30.01.1963
Sameinað þing: 27. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í D-deild Alþingistíðinda. (3000)

72. mál, bankaútibú á Snæfellsnesi

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég vil í tilefni af ummælum, sem fallið hafa við þessar umr., láta þess getið, að samkv. þeirri löggjöf, sem í gildi er um ríkisbankana og þá einkabanka, sem stofnaðir hafa verið á síðustu árum, er það algerlega á valdi bankanna sjálfra, þ.e.a.s. stjórna bankanna sjálfra, hvort og hvar þeir koma á fót útibúum og starfrækja þau. Ríkisstj. eða viðskmrn. hefur engin afskipti af stofnun bankaútibúa. Enginn bankanna er skyldur til þess að leita samþykkis stjórnarvalda eða viðskmrn. um það, hvort hann kemur á fót útibúi eða ekki. Þessa vildi ég láta getið hér til þess að koma í veg fyrir misskilning um þetta atriði.

Ég skal svo aðeins bæta því við, fyrst ég er staðinn upp á annað borð, að þótt ég sé persónulega þeirrar skoðunar, að ofvöxtur hafi hlaupið hin allra síðustu ár í stofnun bankaútibúa, einkum hér í sjálfum höfuðstaðnum, finnst mér á hinn báginn ekki hafa gætt í nógu ríkum mæli jafnvægissjónarmiða,

þegar litið er á landið sem heild í þessum efnum. Ég fæ ekki séð annað en full rök megi færa fyrir efni þeirrar þáltill., sem hér er til umr., að nauðsyn sé á því, að bankaútibú sé starfandi í þeim landshluta, sem nefndur er í þeirri tillögu.