27.02.1963
Sameinað þing: 33. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í D-deild Alþingistíðinda. (3086)

151. mál, bættar samgöngur á sjó við Vestfirði

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Við höfum þrír Vestfjarðaþm, leyft okkur að flytja þáltill. á þskj. 279 um bættar samgöngur á sjó við Vestfirði. í henni er lagt til, að Alþingi skori á ríkisstj. að láta fram fara ýtarlega athugun á því, hvernig bezt verði bætt úr þörf Vestfjarða fyrir öruggar og reglubundnar samgöngur á sjó. Skal hraða þessari athugun þannig, að niðurstöður hennar liggi fyrir, þegar næsta reglulegt Alþingi kemur saman.

Rökin fyrir þessari till. eru að sjálfsögðu þau, að sjósamgöngur við Vestfirði hafa verið mjög ófullkomnar undanfarin ár og af því hefur leitt margvíslegt óhagræði ag erfiðleika fyrir atvinnulífið og almenning í þessum landshluta. Ég hygg, að það sé ekki ofmælt, að fyrir síðustu styrjöld hafi skipaferðir til Vestf jarða verið fullt eins örar og áreiðanlegar og þær eru nú. Þá héldu 4 skipafélög uppi samgöngum þangað, Eimskipafélag Íslands, Skipaútgerð ríkisins, Bergenska gufuskipafélagið og Sameinaða gufuskipafélagið. Undir lok síðari heimsstyrjaldarinnar hófust svo flugsamgöngur, sem stórkostleg samgöngubót var að. Hafa þær lengstum verið stundaðar með sjóflugvélum. En síðan hætt var að nota þær, hefur flugsamgöngum við Vestfirði aftur hrakað að miklum mun. Er nú svo komið, að ekki er hægt að tala um öruggar flugsamgöngur nema við einn stað á Vestfjörðum, þ.e. Ísafjarðarkaupstað, en þar hefur verið byggður nægilega stór flugvöllur til þess, að hinar stærri flugvélar Flugfélags Íslands geti athafnað sig þar. En önnur kauptún og sjávarþorp á Vestfjörðum mega flest heita flugsamgangnalaus meginhluta ársins. Við það ástand er að sjálfsögðu ekki unandi, og hætt er við því, að langan tíma taki að byggja upp nægilega stóra flugvelli um alla Vestfirði, til þess að tveggja hreyfla flugvélar Flugfélags Íslands geti lent þar.

En sem betur fer eru nú horfur á stórfelldri breytingu í þessum efnum, eins og minnt hefur verið á í umr. hér á undan í dag. Hinn ötull brautryðjandi á sviði sjúkraflugs hér á landi, Björn Pálsson flugmaður, hefur nú fest kaup á 16 farþega flugvél, sem hann hyggst nota til áætlunarflugs til og frá Vestfjörðum og e.t.v. til fleiri landshluta. Mun sú flugvél geta lent á flestum þeim flugvöllum, sem gerðir hafa verið í nágrenni kauptúnanna vestra. Að þessari áætlunarflugvél Björns Pálssonar mun verða stórkostleg samgöngubót. Það er því skoðun okkar Vestfjarðaþm., að styðja beri Björn Pálsson eftir fremsta megni til þess að taka upp og halda við flugsamgöngum við Vestfirði. Að sjálfsögðu mun svo Flugfélag Íslands halda áfram sinni flugþjónustu við Ísafjörð og nágrenni eins og áður.

En sjósamgöngurnar eru, eins og ég sagði í upphafi, enn þá óleyst vandamál. Er því eðlilegt, að skyggnzt sé um eftir nýjum leiðum til þess að ráða fram úr því. Okkur flm. þessarar till. er kunnugt um það, að nú stendur yfir endurskoðun á allri starfsemi og rekstri Skipaútgerðar ríkisins, þ. á m. fyrirkomulagi strandsiglinga, endurnýjun skipastóls og öflun nýrra og hentugri skipa fyrir fyrirtækið. Við teljum því eðlilegt, að athugun verði látin fara fram á því sérstaklega í sambandi við þessa endurskoðun á starfsemi Skipaútgerðarinnar, hvernig bætt verði úr hinum ófullkomnu sjósamgöngum við Vestfirði, hvort það skuli gert með byggingu sérstaks Vestfjarðaskips, eins og sumir telja að æskilegt sé og hv. 4. landsk. þm. hefur flutt frv. um hér á hv. Alþingi, eða með öðrum hætti.

Á öllum Vestfjörðum búa nú töluvert á 11. þús. manns. Þar er geysimikil framleiðsla og þróttmikið athafnalíf. Flutningaþörf er þar því mikil. Samkv. upplýsingum, sem við flm. þáltill. höfum fengið frá Skipaútgerð ríkisins, fluttu skip fyrirtækisins árið 1959 4006 farþega til Vestfjarða, en 4214 farþega frá Vestfjörðum. Þetta sama ár fluttu skip Skipaútgerðarinnar 4197 tonn af vörum til Vestfjarða, en 1383 tonn af vörum frá Vestfjörðum. Viðkomur á 8 aðalhöfnum voru þá 473. Árið 1960 eru viðkomur á þessum sömu höfnum 489, vörur fluttar til Vestfjarða 3965 tonn og frá Vestfjörðum 1148 tonn. Farþegar fluttir til Vestfjarða eru árið 1960 á vegum Skipaútgerðarinnar 3594, en frá Vestfjörðum 3784. Árið 1961, sem er síðasta árið, sem við höfum tölur um þetta frá Skipaútgerðinni, eru viðkomur 475, vörur fluttar til Vestfjarða 4279 tonn, en frá Vestfjörðum 1199 tonn. Farþegar fluttir til Vestfjarða eru þá 3510, en frá Vestfjörðum 3869.

Frá Eimskipafélagi Íslands hef ég fengið þær upplýsingar, að á s.l. ári hafi skip félagsins flutt tæp 1000 tonn af vörum til Vestfjarðahafna. Farþegaflutningar á vegum Eimskips eru hins vegar hverfandi litlir.

Þá hefur og fyrirtæki Einars Guðfinnssonar útgerðarmanns í Bolungarvík haldið uppi vikulegum ferðum milli Reykjavíkur og Veatfjarðahafna með 160 tonna skipi nokkur undanfarin ár. Hefur það bætt verulega úr flutningaþörfinni og jafnan verið fullhlaðið vörum til hinna ýmsu Vestfjarðahafna alla vetrarmánuðina. Þegar vegir hafa opnazt, hefur hins vegar dregið verulega úr — þessum flutningum. Samtals mun þetta skip, sem ég nefndi og rekið er af fyrirtækjum Einars Guðfinnssonar, hafa flutt um eða yfir 4000 tonn af vörum til og frá Vestfjörðum á ári.

Loks mun skipadeild Sambands ísl. samvinnufélaga hafa flutt nokkurt vörumagn til og frá Vestfjarðahöfnum og enn fremur fiskflutningaskip Jökla h/f.

Þegar það er athugað, að íbúar Vestfjarða eru töluvert á 11. þús. og þar er mikið athafnalíf og framleiðsla útflutningsafurða, verður ljóst, að flutningaþörf þessa landshluta er mjög mikil. Ýmislegt bendir því til þess, að rekstur sérstaks Vestfjarðaskips gæti borið sig. En um það viljum við flm. þessarar till. þó ekkert fullyrða fyrir fram, en teljum eðlilegt, að nákvæm athugun fari fram á flutningaþörfinni og hvernig skynsamlegast verði úr henni bætt. í þessu sambandi leyfi ég mér að vitna til eftirfarandi ummæla í bréfi frá forstjóra Skipaútgerðar ríkisins til eins af flm. þessarar till. Kemst forstjórinn þar m.a. að orði á þessa leið:

„Til hliðsjónar fyrir yður skal þess getið, að m/s Herjólfur, sem er 506 brúttótonn, flutti á s.l. ári 8743 farþega, 9700 tonn af stykkjavöru, 700 tonn af olíu í tönkum og 532 bíla. Rekstrarkostnaður skipsins reyndist 6 millj. 917 þús. kr., en tekjur 6 millj. 570 þús. kr. og rekstrarhalti þannig 347 þús. kr. án afskrifta eða þátttöku í skrifstofukostnaðinum.“

Það er þannig ljóst, að þrátt fyrir það, að Vestmanneyjaskipið Herjólfur hefur á s.l. ári flutt hátt á 9. þús. farþega og nær 10 þús. tonn af stykkjavöru, auk töluverðs annars varnings, þá hefur orðið verulegur halli á rekstri hans á þessu ári. Ég tel rétt, að þessar upplýsingar komi fram og séu hafðar til hliðsjónar, þegar rætt er um það, hvort skynsamlegt sé, að byggt sé sérstakt Vestfjaraskip, sem annist samgöngur, flutninga á fólki og varningi, milli þess landshluta og Reykjavíkur.

Ég tel ekki þörf á að fjölyrða frekar um þessa till. Við fim. hennar teljum brýna nauðsyn bera til, að þær umbætur, sem óhjákvæmilega verður að gera á sjósamgöngum við Vestfirði, verði byggðar á sem traustustum grundvelli og feli í sér sem raunhæfasta úrbót á ástandinu eins og það er nú. Vestfirðir hafa búið við skarðan hlut í samgöngumálum. Þeir eru þrátt fyrir miklar umbætur á síðustu árum langt á eftir í vegamálum, og einnig á því sviði er því brýn þörf stórra átaka. Það er von okkar flm., að þessi till. megi verða til þess að ráða fram úr þeim erfiðleikum, sem Vestfirðingar búa nú við um samgöngur á sjó.

Ég leyfi mér að óska þess, að till. verði vísað til hv. allshn.