögum, sem við á næstu dögum förum að fást við að afgreiða. Og ég er alveg viss um það, að hv. 1. þm. Vestf. yrði ekkert sakaður um nein kosningaloforð og kosningabrellur, ef hann sýndi þann dug að koma þessu fram á pappírinn, þótt ekkert væri lagt fram nema prentsvertan og pappírinn núna.

Hann spurði, hv. þm.: Hvers vegna lögðum við ekki alla þessa vegi, þegar vinstri stjórnin var? — Vinstri stjórnin sat í 21/2 ár. Hún gerði ýmislegt, hafði ærnum hnöppum að hneppa. Hún kom líka nokkuð við sögu í samgöngumálum Vestfjarða. Hún kom líka við sögu við atvinnulífið á Vestfjörðum, reisti t.d. ýmislegt úr rústum á Bíldudal, þar sem voru til rústir, því miður, og atvinnulífið hefur notið þess síðan. Það er alveg rétt, æskilegt hefði verið að geta leyst alla hluti þá. En það er aldrei hægt á 21/2 ári að leysa alla hluti. Og krafan, sem ég geri til hv. 1. þm. Vestf., er miklu smávægilegri en krafa hans um, að við hefðum leyst alla hluti á 21/2, ári. Hún em sú að láta nú sjást, þegar hann hefur mjög góða aðstöðu á Alþingi, sem hann lengi hefur haft, verulega á fjárlögum ársins, hvað hann getur gert Vestfjarðakjördæmi til gagns, t.d. í samgöngumátum, í viðbót við öll þau ósköp, sem hann er búinn að gera á seinustu 20 árum, af því að það vantar svo mikið til, þrátt fyrir það þó að hann hafi haft tífalt lengri tíma en vinstri stjórnin fyrir sér. Mínar kröfur og óskir til hans eru því sanngjarnar, miklu sanngjarnari en hans, þegar hann bregður mér og öðrum um það að hafa ekki komið þessu öllu í kring á 21/2 ári. En ég harma það að fá ekki betri undirtektir hjá hv. þm. í valdamikilli aðstöðu um þessi mál heldur en ég hef enn þá fengið og skildi það ekki almennilega, þegar hann fór að tala um, að það væri nú sök sér með veg hér suður frá, sem byggður er upp breiður og hár og á að steypast, því að það væri hernámsbraut. Eiga Vestfirðir kannske að gjalda þess, að þar er ekki hægt að byggja hernámsbrautir? Er þessi áhugi fyrir Keflavíkurveginum kominn frá hæstv. ríkisstj., af því að það sé hernámsbraut, eins og hv. 1. þm. Vestf. kallar það, ekki þjóðvegur, ekki sem áhugi fyrir atvinnuvegi, eins og hann orðaði hér áðan? Við þurfum einmitt að fá byggða upp þjóðvegina á Vestfjörðum í þjónustu atvinnulífsins, í þjónustu fólksins, sem er þar enn þá, og við erum kröfuharðir um þetta, af því að við óttumst, að fólkið sé að hverfa frá sinni byggð vegna þess, hvað þjóðfélagið hefur gert og gerir lítið fyrir það til þess að létta og bæta lífsaðstöðu þess. Á þessum kröfum munum við staglast, og við biðjum ekki afsökunar á því, að við tölum ekki um það í gælutón eða ævintýrastíl. Við berum þetta fram á þann hátt, að ljóst má vera, að okkur er alvara með það. Og það er mikið og margt, sem við þurfum að biðja um og krefjast, og sumt þurfum við að fá strax. Og við gefum ekki grið með það, að það er aðstaða til þess að gera sumt af þessum nauðsynlegustu hlutum og gera þá þegar á þessu þingi, leggja grundvöllinn að framkvæmd þessara hluta á fjárl. ársins 1963.