27.02.1963
Sameinað þing: 33. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í D-deild Alþingistíðinda. (3097)

157. mál, hagnýting síldarafla við Suðurland

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þessi till. gefur tilefni til þess að vekja athygli á þeim ósið, sem mjög færist í vöxt og einkum þm. hv. Framsfl. standa fyrir, að flytja hér á hinu háa Alþingi till., sem eingöngu eru samdar og fluttar í áróðursskyni, en eru að formi til og jafnvel efni þannig, að þær geta varla talizt þinghæfar, og á það við um þessa till., sem hér er flutt.

Hér er lagt til, að Alþingi skori á ríkisstj. að láta fara fram almenna athugun á því, hvernig hagnýta megi síldaraflann við Suðurland á sem beztan og verðmætastan hátt, og gera að því loknu áætlun um, á hvern hátt ríkið geti bezt stuðlað að því, að hér byggist upp iðnaður, sem vinni sem fullkomnasta vöru úr þessum afla. Hér er í sannleika sagt ekki um að ræða nein veruleg rannsóknarefni, sem upplýsa þurfi. í atvinnuveginum, sem hér er um að ræða innan sjávarútvegsins, er um að ræða mjög víðtæka þekkingu á þeim vandamálum, sem hér er vakin athygli á. Hvert einasta mannsbarn er um það sammála, að nauðsynlegt er að hagnýta síldaraflann, ekki bara við Suðurland, þar sem þessi hv. þm. ætlar sér að vera í íramboði, heldur við allt land, umhverfis allt landið. Hér er ekki um neitt að ræða, sem neina sérstaka athygli þarf að vekja á. En ef það á að vera kjarni þessarar till., að flm. vilji benda á, að ríkið geri ákveðnar ráðstafanir til styrktar þeim atvinnuvegi, sem hér er um að ræða eða hér þarf að koma á fót, þá er það skylda tillögumanns að benda á, í hverju sá stuðningur á að vera fólginn. Það ætti t.d. að segja alveg skýrum stöfum, ef hann meinar eitthvað með sínu máli annað en einfaldan áróður í sínu kjördæmi, hvort hann t.d. ætlast til þess, að ríkið byggi niðursuðuverksmiðju. Það væri þinghæf till. að leggja til, að Alþingi skori á ríkisstj. að byggja t.d. niðursuðuverksmiðju.

Þessi hv. þm. er einn af aðalframkvæmdastjórum stærsta fyrirtækis landsmanna, Sambands ísl. samvinnufélaga. Það fyrirtæki hefur með höndum mikinn og stórvirkan fiskiðnað og á mörgum sviðum, meira að segja einnig á þeim sviðum, sem hann talaði um í sinni framsöguræðu og talað er um í grg., að vanrækt hafi verið. Ef hann meinar það með till., að ríkisstj. eigi að kenna Sambandi ísl. samvinnufélaga eða öðrum, hvernig eigi að reka t.d. niðursuðuverksmiðju, þá er það þinghæf till., en þá á hann að segja það. Ef hann meinar það, að ríkið eigi að styrkja sig eða aðra til þess að reka niðursuðuverksmiðju, er það að vísu ekki þinghæf till., því að það ætti heima í sambandi við fjárlagaumr., en ef hann meinar, að ríkið eigi að hjálpa Sambandinu til þess að fá peninga til að reka niðursuðuverksmiðjur, gæti hann flutt till. um það. Það væri á takmörkum, að sú till. væri þinghæf, því að SÍS ætti að snúa sér að bönkunum, sínum bönkum, sem það hefur góðan aðgang að, og ætti ekki að þurfa hjálp ríkisstj. til þess. Eða ef hann meinar, að ríkið eigi að leita markaða fyrir saltsíld, fyrir niðursuðuvörur, þá á hann að segja það, það væri fullkomlega þinghæf till. M.ö.o.: ef hv. þm. meinar með þessari till., að ríkið eigi að hjálpa hans fyrirtæki, SÍS, eða einhverjum öðrum, sem stunda fiskiðnað, á hann að segja það, og þá á hann að segja, í hvaða formi hann vill að ríkið hjálpi sínu fyrirtæki eða einhverjum öðrum, sem stunda þessa atvinnu eða hafa vanrækt að stunda hana. Sannleikurinn er nefnilega sá, að kjarni í þessu máli er ekki sá, að hér vanti rannsóknir, allra sízt rannsókn á því, sem hvert mannsbarn í landinu veit, ekki sízt í hans kjördæmi, að það þurfi að fullnýta síldaraflann sem bezt. Á þessu þarf enga rannsókn, vegna þess að þar liggja staðreyndirnar allt of augljóslega fyrir. Það, sem hér þarf, eru athafnir, eru framkvæmdir til þess að hagnýta síldaraflann, og við það hafa ýmsir aðilar fengizt, m.a. hans fyrirtæki, en ekki staðið sig nógu vel. Ef að baki till. liggur einhvers konar hjálparbeiðni frá SÍS til ríkisins, vil ég fá að vita, í hverju hjálpin á að vera fólgin. Á hún að vera kennsla? Á hún að vera styrkur? t hún að vera peningar? Á hún að vera markaðsleit? Með því móti væri till. komin í þinghæft form. Í því formi sem hún er núna, er hún eingöngu áróður af lélegasta tagi.

Síldin, sem veiðzt hefur við Suðurland undanfarin ár, hefur, eins og allir vita, aðallega farið til bræðslu, söltunar og frystingar. Aðstaða til vinnslu síldarinnar hefur stórlega batnað undanfarið vegna margvíslegra aðgerða útvegsmanna. Sala á saltsíld og frystri síld hefur einnig gengið vonum framar, þegar höfð er hliðsjón af þeirri gífurlegu aukningu, sem hefur átt sér stað, og því, hversu takmarkaðir síldarmarkaðirnir því miður eru. En til þess að sanna það mál mitt, að mikið hefur verið unnið og mikill árangur hefur náðst í aukinni sölu Suðurlandssíldar, skal ég láta þess getið, með leyfi hæstv. forseta, hver söltun Suðurlandasíldar hefur verið undanfarin 4 ár. 1959 var hún 52065 tunnur, 1960 var hún 78550 tunnur, 1961 var hún 109835 tunnur og 1962 var hún 124296 tunnur. Söltun Suðurlandssíldar hefur því meira en tvöfaldazt á s.l. 4 árum. Og þessar tölur bera sannarlega ekki vitni um, að vanrækt hafi verið að vinna að aukinni nýtingu Suðurlandssíldar eða að afla henni markaða. S.l. 5 ár hefur tekizt að afla nýrra markaða fyrir saltaða Suðurlandssíld í samtals 8 nýjum löndum; og á yfirstandandi vertíð hafa verið gerðir samningar um sölu á síldinni til samtals 11 landa. Hún hefur aldrei verið seld til fleiri landa en einmitt nú. Á undanförnum árum hafa verið gerðar nákvæmar athuganir í öllum neyzlulöndum saltsíldar og einnig í fjölda landa utan hins eiginlega neyzlusvæðis saltsíldar á því, hvort ekki sé unnt að finna markaði fyrir nýjar tegundir saltsíldar.

Hefur stanzlaust verið unnið að því undanfarin ár að gera tilraunir með verkun Suðurlandssaltsíldar eftir nýjum aðferðum. ilrið 1980 var sérstök tilraunastöð starfrækt í Reykjavík á vegum síldarútvegsnefndar. En það er mjög athyglisvert, að á sama tíma og söltun hefur aukizt hér, hafa öll önnur framleiðslulönd saltsíldar orðið að draga úr söltun sinni. Ein tegund framleiðslunnar hefur því miður orðið útundan í þeirri öru þróun, sem hér hefur átt sér stað undanfarið, og það er niðurlagning á síld. Hér á landi eru þó nokkrar verksmiðjur, sem geta lagt niður síld, en afköst þeirra hafa verið nýtt að mjög litlu leyti. Hér er m.ö.o. um að ræða ónýtta afkastagetu til niðurlagningar á síld, og ber þetta kannske skýrara vitni en allt annað um það, hversu raunhæfan grundvöll vantar gersamlega undir það gaspur, sem hv. þm. flutti áðan í framsöguræðu sinni og er einnig að finna í grg. fyrir till., og um það, hversu fullkominn áróður er um að ræða við flutning till. eins og þessarar. Fyrir nokkrum árum var einmitt með tilstilli hins opinbera og á vegum síldarverksmiðja ríkisins reist mjög fullkomin niðursuðuverksmiðja á Siglufirði. En því miður hafa ekki þær vonir, sem tengdar voru við þá framkvæmd, rætzt, því að sala á framleiðslu hennar til útflutnings hefur gengið mjög illa. Svipaða sögu mun vera hægt að segja af öðrum verksmiðjum, að öflun erlendra markaða fyrir framleiðsluvörurnar hefur gengið mjög illa, hverju sem þar er um að kenna.

Kjarni þess máls, sem hér er um að ræða, er því alls ekki sá, að hér sé um að ræða framleiðslugetu í þeirri grein, sem við höfum fyrst og fremst vanrækt. Það sé um að ræða ónotaða framleiðslugetu, vegna þess að þeim, sem þessa framleiðslu hafa stundað, hefur ekki tekizt af einhverjum ástæðum að finna markað fyrir hana erlendis. Ef það er meining hv. þm., — hans aðalmeining með till., að ríkið hefji sérstaka sókn að hjálpa þessum fyrirtækjum til að finna þann markað, sem þau hafa ekki fundið, þá er það út af fyrir sig lofsverður tilgangur, þá ætti hann að segja það.

Fyrst hv. þm. gaf mér tilefni til að taka til máls með flutningi þessarar kyndugu till., vil ég ljúka máli mínu með því að beina til hans tveim fsp., sem ég legg mikla áherzlu á að hann svari, þegar hann kemur hér í pontuna á eftir. Hann á að hafa aðstöðu til þess sem einn af helztu framkvæmdastjórum stærsta fyrirtækja íslendinga og eins stærsta fyrirtækis í fiskiðnaði, sem hér er um að ræða.

Er það ekki rétt, að Samband ísl. samvinnufélaga hafi fengið tilboð um það frá sambandi sænsku samvinnufélaganna fyrir nokkru að byggja fullkomna niðursuðuverksmiðju annaðhvort á Akureyri eða í Reykjavík eða jafnvel bæði á Akureyri og í Reykjavík? Er þetta rétt, eða er þetta ekki rétt? Ef þetta er rétt, fór þá fram athugun á rekstrargrundvelli slíkrar niðursuðuverksmiðju á Akureyri eða í Reykjavík, á öðrum hvorum staðnum eða báðum, og hvað leiddi sú niðurstaða í ljós? Ég veit, að hv. þm. þekkir þetta mál. Ef minni hans er eitthvað óljóst, skal ég hjálpa upp á það á eftir. En ég vil heldur, að hann svari spurningunni sjálfur. Hvað leiddi þessi niðurstaða í ljós? Og hvernig stendur á því, að Samband ísl. samvinnufélaga hefur ekkert hafzt að í þessu máli? Hver er ástæðan fyrir því? Hvers vegna hefur Samband ísl. samvinnufélaga ekki þegið tilboð sænsku samvinnufélaganna um aðstoð við að koma hér á fót niðursuðuverksmiðju til þess að verka síld? Er um að ræða áhugaleysi SÍS á málinu? Sýndi áætlunin, að um ónógan gróða væri að ræða? Eða var um það að ræða, að erfiðleikar væru á því að selja afurðirnar? Þetta vil ég fá að vita af hálfu hv. þm., flm. tillögu þessarar.