20.02.1963
Sameinað þing: 31. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í D-deild Alþingistíðinda. (3049)

120. mál, jarðhitarannsóknir á Norðurlandi vestra

Flm. (Einar Ingimundarson):

Herra forseti. Ég hef flutt á þskj. 199 ásamt 5 hv. samþingismönnum mínum úr Norðurl. v. till. til þál. um jarðhitarannsóknir, jarðhitaleit og hagnýtingu jarðhita á Norðurlandi vestra.

Eins og í grg. með till. segir, er víða á Norðurlandi vestra, allt frá mynni Eyjafjarðar að Hrútafirði, að finna heitar uppsprettur ofanjarðar, og auk þess bendir margt til, að á þessu svæði leynist víða í jörð heitt vatn, þótt lítt eða ekki verði þess vart á yfirborði jarðar. Jarðhitadeild raforkumálaskrifstofunnar er kunnugt um hvorki meira né minna en 56 staði á þessu svæði, þar sem jarðhiti hefur fundizt, hann verið kannaður nokkuð og vatnsmagn og hitastig meelt. Langmestan jarðvarma á Norðurlandi vestra er að finna í Lýtingsstaðahreppi í Skagafjarðarsýslu, a.m.k. hvað vatnsmagn snertir, en í þeim hreppi hefur fundizt á 24 stöðum heitt vatn, að vísu mismunandi heitt, allt frá 20 til 74°, en vatnið er óvenjulega mikið, sérstaklega á einum stað, þar kemst það upp í 32 sekúndulítra, en það er á Reykjum í Lýtingsstaðahreppi, og mun það vera eitthvert mesta magn af heitu vatni, sem fundizt hefur á einum stað á Norðurlandi öllu. Vatnið á þessum stað er 67° heitt. Telja flm. till. sérstaka ástæðu til, að kannað verði, með hvaða hætti þessar miklu auðlindir verði hagnýtta,r, en enn sem komið er hefur það að litlu leyti verið gert. Á Reykjarhóli í Seyluhreppi, þ.e. í Varmahlíð í Skagafirði, er óvenjuheitt vatn að finna, þ.e.a.s. 91° heitt og um 10 sekúndulítrar. Hefur þessi varmi nokkuð verið hagnýttur til upphitunar húsa og rekstrar gróðurhúsa á staðnum. Við flm. þessarar till. teljum einnig ástæðu til, að kannað verði frekar en orðið er þetta jarðhitasvæði með það fyrir augum, að gerðar verði áætlanir um frekari virkjun heita vatnsins þar, þar eð telja verður líklegt, að þar finnist meira heitt vatn í jörðu en þegar er vitað um, og mun þess þörf, að það verði aukið, ef unnt er, vegna fyrirhugaðra byggingarframkvæmda á staðnum. Þá viljum við flm. þessarar till. einnig mælast til þess, að rannsakað verði frekar en orðið er jarðhitasvæðið á Reykjum í Miðfirði og möguleikar á virkjun heita vatnsins þar vegna hugmyndar um, að þar verði byggt barnaskólahús fyrir nálæga hreppa Vestur-Húnavatnssýslu.

Þegar á heildina er litið, hefur það mikla magn af heitu vatni, sem er að finna á Norðurlandi vestra, að mjög litlu leyti verið hagnýtt enn þá. Sauðárkrókskaupstaður lét fyrir allmörgum árum hefja boranir eftir heitu vatni í nágrenni kaupstaðarins, og hefur það heita vatn, sem þannig hefur fengizt, jafnóðum verið virkjað til upphitunar íbúðarhúsa í kaupstaðnum og annarra heimilisnota. Eins og áður segir, hefur heita vatnið við Varmahlíð í Skagafirði verið hagnýtt til hitunar íbúðarhúsa, til hitunar skólahússins á Löngumýri og rekstrar gróðurhúsa við Varmahlíð. íbúðarhús og barnaskólahús á Reykjum í Lýtingsstaðahreppi hafa verið hituð með hluta af því mikla magni af heitu vatni, sem þar finnst í jörðu. Samkomuhús á Laugarbakka í Miðfirði hefur verið hitað með vatni úr Reykjalaug, og í athugun er að reisa þar barnaskólahús fyrir nálæga hreppa Vestur-Húnavatnssýslu, eins og ég áður sagði. Auk þess hefur héraðsskólahúsið á Reykjum í Hrútafirði fengið heitt vatn frá byrjun úr hinum heitu uppsprettum þar. Fyrirhugað mun enn fremur vera að reisa skólahús á Reykjum við Reykjabraut í Austur-Húnavatnssýslu og, nýta jarðhitann þar til upphitunar og annarra þarfa fyrir skólahúsið. Þess ber jafnframt að geta, að allmörg býli á Norðurl. v. hafa um skemmrí eða lengri tíma hagnýtt heitar uppsprettur í nágrenni þeirra til upphitunar íbúðarhúsa og til annarra heimilisnota. Það má einnig að lokum geta þess, að forráðamenn Siglufjarðarkaupstaðar, sem er langfjötmennasta byggðarlagið á Norðurl. v., hafa í langan tíma haft mikinn áhuga á, að kannað verði til hlítar, hvort ekki sé unnt að auka svo vatnsrennsli uppsprettnanna í Skútudal við Siglufjörð, að jarðhitinn megi koma að notum fyrir íbúa kaupstaðarins, og var hér á Alþingi í fyrra samþ. þingsályktunartillaga lútandi að þessu.

Af þessari lauslegu upptalningu minni verður nokkuð ráðið, að enn sem komið er hefur hinn mikli jarðvarmi, sem er að finna á Norðurt. v., að mjög litlu leyti verið virkjaður og hagnýttur til hagræðis fyrir íbúa þessa landshluta, ag það er vegna þeirrar staðreyndar, sem þessi till. er flutt, og hljóðar hún þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta, svo fljótt sem auðið er, framkvæma á vegum jarðhitasjóðs rannsókn á þeim jarðhitasvæðum, sem vitað er um á Norðurl. v. og ekki enn hafa verið rannsökuð og nýtt. Einnig verði framkvæmd í þessum landshluta leit að jarðhita á þeim stöðum, sem ætla. má að jarðhiti finnist og mögulegt sé að nýta hann. Þá verði að loknum þessum athugunum gerðar áætlanir um hagnýtingu jarðhitans á hverjum stað.“

Það mun hafa verið á,kveðið, að um þessa till. yrði höfð ein umr. Ég legg því til, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. fjárveitinganefndar.