06.02.1963
Sameinað þing: 28. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í D-deild Alþingistíðinda. (3025)

96. mál, jarðhitarannsóknir á Norðurlandi eystra

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég ætla í tilefni af umr. um þetta mál enn fremur að bæta við ósk hv. þm. Vestf., að ég vænti sömuleiðis, að flm. taki það ekki illa upp, þó að okkur Austfirðingum detti í hug að bera fram viðaukatill. í sambandi við jarðhitarannsóknir. Það er ekki óeðlilegt, að menn hafi áhuga á betri rannsóknum í þessu efni en verið hafa, og því sízt ættum við Austfirðingar að hafa lítinn áhuga í þessu efni, þar sem fram er komin nærri því í blóra við jarðfræðingana staðreynd um það, að jarðhiti muni vera á Austurlandi annars staðar en talið hefur verið. En talið hefur verið, að jarðhiti sé þar á örfáum stöðum og varla teljandi í byggð. Nú hefur það komið upp á diskinn, að jarðhiti hefur fundizt í byggð á Fljótsdalshéraði, og eitt dagblaðanna hefur skýrt frá því á mjög dramatískan hátt, hvernig einn þm. okkar Austf. hætti sér í vetur á tæpasta vaðið, - þessi jarðhiti er nefnilega í vatni, — af einskærum áhuga fyrir málinu, út að vök á vatninu til þess að rannsaka, hvort hér gæti verið um jarðhita að ræða. Það má enginn hætta sér of langt á rannsóknarsviði og ekki frekar þm, en aðrir, og mér finnst eðlilegra og vera frekar í verkahring vísindamannanna, sem eiga að vinna þessi störf, að hætta sér þá eins langt og forsvaranlegt er í sambandi við slíkar rannsóknir. Þetta styður m.a. það, að ég vildi gjarnan, að við Austfirðingar fengjum samþykkta ályktun um, að réttir aðilar tækju að sér rannsókn á Austurlandi og rannsökuðu það ýtarlega, hvar kynni að leynast jarðhiti, sem hefur ekki fram að þessu verið talinn þar í byggð. Og ég geri ráð fyrir því, að flm. líti ekki slíka viðaukatilt, illu auga, þó að hún kynni að koma fram undir meðferð málsins.