19.04.1963
Sameinað þing: 52. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í D-deild Alþingistíðinda. (3092)

151. mál, bættar samgöngur á sjó við Vestfirði

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vestf. beindi þeim tilmælum til mín, að ég gæfi þá yfirlýsingu hér, að þessi mál skyldu verða tekin til athugunar, hvað sem þinglegri afgreiðslu þeirra liði, og ég get með ánægju gert það, vegna þess fyrst og fremst, að þessi mál eru og hafa undanfarið verið í allmikilli athugun.

Það er rétt, sem hv. síðasti ræðumaður, hv. 3. þm. Norðurl. e., sagði hér áðan, að það hefur verið fenginn á vegum hagsýslunefndar erlendur sérfræðingur til þess að kanna málið og gera um það till. Það hefur líka verið sett á laggirnar nefnd manna, sem hafa haft með þetta mál að gera og eru sérfróðir í þessum málum. Ég vil alveg mótmæla þeirri skoðun, sem fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni, að það hafi verið rangt að fá hingað útlending til þess að kynna sér þessi mál og gera um þau till. Hann hefur kannað þau vel og rækilega að mínu viti. Hann er maður, sem í mörg ár hefur unnið að hagsýslu og þekkir þau ráð, sem þar koma til greina, miklu betur en flestir innlendir menn gera, svo að það er alveg óþarfi hjá hv. þm. að gera lítið úr starfi hans.

Hitt getur aftur á móti orkað nokkuð tvímælis, hvaða leiðir skuli fara í málinu. Það hefur verið leitað um samvinnu við forstjóra Skipaútgerðar ríkisins, sem hefur fylgzt með því frá upphafi. Það hefur líka verið fenginn til einn skipstjóri af strandferðaskipunum, sem nú er látinn, Ásgeir heitinn Sigurðsson, hann hefur unnið með í þessum athugunum og fleiri menn, sem hafa starfað á vegum Skipaútgerðar ríkisins. Þessum athugunum er ekki lokið, og það er engin ástæða til þess að fara að dreifa út þeim hugmyndum, sem fram hafa komið, áður en niðurstaða er fengin. En athugunum verður haldið áfram, og ég get gjarnan lofað því, að þegar þeim er lokið og till. liggja fyrir, þá verða þær lagðar fyrir Alþingi.

En þar sem hv. 3. þm. Norðurl. e. vildi gera mikið úr því, að nál. eða áliti hagsýslumannsins hefði ekki verið dreift út hér á þingi, þá vil ég svara því til, að það er engin ástæða til þess að gera það, meðan ekki hefur verið endanlega frá till. gengið. Það eru fleiri mál í þessu sambandi, sem þurfa athugunar við og hér liggja fyrir till. um, eins og smíði nýrra skipa á ýmsum leiðum. Það eru líka till. um athugun á flóabátaferðunum, og ekki sízt eru þær nauðsynlegar. Allt þetta verður tekið til athugunar og lagt fyrir þingið á sinum tíma, þegar athugun hefur farið fram. Og þó að ekki komi þingkjörin nefnd í málið, sem ég legg ekkert upp úr sérstaklega, þá vil ég vænta þess, að hjá þeim sérfræðingum, sem um málið hafa fjallað, — og það eru ekki aðrir en sérfræðingar, sem um það hafa fjallað, — verði sú athugun ekki lélegri en þó að þingkjörin nefnd væri sett í málið nú þegar. Hins vegar verða niðurstöðurnar náttúrlega lagðar fyrir þingið og þingnefndir, sem þá fá það til athugunar og geta þá, ef til vill, síðar sett í það pólitíska milliþn. En ég hef ekki trú á, að sú aðferð gefi betri raun en sú aðferð, sem uppi hefur verið höfð.

Sem sagt, ég vil svara hv. 1. þm. Vestf. því. að athugununum verður haldið áfram, hvað sem afgreiðslu þessa máls hér líður.