06.02.1963
Sameinað þing: 28. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í D-deild Alþingistíðinda. (3015)

85. mál, ábyrgðartryggingar atvinnurekenda vegna slysa á starfsfólki

Flm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Við tveir þm. Alþb., Hannibal Valdimarsson og ég, höfum leyft okkur að flytja hér þáltill. um ábyrgðartryggingu atvinnurekenda vegna slysa, er verða kunna á starfsfólki þeirra við vinnu. Till. er þess efnis, að Alþingi álykti að fela ríkisstj. að láta undirbúa og leggja fyrir Alþingi frv. til l., sem geri atvinnurekendum að skyldu að kaupa fullnægjandi ábyrgðartryggingu fyrir slysabótum, sem á atvinnureksturinn kunna að falla.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að oft hendir það, að slys verða á fólki við störf. Viðkomandi atvinnurekandi er þá lögum samkv. skaðabótaskyldur í mörgum tilfellum fyrir slíkum slysum, og einnig getur á atvinnureksturinn fallið með sama hætti bótaskylda vegna tjóns, sem umsvif í atvinnurekstri kunna að valda á eignum annarra manna. Flest meiri háttar atvinnufyrirtæki tryggja sig fyrir slíkum skakkaföllum, fyrir slíkum tjónum, sem á þau kunna að falla, og er þá ekki um annað að ræða en að viðkomandi atvinnurekstur reiknar með því sem óhjákvæmilegum útgjaldalið í sinum rekstri að borga iðgjöld af slíkri tryggingu. En því miður á þetta alls ekki við um allan atvinnurekstur í landinu. Fjölmargir atvinnurekendur eru með atvinnurekstur sinn atgerlega ótryggðan í þessu tilliti, og þegar slysabótaskylda fellur á slíkan atvinnurekstur, verður það í fyrsta lagi atvinnurekstrinum mjög þungt í skauti að standa undir því og kyrkir venjulega frekari framþróun hans, því að slíkar skaðabótaupphæðir geta stundum verið verulegar. En það, sem verst er þó, er það, að hinn slasaði maður verður oft af þeim bótum, sem hann lögum samkv. á rétt til, vegna þess að sá atvinnurekstur, sem á að inna þær greiðslur af höndum, er þess vanmegnugur. Stundum kemur það fyrir, að hann getur ekki innt þetta af hendi nema á löngum tíma, en hins eru líka dæmi, að hann inni þetta aldrei af höndum, og sá, sem fyrir slysinu verður, situr uppi ýmist bótalaus með öllu eða fær ekki fullar bætur, þótt hann eigi þær samkv. lögum, vegna þess að sá aðilinn, sem á að inna greiðslurnar af hendi, hefur ekki bolmagn til þess.

Slíkur atvinnurekandi, sem fyrir þess háttar tjóni verður, sem hann er ekki borgunarmaður fyrir eða atvinnurekstur hans er ekki borgunarmaður fyrir, getur ekki staðið í skilum með, er ekki heldur vel kominn, því að á honum hvílir þá venjulega dómkrafa um greiðslu slíkrar skuldar, og það er allt annað en þægilegt að burðast með það á bakinu kannske í gegnum tilveruna án þess að hafa möguleika til þess að inna þær greiðslur nokkurn tíma af hendi.

Það er þess vegna augljóst mál, og ég vænti þess, að hv. alþm. sjái þörfina á því að gera öllum atvinnurekstri það að skyldu að tryggja sig fyrir þeim slysabótum, sem á viðkomandi atvinnurekstur kunni að falla. Að sjálfsögðu er eðlilegt, að það sé takmarkað við einhverja hámarksupphæð, en hún þyrfti að vera svo há, að hún væri nægjanleg til að bæta öll þau slys, sem venjulegt er að komi fyrir. Hver sá maður, sem tekur bíl í umferð, verður lögum samkv. að tryggja bifreiðina fyrir því tjóni, sem hún kann að valda öðrum mönnum. Þetta þykir öllum mönnum sjálfsagt. En eins og það er sjálfsagt, að sá, sem tekur bíl í umferð, geri ráðstafanir til þess, að hann geti innt af höndum þær skaðabótaskyldur, sem á hann kunna að falla, þá virðist ekkert eðlilegra en þetta sé látið gilda um hvern þann mann, sem tekur annan mann í vinnu hjá sér eða aðra menn. Það er nokkrum vandkvæðum bundið og þarf til þess, ef vel á, að fara, nokkra sérfræðilega þekkingu að koma ákvæðum þessa efnis inn í lagakerfi, þar sem það ætti bezt við, og þykir okkur flm., að eðlilegust meðferð málsins væri sú, að Alþingi samþykkti áskorun á ríkisstj. að láta semja og leggja fyrir Alþingi lagaákvæði eða frv. til laga, sem gerði atvinnurekendum það að skyldu að kaupa sér ábyrgðartryggingu fyrir þeim slysabótum, sem á þá kunna að falla. Ríkisstj. hefur jafnan í sinni þjónustu lagasmiði, og þar sem hér er í rauninni um mál að ræða, sem fyrir fram verður ekki ætlað að menn skiptist í flokka um eða telji ósanngjarnt, þá teljum við eðlilegast, að þessi leið verði farin.

Till. til þál. shlj. þessari fluttum við sömu þm. á s.l. vetri. Þá, var nokkuð liðið á þing, þegar hún var lögð fram, og náði hún ekki afgreiðslu í það skipti. En það er von okkar, að svo þurfi ekki að fara að þessu sinni, heldur verði till. tekin til afgreiðslu með eðlilegum hraða og hún ekki látin bíða. Og í trausti þess, að hún fái góðar undirtektir og greiða afgreiðslu, leyfi ég mér að leggja til, að umr. um hana verði frestað og till. vísað til hv. allshn.