30.01.1963
Sameinað þing: 27. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í D-deild Alþingistíðinda. (2998)

72. mál, bankaútibú á Snæfellsnesi

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég þakka hv. síðasta ræðumanni fyrir það, að hann styður efni till. En nú fer svo dag eftir dag, að formsatriði virðast vefjast fyrir hv. framsóknarmönnum og þeir sjá ástæðu til að kvarta yfir því, hvernig að málum er unnið, ýmist að þeir séu ekki hafðir þar með í ráðum eða að mál eigi hér ekki heima.

Ég vil í fyrsta lagi benda á, að fordæmi eru fyrir því, að till. sem þessi hafi verið fluttar hér og hafi ekki verið gerðar við það aths. Þeim hefur verið vísað til n. og þær fengið meðferð eins og önnur mál. Nægir að minna á, að það er skammt frá því, að till. kom fram og var til umr. um útibú í Húsavík, þar til Landsbankinn (annaðhvort af þeirri ástæðu eða öðrum, ég skal ekkert um það segja) stofnaði útibúið skömmu á eftir. Fleiri slíkar till. má nefna, svo að fordæmin eru ærin.

Í öðru lagi vil ég benda á það, sem ég nefndi í framsöguræðu, að meiri hl. bankakerfisins er ríkisbankar, og er því ekkert eðlilegra en að Alþingi hafi rétt og ástæðu til að segja það, sem það vill, varðandi bankana. Ég vil ekki halda því fram, að við höfum eins ríka ástæðu til að tala um slíka hluti varðandi einkabanka, sem leyft hefur verið að setja upp.

Það hefur ekki skort á almennar óskir frá Snæfellingum um að fá bankaútibú. Það eru uppi óskir og vonir í svo til hverju þorpi, og mér er kunnugt um, að forustumenn hafa flutt það mál við bankana.

Hv. þm. sagði að lokum, að það ætti að vera óþarfi að nefna þetta mál á Alþingi, af því að ég væri stuðningsmaður stjórnarinnar og ætti þar innangengt. Eru það að því leyti innantóm rök, að ef við gengjum inn á slíkan hugsunarhátt, ættu stuðningsmenn ríkisstj, að leggja öll störf á Alþingi niður, ef stuðningur við ríkisstj. á að þýða, að það sé engin ástæða fyrir þm., sem stjórnina styðja, að flytja nein mál, sem stjórnina varða. Það er fráleitt að flytja þá röksemd, að stjórnarþm. geti ekki flutt mál, eingöngu af því að þeir eigi að hafa greiðari aðgang að ráðh. heldur en aðrir. Ég fellst ekki á slíka röksemd og tel, að það sé full ástæða til að hreyfa þessu máli hér.

Þessi mál eru á hreyfingu, eins og ég nefndi. Það, sem hér gerist, undirtektir á þingi, getur vissulega haft úrslitaáhrif um það, hvort efni till. verður framkvæmt skjótlega eða ekki. Þörfin blasir við, því að Vesturland er eina kjördæmi landsins, þar sem ekkert bankaútibú er enn komið og engin ákvörðun hefur verið tekin um það.