10.04.1963
Sameinað þing: 47. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í D-deild Alþingistíðinda. (3175)

178. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Flm. (Matthías A. Mathiesen):

Herra forseti. Á þskj. 332 hef ég ásamt 4 hv. alþm. leyft mér að flytja till. til þál. um endurskoðun á l. nr. 80 11. júní 1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Er gert ráð fyrir því, ef till. þessi verður samþykkt, að ríkisstj. láti fara fram endurskoðun á lögum þessum og leggi frv. að endurskoðaðri löggjöf fyrir næsta reglulegt Alþingi.

Þeir munu afar fáir í dag, ef þá nokkrir jafnvel til, sem viðurkenna ekki, að það er nauðsynlegt hverju lýðræðisþjóðfélagi, að um málefni og samskipti vinnuveitenda og vinnuþiggjenda sé löggjöf, sem kveði á um starfsreglur þeirra eins og um aðra þætti félagsmála. Þeir, sem viðurkenna þessa nauðsyn, viðurkenna um leið sem beina afleiðingu þess, að þessi löggjöf verði að sjálfsögðu að vera þannig úr garði gerð, að hún komi að sem mestum notum, að alla missmíði slíkrar löggjafar verði að leiðrétta, eftir því sem hún kemur í ljós, og hún eins og önnur löggjöf þurfi að kveða sem skýrast á um þá þætti, sem henni er ætlað að fjalla um, svo og að þeir aðilar, sem starfa eiga eftir þessari löggjöf, starfi samkv. henni. í fáum orðum sagt, þeir, sem viðurkenna nauðsyn löggjafarinnar, viðurkenna um leið, að endurskoðun hennar þurfi að fara fram, þegar í ljós koma gallar og ný atriði, til þess að löggjöfin komi að sem mestum notum fyrir þjóðfélagsþegnana og þjóðfélagið í heild.

Löggjöf sú, sem hér um ræðir, er nær aldarfjórðungs gömul. Hún var frumsmíði heildarlöggjafar um þessi mál, en áður, þ.e. 1925, höfðu verið sett lög um sáttatilraunir, og er þá upptalin sú löggjöf, sem hefur verið sett hér á landi um stéttarfélög og vinnudeilur.

Hinn 15. des. 1936 skipaði þáv. atvmrh. nefnd, en í henni áttu sæti þeir Guðmundur Í. Guðmundsson, núv. hæstv. utanrrh., Gísli Guðmundsson alþm., Ragnar Ólafsson hrl. og Sigurjón A. Ólafsson fyrrv. alþm. Var nefnd þessari ætlað að gera till. til þáv. ríkisstj. um löggjöf um réttindi verkalýðssamtaka, afstöðu þeirra til atvinnurekenda og meðferð deilumála milli þeirra aðila, eins og segir í skipunarbréfi nm. Nefnd þessi fékk síðan heitið vinnulöggjafarnefndin. Vinnulöggjafarnefndin lauk störfum sínum í jan. 1938 og lagði þá fyrir ríkisstj. álit sitt ásamt frv. um stéttarfélög og vinnudeilur. Var frv. þetta síðan lagt fyrir Alþingi og samþykkt með nokkrum breytingum.

Þeir, sem kynnt hafa sér álit vinnulöggjafarnefndar, sem atvmrn. síðar gaf út, hljóta að gera sér grein fyrir því, að starf n. var mjög mikið. Hún aflaði sér mikilla upplýsinga, sérstaklega frá þjóðum, sem voru okkur skyldastar og höfðu svipaða þjóðfélagshætti, og töldu nm. rétt, að vinnulöggjöf sú, sem hér yrði samþykkt, yrði byggð á reynslu þessara þjóða.

Það er engum efa bundið, að vinnulöggjafarnefndin vann mikið og merkilegt starf. En hún gerði sér líka grein fyrir því, að hennar verk væru ekki fullkomin frekar en önnur mannanna verk og það bæri að fara að öllu með gát og betra væri að endurbæta löggjöfina, eftir því sem reynsla fengist, heldur en að setja löggjöf um þætti, sem lítil reynsla hafði fengizt fyrir. En í nál, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Vinnudeilur á Íslandi eru tiltölulega ungt fyrirbrigði, og þjóðin sem heild er þessu fyrirbrigði miklu óvanari en flestar aðrar þjóðir. Þess vegna lítur n. svo á og leit svo á þegar í upphafi starfs síns, að íslenzka vinnulöggjöf verði í öllum aðalatriðum að byggja á því, sem reynt hefur verið og vel hefur reynzt annars staðar. N. telur það varhugavert, þegar vinnulöggjöf er sett hér í fyrsta sinn, að taka upp í hana ákvæði, sem væru algjör nýmæli, lítið reynd eða sérlega umþráttuð í öðrum löndum. Hitt er þá nær, þegar löggjöf sú, sem nú kann að verða sett, hefur verið reynd, að bæta þá við hana nýjum ákvæðum, þegar þjóðin hefur vanizt henni í framkvæmd og reynslan hefur sýnt, hvar nýrra viðbótarákvæða er mest þörf. Má því og aldrei gleyma, að þetta, mál er hér, eins og það alls staðar annars staðar hefur verið, á byrjunarstigi mjög viðkvæmt mál, þar sem mörgum hættir til að líta á einstök e.t.v. minni háttar atriði heldur en þýðingu löggjafarinnar í heild og nauðsyn þess að skipa þessum málum til öryggis fyrir verkamenn og atvinnurekendur og atvinnulíf þjóðarinnar í heild.“

Þannig dæma þeir menn, sem sömdu þá löggjöf, sem hér er farið fram á að endurskoðuð verði, sín eigin verk fyrir fram. Og nú að 25 árum liðnum rís sú spurning fyrir þá hina, sem með löggjafarvaldið fara, hvort tíminn og breyttar aðstæður hafa leitt í ljós nú þegar, að ástæða sé til þess, að umrædd löggjöf verði endurskoðuð.

Þeir, sem fylgzt hafa með gangi þeirra mála, sem þessi löggjöf fjallar um, og líta á þessi mál frá þjóðhagslegu sjónarmiði, eru sammála um það, að löggjöfinni um stéttarfélög og vinnudeilur er að mörgu leyti orðið mjög ábótavant eftir þær miklu breytingar, sem átt hafa sér stað í þjóðfélaginu s.l. aldarfjórðung. Því miður höfum við allt of oft horft upp á, að vegna ófullkominnar vinnulöggjafar hafi deiluaðilar á vinnumarkaðinum og þjóðarbúið í heild beðið stórkostlegan skaða, sem með skynsamlegri löggjöf hefði verið hægt að komast hjá.

Ég ætla ekki að fjölyrða miklu meira um þessa till. Það er orðið áliðið þings og til þess að hraða heldur afgreiðslu hennar, vildi ég vera fremur stuttorður, en þó í upphafi varpa fram þeim hugleiðingum, sem ég hér hef nú gert, og benda á, hvernig þeir aðilar, sem í upphafi sömdu þessa löggjöf, gerðu sér grein fyrir því, að til endurskoðunar á henni yrði að sjálfsögðu að koma.

Í grg. með till. bendum við fim. á nokkur atriði, sem við vildum að athuguð yrðu sérstaklega við endurskoðun l., en við gerum okkur að sjálfsögðu grein fyrir því, að hér er bent aðeins á örfá atriði og þá frekast atriði, sem við ætluðum að væru atriði, sem litlar eða kannske engar deilur þyrftu að standa um.

Í fyrsta lagi bendum við á, að leitast verði við að setja sanngjarnar reglur um beitingu verkfalls- og verkbannsréttarins, til þess að atefnt verði að því að minnka það tjón, sem þeir aðilar, sem í vinnudeilum hafa staðið, og að sjálfsögðu þjóðarbúið í heild hefur orðið fyrir, og bendum á, að reglur þessar verði að sjálfsögðu grundvallaðar á þeim sjónarmiðum, sem almennt hafa verið viðurkennd á vinnumarkaðinum, að verkfalls- og verkbannsrétturinn sé neyðarréttur og honum sé beitt sem slíkum, þannig að tryggt verði, að fórnað sé minni hagsmunum fyrir þá, sem meiri verða að teljast.

Þá viljum við mjög benda á, að fastari reglur verði settar um hagstofnun launþega og vinnuveitenda. Erum við sannfærðir um, að upplýsingar, sem slík stofnun á að geta gefið, gætu haft mikil áhrif í þá átt, að til verkfalls eða verkbanns þyrfti miklu sjaldnar að koma. Það hlýtur og er að sjálfsögðu vilji allra, sem með þessi mál fara, að sem sjaldnast þurfi að koma til slíkra átaka og hægt yrði að leysa deilurnar með samningum, og þá er að sjálfsögðu grundvöllurinn til þess sá, að fyrir hendi séu upplýsingar, sem hægt sé að byggja á sanngjarna lausn þeirra deilna, sem upp koma.

Þá bendum við enn fremur á atriði, sem óumdeilanleg eru, svo nem að fyrirbyggja, að þjónusta við börn og sjúklinga verði hindruð með verkfalli eða verkbanni, og að fyrirmæti verði sett um það, að þegar framleiddar vörur og framleiðslutæki verði ekki eyðilögð í slíkum átökum.

Þá bendum við á, að gefinn verði ríflegur tími milli kröfugerðar og verkfalls eða verkbanns og settar verði nánari reglur um það, á hvern hátt til slíkrar stöðvunar skuli koma innan viðkomandi félaga eða félagasamtaka.

Í sjötta lagi bendum við á, að nánari reglur verði settar um félög launþega og félagasamtök og svo félög og félagasamtök vinnuveitenda og þannig um hnútana búið, að þær lýðræðisreglur, sem við byggjum okkar eigið þjóðfélag á, verði ekki fyrir borð bornar þar og einstaklingur í slíkum félagssamtökum yrði ekki þar verr settur en hann er með þeim reglum, sem gilda hér í okkar þjóðfélagi.

Eins og ég gat um áðan, er okkur fullvel ljóst, að þessar ábendingar eru alls ekki tæmandi, nema síður væri. Þær eru hins vegar þannig, að við vildum ekki láta hjá líða að benda á þær. Þegar svo er komið, að löggjöf, sem gegnir jafnþýðingarmiklu hlutverki og löggjöfin um stéttarfélög og vinnudeilur, er orðið ábótavant og tímarnir hafa breytzt þannig, að úrbætur þarf þar að gera, þá hlýtur löggjafinn að grípa þar inn í og láta endurskoða löggjöfina og setja nýja og fyllri löggjöf, því að með því móti erum við að stefna að því, að einstaklingarnir, sem eiga hagsmuna þar að gæta, svo og þjóðarbúið í heild verði fyrir minnstum skaða.

Ég hef svo þessi orð mín ekki lengri. Ég legg til, að umr. verði frestað og till, verði vísað til hv. allshn.