06.02.1963
Sameinað þing: 28. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í D-deild Alþingistíðinda. (3007)

77. mál, upphitun húsa

Flm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Við hv. 4, þm. Austf. (LJós) flytjum hér till. til þál. um rannsókn á aðferðum til upphitunar húsa. Á síðasta Alþingi vorum við meðflm. að þessari sömu till., en 1. flm. hennar þá var Ingi R. Helgason, sem þá átti sæti hér á hv. Alþ. um skeið sem varamaður. Till. varð ekki útrædd að því sinni og er því flutt hér að nýju.

Efnislega er till. okkar á þá lund, að Alþingi álykti að kjósa 5 manna mþn. til þess að rannsaka til hlítar stofn- og rekstrarkostnað svo og framtíðarmöguleika þeirra aðferða, sem tíðkaðar eru hérlendis við upphitun húsa, með sérstöku tilliti til þess, hvort ekki sé þjóðhagslega rétt og einnig hagkvæmt fyrir viðkomandi aðila, ekki sízt í dreifbýlinu, að stefna að því í sambandi við vatnsaflsvirkjanir næstu áratugi að hita hús hérlendis með raforku.

Við flm. teljum, að með till. okkar sé hreyft máli, sem kunni að hafa verulega fjárhagsþýðingu, bæði fyrir þjóðarheildina og einstaklingana, í framtíðinni og sem jafnvel geti ráðið nokkru um þróun raforkumála okkar næstu áratugina. Við teljum, að brýn nauðsyn sé orðin á, að ekki dragist miklu lengur að meta það með sem gleggstum útreikningum og athugunum sérfróðra manna, hversu hagkvæmt sé að stefna í vaxandi mæli að því að leysa hina aðkeyptu orku, sem að mestum hluta er notuð til upphitunar húsa, at hólmi og nýta til þess þá orku, sem við eigum sjálfir óbeizlaða í vatnsföllum og í jarðhita, og einnig, að þá sé rannsakað og metið hagkvæmt hlutfall á milli hinna innlendu orkugjafa.

Sú staðreynd liggur fyrir, að við Íslendingar þörfnumst stærri hluta heildarorkunotkunar til þess að híta híbýli landsmanna en flestar aðrar þjóðir. Þannig er talið, að í Evrópu almennt fari 28% notaorkunnar til húsahitunar, en hér á Íslandi fara um 53% notaorkunnar til húsahitunar og heimilisnotkunar og til hitunarinnar einnar fara 48,1% af allri notaorkunni, þ.e.a.s. til hennar fer mjög nálægt helmingi allrar þeirrar orku, sem notuð er.

Nú má, að vísu ætla, að þetta hlutfall fari minnkandi með meiri iðnvæðingu, en þó ekki örar en svo, að sérfræðingar áætla, að árið 1970 verði hlutfalli orkunotkunar til hitunar 42%. Ég hef ekki tiltækar nákvæmar tölur um heildarkostnað orkunotkunarinnar, en á það má benda, að árið 1960 nam sala raforku um 190 millj. kr., og innflutningur kola, brennsluolíu og benzíns var þá, 413 millj. Þessu til viðbótar kemur svo sala jarðhita, sem það ár nam fast að 1/5 hluta orkunotkunarinnar, og svo að sjálfsögðu aðflutningsgjöld, álagning og dreifingarkostnaður vegna hinna aðfluttu orkugjafa, sem nemur mjög háum upphæðum. Það er því ekki fjarri að ætla, að kostnaður neytenda orkunnar nálgist nú fast að 1 milljarði kr. á ári. En á næsta áratug er svo áætlað, að orkunotkunin vaxi um 50–60%, þ.e.a.s. fyrir 1970. Ætla ég af þessu, að ljóst megi verða, hversu mikilvægt er, að þessarar gífurlegu orku sé aflað með sem hagkvæmustum hætti og þá ekki sízt til þess þáttarins, húsahitunarinnar, sem tekur um það bil helming af allri orkunotkuninni.

Í þessu sambandi er rétt að athuga, hvernig orkunnar til húsahitunar er nú aflað, en samkv. heimildum, sem komu fram á ráðstefnu verkfræðinga á s.l. sumri, hafa tæp 6% húsahitunar verið framkvæmd með raforku, 30% með jarðhita, 9% með kolum og 55% með olíu. Þannig er aðeins liðlega þriðjungur orkunnar runninn frá innlendum orkugjöfum, en nær því 2/3 hlutar keyptir erlendis frá. Og þá er ekki síður athyglisvert, hversu smár hlutur raforkunnar er í þessu eða aðeins tæp 6%. Hvernig má svo ætla, að þróunin í þessum efnum verði á næstu tímum, miðað við þá stefnu, sem nú er fylgt í meginatriðum, og fyrirætlanir, m.a. um nýtingu jarðhitans, sem flestir virðast vera sammála um að stefna beri að því að beizla, þar sem því verður við komið?

Samkv. spá Jakobs Björnssonar verkfræðings, sem hann gerði grein fyrir á verkfræðingaráðstefnu á s.l. sumri, er reiknað með, að þróunin verði sú, að árið 1970 verði 5% húsahitunar framkvæmd með raforku, 55% með jarðhita og um 40% með olíu. Það er þannig gert ráð fyrir því, að kolin hverfi algerlega úr sögunni og nýting jarðhitans aukist mjög verulega, sem svo til eingöngu stafar af því, hve stór hluti þjóðarinnar býr á jarðhitasvæðinu í og umhverfis Reykjavík. Enn er gert ráð fyrir, að hlutur olíunnar verði mjög stór, eða um 40%, en notkun rafmagns til hitunar híbýla minnki hlutfallslega fremur en hitt og verði aðeins um 5% í staðinn fyrir nálægt 6% nú. Sú skoðun, að hlutur raforkunnar sem hitagjafa til híbýlahitunar haldi áfram að verða mjög óverulegur í framtíðinni eða a.m.k. í náinni framtíð, er byggð á því, að það sé stefna flestra rafveitna nú orðið hér á landi að takmarka hana sem mest til þessara nota við það, sem hún nú er. En sú stefna jafngildir því að slá því föstu, að stórinnflutningur olíu til húsahitunar haldi áfram um ófyrirsjáanlega framtíð að vera óhjákvæmilegur og þeirri geysimiklu þörf, sem við verðum að fullnægja í bráð og lengd og sífellt vex með fjölgun þjóðarinnar að hita híbýli hennar, verði að halda áfram að svara með kaupum á vaxandi magni af hitagjafa, sem flytja verður til okkar með ærnum kostnaði yfir heimshöfin.

Jarðhitasvæði okkar eru að vísu hvergi nærri fullrannsökuð, og því verður ekki fultyrt um, hve stór hluti þjóðarinnar fær notið hans í framtiðinni. En hitt er þó alveg ljóst, að nýting hans er staðbundin við vissa landshluta og byggðarlög og sú lausn, sem hann veitir, verður því ávallt takmörkunum bundin. Sú spurning hlýtur þess vegna að krefjast svars, hvort útilokað sé að leysa vandann með aukinni notkun raforku til híbýlahitunar. Tæknilega séð er því auðvitað ekkert til fyrirstöðu. En spurningin varðar eingöngu fjárhagslegu hliðina. Er eða getur raforkan reynzt álíka eða betur samkeppnisfær við hina aðkeyptu orkugjafa en allir virðast vera sammála um að jarðhitinn sé, þar sem hann er til staðar? Og er sú stefna rétt, sem nú er fylgt, að útiloka sem mest nýtingu raforkunnar til hitunar? Það eru fyrst og fremst þessar spurningar, sem stefnt er að með þessari þáltill. að fá sem allra skýrust svör við, eftir að ýtarlegar athuganir hafa verið gerðar á öllum þeim atriðum, sem þetta mál varða. Með því að fá þessum spurningum svarað væri svo lagður grundvöllurinn að þjóðhagslega réttri stefnu í orkumátum þjóðarinnar, að því leyti sem hér um ræðir.

Auðvitað höfum við flm. þessarar till. ekki neina aðstöðu til að fullyrða fyrir fram um niðurstöðu slíkrar athugunar, sem hér er rætt um. En fram hjá því verður ekki gengið, að sterkar líkur benda til, að hún yrði hagstæð raforkunni sem framtíðarlausn á orkuþörfinni til húsahitunar, a.m.k. þar sem jarðhiti kemur ekki til greina, og þó jafnvel þar, sem hann kemur líka til greina. í mjög athyglisverðu erindi hefur einn færasti sérfræðingur okkar á sviði orkuvísinda, Gunnar Böðvarsson verkfræðingur, komizt að þeirri niðurstöðu, að greiða mætti 35–45 aura fyrir kwst. raforku til húsahitunar miðað við kostnaðarverð þeirra hitunaraðferða, sem nú tíðkast aðallega. Þannig telur hann, að vinnsluverð varma frá Hitaveitu Reykjavíkur við húsvegg svari til raforkuverðs allt að 35 aurum á kwst. og vinnsla varma af gasolíu til 45 aura kwst. Eftir að hafa rakið þetta segir Gunnar svo orðrétt:

„Þetta er allhátt verð, og sýnir það þá athyglisverðu staðreynd, að það er fyllilega réttlætanlegt að nota raforku, sem unnin er á grundvelli vatnsorku og jarðvarma, til húsahitunar, Þegar tekið er tillit til þessa, virðist taflan,“ þ.e.a.s. útreikningar hans, „bera með sér yfirburði innlendra orkugjafa.“

Þetta voru ummæli Gunnars Böðvarssonar, og svo stórathyglisverð sem þau eru, þá verða þau tæpast vefengd að órannsökuðu máli. Og sé það nú svo, að raforka, sem kostar 35–45 aura við húsvegg, sé samkeppnisfær við aðra orkugjafa og þar með talinn jarðhiti, þá er komið að spurningunni um það, hvort líklegt sé, að unnt sé að framleiða raforku við þessu verði eða jafnvel enn lægra verði. í þessu sambandi kemur að sjálfsögðu til greina meiri notkun svonefndrar afgangsorku til þessa heldur en nú er tíðkuð og miðuð er hvað verðtag snertir við að nýta sem bezt framleiðslugetu orkuveranna og flutningsgetu dreifikerfanna milli álagstoppa. í þessu felast vafalaust talsverðir möguleikar, og er allýtarlega gerð grein fyrir þessu í grg. með till. okkar. En mikilvægasta spurningin og sú, sem gæti ráðið um gerbreytingu á öllum viðhorfum, stendur um það, hvort stærri virkjanir en við höfum til þessa ráðizt í gætu borið sig fjárhagslega, m.a. miðað við, að raforkan væri seld að meira eða minna leyti til híbýlahitunar á líku eða lægra verði en því, sem Gunnar Böðvarsson nefnir, hvort þessi markaður fyrir raforku gæti með öðrum orðum orðið undirstaða jafnvel stórvirkjana, sem gætu framleitt orku á miklu lægra verði en okkar tiltölulega smáu orkuver geta nú gert.

Í umr. um mjög stórar virkjanir í sambandi við stóriðju hefur verið gert ráð fyrir, að þær gætu framleitt orku á 13–14 aura kwst., miðað við fulla nýtingu hjá notanda. Slíkar virkjanir mundu vafataust gefa möguleika til þess, a,ð unnt væri að selja raforku til híbýlahitunar langt undir því verði, sem væri samkeppnisfært, miðað við verðiag á núverandi hitagjöfum, ekki sízt þar sem dreifingarkerfið sjálft er mjög víða til staðar og ekki þyrfti að reikna með því nema að einhverju leyti. En hitt yrði einnig mikilvægt rannsóknaratriði, hve smáar virkjanir mættu vera, til þess að þetta yrði fært, og koma þá til ýmis atriði, svo sem samtenging veitukerfa og fleira. En í sambandi við allt þetta mál ber svo vafataust að taka tillit til þess, að ef ekki verður horfið að því ráði að nýta í æ ríkara mæli hina innlendu orkugjafa, þá verðum við um langa framtíð háðir kaupum á orkugjafa, þ.e.a.s. gasi og jarðolíu, sem allar líkur benda til að fari mjög þverrandi og því er líklegt að verði seldur á stöðugt hærra verði á heimsmarkaði. Þannig er því spáð af mikilsvirtum sérfræðingum, að þegar á allra næstu árum muni framleiðsla á olíu verða langt aftur úr eftirspurninni. En sitthvað fleira kemur hér einnig til, sem vert er að hafa í huga. í okkar strjálbýla landi verðum við að halda uppi kostnaðarsömu dreifingarkerfi eða kexfum öllu heldur til flutninga og til sölu á hinum aðkeyptu orkugjöfum, flytja þá um tanga vegu með bifreiðum út um dreifbýlið jafnt á sumrum sem vetrum, oft við erfið skityrði og að sjálfsögðu með ærnum tilkostnaði, bæði fyrir þjóðfélagið og einstaklingana. Þá kemur líka til athugunar sú hliðin, sem snýr að byggingarkostnaði, en það virðist nær óyggjandi, að unnt væri að lækka hann um verulegar upphæðir með því að taka upp rafhitunarkerfi og sömuleiðis að lækka rekstrarkostnað hitunarkerfanna í híbýlum þjóðarinnar.

Þó að ég hafi hér aðeins drepið á helztu atriðin, sem þetta mál varða, þá ætla ég, að það sé sæmilega ljóst, að hér sé um að ræða stórt hagsmunamál, jafnt fyrir þjóðarheildina sem einstaklingana, mál, sem ástæða sé til að tekið sé föstum tökum og mörkuð í stefna af framsýni. En það verður naumast gert nema með ýtarlegum athugunum þar til hæfra manna. Og við flutningsmennirnir álítum sem sé, að slík athugun, sem fyllilega væri hægt að byggja á, megi ekki dragast öllu lengur.

Ég vil svo að lokum vænta þess, m.a. vegna góðra undirtekta, sem þessi þáltill. fékk á síðasta þingi, þó að hún yrði ekki útrædd, að málið hljóti nú greiða afgreiðslu. Ég leyfi mér að leggja til, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. allshn.