20.02.1963
Sameinað þing: 31. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í D-deild Alþingistíðinda. (3059)

128. mál, smíði fiskiskipa innanlands

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 233 leyft mér að bera fram þáltill. um smiði fiskiskipa innanlands. Tillögumaður ásamt mér er hv. 5. Norðurl. e. (BjörnJ). Það er í annað skipti, sem við flytjum þessa till. Hún hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að gera hið bráðasta hvers konar ráðstafanir, sem þörf er á, bæði með útvegun nægilegs lánsfjár, tæknilegs undirbúnings, skipulagningar starfsins og á annan hátt, til þess að smíði fiskiskipa færist inn í landið. Sérstaklega skal aura úrræða leitað til þess, að hér hefjist smíði stálskipa frá 70–250 tonna stærð í svo stórum stíl, að fullnægi þörfum þjóðarinnar.“

Það er öllum kunnugt, að við íslendingar höfum fram til þessa að mjög litlu leyti smíðað okkar fiskiskip sjálfir. í þessu efni höfum við að langmestu leyti orðið að leita til annarra þjóða. Er þetta verkefni þó svo nærtækt og svo nauðsynlegt okkur sem eyþjóð og fiskveiðiþjóð, að ætla hefði mátt, að við hefðum talið þetta vera eitt af hinum sjálfsögðustu hlutverkum okkar að leysa af hendi sjálfir. Samt er það svo, þó að við lítum aðeins á tréskipin, að mikill meiri hluti þeirra tréskipa, sem við eigum, 40 smálestir eða stærri, eru smíðuð erlendis, og er það þó hafið yfir allan vafa, að tréskip getum við smíðað sjálfir af öllum þeim stærðum, sem henta til fiskveiða hér við land. En innlendu skinin í fiskiflotanum eru samt í miklum minni hluta. Fyrir nokkrum árum smíðuðum við meira að segja miklu meira af tréskipum en við gerum nú. Það er um afturför að ræða í þessari iðngrein og full ástæða til, að athugað sé, hvers vegna sá samdráttur hefur orðið. Ég hef aflað mér upplýsinga um það, hvað er verið að smíða mikið af skipum innanlands nú á þessu ári. Þær upplýsingar hef ég fengið hjá skipaskoðunarstjóra ríkisins, og segir í bréfi hans, að í skipasmiðastöðinni Dröfn í Hafnarfirði sé verið að smíða eitt eikarskip 140 brúttólestir, í dráttarbrautinni á Akureyri eitt eikarskip 140 lestir, í skipasmíðastöð KEA eitt eikarskip 120 lestir og í Dráttarbraut h/f, Neskaupstað, eitt eikarskip 70 lestir, Skipaviðgerðir h/f í Vestmannaeyjum eitt eikarskip 140 brúttólestir, Skipasmíðastöðin h/f, Ytri-Njarðvík, eitt eikarskip 48 brúttólestir, Stálsmiðjan h/f, Reykjavík, eitt stálskip 130 brúttólestir. Þetta eru alls 7 skip frá 48–140 lestir. Auk þess er verið að smíða nokkra smábáta, Ýmist plankabyggða eða súðbyrðinga og tvo 30 tonna stálbáta fyrir olíufélögin. Það er þannig verið að smíða núna innanlands 13 fiskiskip frá 7–140 lestir, og þessi skip eru alls um 880 brúttólestir, en það er tæplega fimmtungur þess, sem við nauðsynlega þurfum til þess að viðhalda þessum hluta skipaflotans, þ.e. tréskipunum. Hina 4/5 hlutana af tréskipunum kaupum við af öðrum þjóðum.

Það er óskynsamlegt að reikna með lengri meðalaldri fiskiskipa en 20 árum, að talið er, og þá þurfum við a.m.k. 40 skip á ári aðeins til viðhalds flotanum. En til aukningar, ef við hugsum um aukningu, sem auðvitað sjálfsagt er, mundi þarna ekki nægja minna en 40–50 skip árlega, sem samtals þyrftu að vera 4000–4500 brúttólestir.

En þegar við lítum til stálskipanna, erum við enn verr á vegi staddir hvað þá skipasmíði snertir hér innanlands. Og mér er tjáð, að það, sem einkum standi í veginum fyrir því, að stálskipasmíðin færist inn í landið, sé rekstrarfjárskortur innlendra skipasmíðastöðva. Með erlendu stálskipunum fást lán til 5–10–12 ára og jafnvel 15 ára og það sé þessi fyrirgreiðsla, sem valdi því, að þeir geta ekki tekið íslenzku skipin, sem þurfa að fást greidd á mjög skömmum tíma, helzt jafnóðum og bygging er innt af hendi. Það er því nokkurn veginn gefinn hlutur, að það, sem fyrst þarf að gera til þess að færa stálskipasmíðina inn í landið, er fyrirgreiðsla um fjármagn. Vafalaust kæmi sér einnig vel að fá fyrirgreiðslu um tæknilegar leiðbeiningar í sambandi við uppbyggingu státskipasmíðastöðva, en þó hygg ég, að þess sé minni þörf en útvegunar lánsfjárins.

Einhver kynni að segja: Höfum við þekkingu til þess að byggja stálskip af þessari stærð, 70–250 lestir, sem er sú stærð, sem við þyrftum sérstaklega á að halda sem fiskiskipum? Því tel ég að reynslan hafi skorið úr. Hér var byggt stálskip, dráttarbáturinn Magni, og smíði hans lokið árið 1955. Þetta skip er 184 lestir að stærð. Tveimur árum síðar var lokið smíði varðskinsins Alberts, þ.e.a.s. 1957. Það skip er rúmar 200 lestir. Nú eftir síðustu áramót var lokið smíði 130 lesta stálskips hjá Stálsmiðjunni í Reykjavík, og var það fyrsta fiskiskip, sem Íslendingar smíðuðu úr stáli. En þarna liðu, eins og menn sjá, tvö ár milli þess, að Magni og Albert runnu af stokkunum, og síðan liðu 5 ár full, þangað til fyrsta fiskiskipið, sem kom næst, rann af stokkunum hjá Stálsmiðjunni. En hins vegar er talið, að við hefðum þörf fyrir 12 eða 15 skip á ári af þessari stærð og gerð, en höfum fengið 1 skip 3.–4. hvert ár, þegar litið er yfir þetta tímabil, síðan fyrsta skipið var smíðað. Við erum sem sé algerlega háðir öðrum þjóðum, að heita má, hvað snertir smíði stálskipanna, og við það finnst mér og meðflm. mínum að vart verði unað til lengdar. Hér þurfum við því að gera ráðstafanir til fyrirgreiðslu, sem miði að því að færa stálskipasmíðina inn í landið, en smíði þessara þriggja skipa sýnir það og sannar, að íslenzkir iðnaðarmenn geta innt þetta hlutverk af hendi. Það er annað, sem stendur í vegi, en þekkingarskortur. Ég held, að það sé fyrst og fremst fjármagn og gott skipulag, sem þurfi hér að koma til.

Ég fjölyrði svo ekki um þetta mál að sinni. En með þessari þáltill. er til þess ætlazt, að ríkisstj. láti þegar rannsaka, hvað veldur því, að skipasmíði innanlands tekur ekki vexti og viðgangi og er nánast í afturför sem stendur. Síðan er lagt til, að þegar þessari rannsókn sé lokið og orsakir fundnar, þá geri ríkisstj. hvers konar ráðstafanir, sem þörf virðist á, bæði um útvegun nauðsynlegs lánsfjár, tæknilegs undirbúnings, og hún stuðli einnig á sérhvern hátt að því, að skipasmíði færist inn í landið að öðru leyti.

Það er mér ljóst, að þetta verður ekki gert í einu vetfangi. Það er vissulega gott að fara hægt af stað, og það hefur þegar verið gert, svo að við mættum fara að auka hraðann. Við erum að vísu svo heppnir, að mikið hefur verið keypt af nýjum skipum og góðum til landsins á síðari árum. Þá hefur á síðustu tveimur árum verið samdráttur í okkar skipaflota. í hann hafa höggvizt stór skörð og ekki komið ný skip í staðinn, þannig að aukning hafi orðið. Þetta má ekki vera þannig til lengdar, og meiri aukning en nemur viðhaldi flotans þarf því að koma til. Og það þyrftu helzt af öllu að vera stálskip, sem væru smíðuð innanlands, og þyrfti þá sennilega að byggja upp skipasmíðastöðvar í öllum landshlutum, því að það verður líka að sjá fyrir aðstöðu til viðhalds þeirra skipategunda, sem eru á hinum stærri veiðistöðvum, og viðhald stálskipa yrði fljótt aðkallandi, þegar stálskipunum fjölgar í flotanum. Það væri því ekki full lausn á málinu, þó að það rísi 1 eða 2 eða 3 skipasmíðastöðvar hér í Reykjavík eða nágrenni hennar. Ég tel, að þessi iðnaður sé þannig, — og miða ég nokkuð þar við reynslu annarra þjóða, — að þessum skipasmíðastöðum eigi að dreifa um fiskibæina á Íslandi, a.m.k. þannig, að ein slík skipasmíðastöð sé í hverjum landsfjórðungi.

Það er sannfæring okkar flm., að Íslendingar eigi að kappkosta að geta sem allra fyrst smíðað sín eigin fiskiskip og orðið sjálfum sér nógir á því sviði, a.m.k. þannig staddir, að þeir þurfi sem allra minnst til annarra þjóða að sækja, að því er snertir sín algengustu fiskiskip.