20.02.1963
Sameinað þing: 31. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í D-deild Alþingistíðinda. (3033)

100. mál, heitt vatn á Selfossi og að Laugardælum

Helgi Bergs:

Herra forseti. Hv. þm. Ágúst Þorvaldsson, 2. þm. Sunnl., sem ég hef nú tekið sæti fyrir á hv. Alþingi um sinn, flytur á þskj. 121 ásamt hv. 6. þm. Sunnl. till. til þál. um leit að heitu vatni á Selfossi og Laugardælum. Till. hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um, að á vegum jarðhitasjóðs verði gerð leit að heitu vatni í Selfosshreppi og Laugardælum og verði sú leit við það miðuð, að möguleikar finnist til þess að auka hitaveitu til hitunar íbúðarhúsa og iðnaðarframkvæmda á Selfossi.“

Hér er farið fram á það, að ríkið láti á vegum jarðhitasjóðs framkvæma tilraunaboranir, sem megi byggja á aukningu hitaveitunnar á Selfossi. Hitaveitan þar hefur starfað í rúman áratug og verið mikil lyftistöng fyrir það ört vaxandi kauptún.

Það mun hafa verið árið 1947, sem fyrst var farið að bora eftir heitu vatni í Laugardælum með hitaveitu fyrir Selfoss fyrir augum. Og þar eru nú 4 holur, sú grynnsta 160 m djúp og sú dýpsta 372 m. Hiti vatnsins er úr dýpstu holunni 94 stig og meðalhiti úr öllum holunum 74 stig. Og vatnsmagnið hefur til skamms tíma verið nægjanlegt fyrir hitaveitu byggðarinnar austan Ölfusárinnar og til þarfa þess iðnaðar, sem þar er á staðnum, þ.e.a.s. fyrst og fremst mjóikurbúsins, og einnig hefur verið notað heitt vatn frá hitaveitunni fyrir sundhöllina á Selfossi. Nú er hins vegar svo komið, að vatnsmagnið er fullnotað og raunar orðið ónógt vegna hins öra vaxtar kauptúnsins. M.a. hefur orðið að loka þar sundhöllinni um hríð vegna vatnsskorts. Það er nú óhjákvæmilegt að gera þegar á þessu ári ráðstafanir til þess að auka hitaveituna. Færustu sérfræðingar telja allar líkur á nægu vatnsmagni í Laugardælum og í Þorleifskoti, en einnig víðar í nágrenni Selfoss eru líkur á miklum jarðhita.

Hitaveitan á Selfossi hefur aldrei náð til þess hluta kauptúnsins, sem liggur vestan árinnar, og í fyrra fóru íbúar þessarar byggðar fram á það við hreppsnefndina, að ráðstafanir yrðu gerðar til þess, að þeir fengju einnig hitaveitu. Þar sem vatn hitaveitunnar var þá þegar að verða ónógt og sérfræðingar töldu, að heitt vatn væri einnig að finna vestan árinnar, var talið ráðlegast, að borað yrði þar, en hreppurinn hafði ekki bolmagn til þess að ráðast sjálfur í þær framkvæmdir.

Í fyrravetur skrifaði svo hreppsnefndin jarðborunum ríkisins og fór fram á, að borað yrði á þessu svæði. Jarðboranirnar munu hafa sent það erindi áfram til hæstv. ráðh. orkumála, sem brást vel við þessum tilmælum og heimilaði nokkrar upphæðir úr jarðhitasjóði og ríkissjóði, samtals, þegar mér var seinast kunnugt um, 200 þús. kr., til þessara framkvæmda. Á s.l. hausti var svo hafizt handa um borun þarna, og þegar holan var orðin 98 m djúp, var hætt við borunina, a.m.k. í biti, og borinn fluttur á burt. Hitinn í holunni var þá orðinn talsverður, 62 stig, en það var enn ekki komið í vatn, enda er dýptin ekki orðin meiri en hálf dýpt grynnstu holunnar í Laugardalnum. Það hefur ekki tekizt að fá upplýst, hvenær jarðboranirnar hyggjast halda þessari borun áfram, en allmjög mun vera gengið á það fé, sem til ráðstöfunar er, og þess mun því miður varla að vænta, að verkinu verði lokið án frekari greiðsluheimildar.

Auk þess, sem þarna er verið að gera og mjög er þakkarvert, þarf að kanna betur möguleikana á vinnslu heits vatns á þeim stöðum austan kauptúnsins, sem áður voru nefndir. Kauptúnið á Selfossi hefur vaxið mjög ört á undanförnum árum, og sá mikli vöxtur hefur kallað á miklar sameiginlegar framkvæmdir, örar en svo, að litlu samfélagi sé með góðu móti kleift. Á hinn bóginn tel ég, að þjóðfélagið hafi nokkrar sérstakar skyldur við kauptún á borð við Selfoss, sem er eitt gleggsta dæmi þeirrar heillavænlegu byggðaþróunar, sem ber að stuðla að. Þéttbýlismyndanirnar í sveitum og í dreifbýlinu verða ekki aðeins miðstöðvar viðskipta og samgangna, heldur einnig hvers konar þjónustu við dreifbýlið í atvinnu- og menningarmálum. Þar vex og þróast ýmis iðnaður, en einnig fyrir hann er jarðhitinn og nýting hans mjög þýðingarmikil. Það er m.a. af þessari ástæðu, sem mér virðist, að ríkinu beri að stuðla að viðgangi slíkra vaxandi kauptúna, m.a. með því að greiða fyrir jarðhitavinnslu, og ég vænti þess, að hv. Alþingi fallist á þetta sjónarmið með því að samþykkja þáltill., sem hér liggur fyrir.

Fyrir tveimur vikum voru afgreiddar ýmsar till. af svipuðu tagi til hv, fjvn., en þessi till. var þá tekin út af dagskrá vegna fjarveru 1. flm. Ég mun nú leggja til, að þessari till. verði einnig vísað til fjvn. og hæstv. forseti fresti umr., og vænti ég þess, að hv. fjvn. láti till. ekki gjalda þess, að hún hefur af þessum ástæðum orðið aftur úr öðrum.