29.01.1963
Sameinað þing: 26. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í D-deild Alþingistíðinda. (2982)

65. mál, tunnuverksmiðja á Austurlandi

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Í l. um tunnuverksmiðjur ríkisins er sú meginstefna, að reisa skuli í landinu tunnuverksmiðjur, sem smíðað geti allar þær tunnur, sem landsmenn þurfi á að halda undir síld, og enn fremur er gert ráð fyrir því, að versvið tunnuverksmiðjanna geti orðið víðtækara og þær framleiði einnig tunnur undir aðrar vörur. Enn þá vantar mikið á, að tunnuverksmiðjur ríkisins hafi bolmagn til að framleiða allar þær tunnur, sem landsmenn þurfa undir síld. En tunnuverksmiðjur hafa fram að þessu á vegum ríkisins eingöngu verið settar á fót á Norðurlandi.

Í I. um tunnuverksmiðjur ríkisins, 5. gr. þeirra, segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nú telur ríkisstj. þörf á fleiri tunnuverksmiðjum en þeim, sem um getur í 1. gr.,“ þ.e. á Siglufirði og Akureyri, „og er henni þá heimilt að byggja og starfrækja þriðju verksmiðjuna á Austur- eða Norðausturlandi.“

Nú hefur þannig skipazt á síðari árum, að síld hefur legið mjög við Austurland og af þeim miðum verið fært á land mjög mikið ef síld, sem verkuð hefur verið á Austurlandi. Þar hefur því verið notað mjög mikið af tunnum, en á hinn bóginn hefur þurft að færa þær tunnur allar annaðhvort norðan úr landi, íslenzkar tunnur, eða flytja þær inn frá öðrum löndum. Þetta veldur miklum vandkvæðum á ýmsan hátt, auk þess sem það eykur kostnaðinn, og vill oft fara þannig ofan á allt annað, að þeir verði afskiptir með tunnur, sem fjarri uppsprettunni búa, sem í þessu sambandi eru tunnuverksmiðjur ríkisins fyrst og fremst.

Nú er enginn vafi á, að það væri mjög hagfellt þjóðhagslega skoðað að fjölga tunnuverksmiðjum á vegum ríkisins, og er það álit okkar flm., að næstu tunnuverksmiðju ætti að reisa á Austurlandi. Það mundi verða til mikils hagræðis, bæði fyrir sjávarútveginn í heild og þá sérstaklega þá, sem síldveiði stunda, auk þess sem þetta mundi hafa mikla atvinnulega þýðingu fyrir Austurland. Þess vegna höfum við leyft okkur að flytja þessa þáltill., sem nú er til umr., 65. mál hv. Alþ. um tunnuverksmiðju á Austurlandi, og flytjum við hana allir saman þm. af Austurlandi, eins ag hv. þm. mega sjá.

Við teljum, að þessi þáltill. sé alveg í samræmi við meginstefnu í lögunum um tunnuverksmiðjur ríkisins, og í beinu framhaldi af ákvæðum í þeirri löggjöf viljum við fara fram á, að hæstv. Alþingi skori á ríkisstj. að framkvæma 5. gr. þessara laga 1957 með þeim hætti, sem greinir í þáltill.

Ég legg það alveg á vald hæstv. forseta, hvort hann telur, að þessi þáltill. eigi að réttu lagi að ganga til hv. fjvn. eða til allshn. Ég legg það alveg á vald hæstv. forseta, upp á hvoru hann stingur, en ég mundi hallast að því, að till. setti heima í fjvn. En ég vil leyfa mér að fara fram á við hæstv. forseta, að hann ráði því, til hvorrar n. málinu verði vísað.