13.12.1962
Sameinað þing: 21. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

1. mál, fjárlög 1963

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Auk brtt., sem ég flyt ásamt hv. 3. þm. Reykv. og hann hefur þegar gert grein fyrir, hef ég leyft mér að flytja nokkrar aðrar brtt. við frv. til fjárl. á þskj. 189 og vildi gera grein fyrir þeim með örfáum orðum.

Er þar fyrst að nefna till. um nýjan lið á 14. gr., framlag til íþróttahúss í Hafnarfirði, að upphæð 1/2 millj. kr. Á fjárl. þessa árs eru 560 þús. kr. veittar til þeirrar framkvæmdar, en ekkert hefur verið sett á frv. til fjárl. fyrir næsta ár.

Ég efast um, að nokkurs staðar á landinu sé jafnmikil þörf fyrir byggingu íþróttahúss og í Hafnarfirði. Þar er enn notazt við milli 30 og 40 ára gamalt leikfimishús til allrar íþróttastarfsemi innanhúss og leikfimikennslu fyrir skólana í bænum, að öðru leyti en því, að til er smásalur í skólahúsi St. Jósefssystra. Við þessar aðstæður hafa Hafnfirðingar búið í aldarþriðjung, á sama tíma og íbúafjöldi bæjarins hefur sennilega nær fjórfaldazt og stórauknar hafa verið skyldur til leikfimikennslu og almennar kröfur um aðstöðu til íþróttaiðkana æskufólks. Hafnarfjarðarbær hefur því um alllangt skeið unnið að lausn þessa knýjandi vandamáls, og hafin hefur verið bygging nýs íþróttahúss. Til þeirrar framkvæmdar mun nú hafa verið varið um 2 millj. kr., og er hin mesta nauðsyn á, að haldið verði áfram framkvæmdum. En til þess að svo geti orðið, þarf ríkissjóður að taka þátt í kostnaðinum jafnhliða því, sem byggingunni miðar áfram. Hafnarfjarðarbær mun að líkindum áætla um 1 millj. kr. úr bæjarsjóði til framkvæmdanna á næsta ári, og ég tel engan veginn stætt á því, að ríkið kippi að sér hendinni og felli niður sitt framlag, og legg því til, að veittar verði á fjárl. 500 þús. kr. til íþróttahússins.

2. brtt., sem ég flyt, er um nýjan lið á 14. gr., 60 þús. kr. til myndlistarmanna, er kynna skólafólki sýningar sínar. Listkynning er eitt af því þarfara, sem skólarnir hafa með höndum, og er henni þó engan veginn sá sómi sýndur sem skyldi. Einkum tel ég, að myndlist verði þar út undan, þannig að skólafólki sé ekki gefinn nógur kostur þess að fylgjast a.m.k. með því, sem er að gerast í þeirri listgrein á hverjum tíma hér á landi. Bókmenntir eru kynntar með upplestrum í skólum og á annan veg, tónlist á svipaðan hátt, auk þess sem skólanemum er gert kleift að sækja hljómleika með sérstökum kjörum. Á svipaðan hátt er stuðlað að því, að skólafólk sæki leikhús. En mér þykir myndlistin verða nokkuð ómaklega útundan og tel, að með þeirri fjárveitingu, er ég legg til og þó þyrfti að vera drjúgum hærri, ynnist tvennt, sem ég vildi minnast á. Myndlistarmenn, sem enn eru litt þekktir, leggja út í fjárhagslegt áhættuspil við það að halda sýningar á verkum sínum og geta minna haft sig í frammi í þeim efnum en skyldi vegna hinnar fjárhagslegu áhættu við að setja upp sýningu. Tækju þessir aðilar hins vegar að sér að taka á móti skipulögðum heimsóknum skólafólks og fengju til þess fjárstyrk, drægi mjög úr fjárhagslegri áhættu þeirra við að efna til sýninga og þær yrðu með því móti fleiri en ella. Jafnhliða kæmust skólanemendur í bein tengsl við listamennina, bæði hina eldri og kunnari og hina nýju og óþekktari, og ættu þess góðan kost að fylgjast með öllu því, sem gerist í myndlist á Íslandi. Ekki er vafi á því, að slík tengsl og uppeldi ættu eftir að bera sinn ávöxt síðar í auknum áhuga almennings á myndlist, og það yrði að lokum raunhæfasti styrkurinn til listamannanna og jákvæðasti árangurinn af þeirri kynningu, sem ég legg til að stofnað verði til.

3. brtt. mín er um nýjan lið á 17. gr., 50 þús. kr. byggingarstyrk til sumardvalarnefndar mæðra í Hafnarfirði. Það eru, að ég hygg, rúmlega tvö ár síðan samþykkt voru á Alþingi lög um orlof húsmæðra. En í Hafnarfirði hefur sumardvalarnefnd mæðra annazt slíka eða svipaða starfsemi í 8 sumur, og mun þar vera um brautryðjendastarf að ræða. Allt frá sumrinu 1954 hefur þessi nefnd gefið mæðrum kost á 10 daga ókeypis dvöl við góðar aðstæður utan við bæinn. Konur hafa getað haft börn sín með sér, þær sem ekki hafa getað komizt að heiman með öðru móti, og fyrir starf þessarar n. hefur mörg þreytt móðirin í Hafnarfirði fengið sitt fyrsta sumarfrí á lífsleiðinni. Á hverju sumri hafa um og yfir 30 konur ásamt börnum sínum notið ókeypis sumardvalar á vegum sumardvalarnefndar mæðra í Hafnarfirði, og er það allumfangsmikil starfsemi, þegar tekið er tillit til þess, að það svarar til meira en 300 kvenna í Reykjavík. Til þess að auka enn þessa starfsemi hefur sumardvalarnefnd mæðra í Hafnarfirði ráðizt í það að láta byggja færanlegt hús, sem eykur svo starfsmöguleikana, að á næsta ári ættu um 15 konur til viðbótar að geta notið sumardvalar á vegum nefndarinnar. Húsið er vandað og mun hafa kostað rúmlega 100 þús. kr. En n. hefur ekki enn séð fyrir greiðslum í byggingarkostnað. Ég tel, að starf sumardvalarnefndar mæðra í Hafnarfirði sé til svo mikillar fyrirmyndar, að konurnar eigi það fyllilega skilið fyrir sitt brautryðjandastarf, að þeim verði á fjárl. næsta árs veittur a.m.k. 50 þús. kr. byggingarstyrkur, og treysti því, að sem flestir hv. þm. ljái þeim lið.

4, brtt., sem ég flyt, er um nýjan lið á 22. gr. fjárl., heimild til ríkisstj. að taka lán að upphæð allt að 70 millj. kr. til að endurlána landshöfn Keflavíkur og Njarðvíkur til hafnarframkvæmda. Bygging landshafnarinnar í Keflavík og Njarðvík hefur verið talsvert rædd á yfirstandandi þingi og ekki að ástæðulausu, svo brýn og aðkallandi er orðin þörfin á, að verulegt átak verði gert til þess að fullkomna höfnina þar. Fyrir þessu þingi liggur frv. um breyt. á l. um landshöfn í Keflavík og Njarðvík á þann hátt, að hækkuð verði í 70 millj. kr. heimild ríkissjóðs til að ábyrgjast lán til landshafnarinnar, — enn fremur þáltill. frá fulltrúa annars þingflokks um útvegun lánsfjár til framkvæmda þar syðra. Hv. flm. þess frv., sem ég gat um, hefur gert svo rækilega grein fyrir því, hver nauðsyn er á, að verulegt átak sé gert til þess að fullgera fullkomna höfn á Suðurnesjum, nú þegar bátaflotinn fer stórum vaxandi, bæði að fjölda til og meðalstærð báta, sem kalla á stærri hafnir, að ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um það mái ofan í þá ræðu, en vil þó ekki láta hjá liða að minna á og undirstrika þá ályktun, sem samþykkt var á sameiginlegum fundi landshafnarstjórnar, bæjarstjórnar Keflavíkur og hreppsnefndar Njarðvíkur, sem haldinn var í Keflavík 29. sept. s.l. Hún er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Fundurinn lýsir einhuga stuðningi við verkáætlun landshafnarstjórnar frá 1959 um byggingu hafnarinnar, þar sem gert er ráð fyrir, að hægt verði að afgreiða samtímis við góð skilyrði í fyrsta lagi 3 flutningaskip, í öðru lagi 25 fiskibáta af stærðum allt að 160 tonn, í þriðja lagi, að séð verði fyrir geymsluplássi innan hafnar fyrir allt að 150 fiskibáta í stærðum 75—150 tonn. Fundurinn telur ástand í hafnarmálum svo alvarlegt, að stefna verði að því að ljúka fyrrnefndri áætlun á næstu 4 árum. Til þess að svo megi verða, beinir fundurinn þeim eindregnu tilmælum til hæstv. ríkisstj., að hún taki þetta mikla hagsmunamál byggðarlaganna til skjótrar úrlausnar og útvegi fjármagn, um 50—60 millj. kr., svo að uppbygging hafnarinnar geti hafizt af fullum krafti þegar á næsta vori.“

Þar sem á þessu þingi hefur komið fram, að almennur vilji virðist vera fyrir hendi til þess, að eitthvað sé farið að gera í þessu efni, en ekki látið lengur sitja við orðin tóm, tel ég, að tími sé til kominn, að sá vilji verði sýndur í verki, og flyt þess vegna till. um, að ríkisstj. verði heimilað að taka lán að upphæð allt að 70 millj. kr. — til vara 35 millj. kr. — og endurlána landshöfninni til hafnarframkvæmda. Vænti ég þess, að hv. alþm. styðji þá till. í atkvgr.