20.11.1962
Efri deild: 20. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (32)

99. mál, framkvæmdalán

Frsm. 1. minni hl (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég er samþykkur lántökunni, sem frv. það, sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir. Ég tel, að Íslendingar komist ekki hjá því að taka erlend lán og hingað til hafi þeir aldrei haft óhag af slíku. Þær upplýsingar, sem hv. frsm. meiri hl. gaf um samanburð á erlendum skuldum ríkisins eða landsins réttara sagt í árslok 1960 og nú, þann samanburð skal ég ekki ræða, en mér leikur forvitni á að vita, hvort í honum koma fram þau frjálsu verzlunarlán einstaklinga og fyrirtækja, sem nú hafa komið til sögunnar.

En þótt ég sé samþykkur því að veita hæstv. ríkisstj, heimild til að taka það framkvæmdalán, sem hér um ræðir, er ég því algerlega ósamþykkur að veita henni það einræðisvald til skiptingar á því lánsfé, sem gert er ráð fyrir í 2. gr. frv. Ég tel, að þjóðinni sé ekki hollt að gefa neinni ríkisstj. slíkt vald og naumast hollt heldur fyrir ríkisstj. að sækjast eftir því að fara með slíkt vald. Ég get ekki heldur fallizt á það, að nægilegt sé að ákveða, að ríkisstj, hafi samráð við fjvn. Alþ. um skiptingu fjárins. Og ég sé ekki, að neinn nauður reki til þess að afgreiða málið svo losaralega. Það hefur verið venja, að lánsfé, sem ríkið tekur, hefur verið ráðstafað með lögum, og ég tel alls ekki ráðlegt að víkja frá þeirri venju. Sízt tel ég það ráðlegt, þegar um jafnháa lántöku er að ræða, 240 millj. kr., því að sú upphæð er stór fjárhæð á okkar mælikvarða. Lítum t.d. á fjárlagafrv. það, sem nú liggur fyrir þessu þingi fyrir árið 1963. Þá blasir við, að þessi upphæð, 240 millj., er meira en tíundi hlutinn af heildarupphæð fjárlagafrv. Og þessi upphæð, 240 millj., er álíka há og ætlað er að aðalupphæð, sem veita á samtals samkv. frv. til raforkumála, vegamála, samgöngumála, vitamála, hafnargerða, flugmála og sjávarútvegsmála. Ég nefni þetta til dæmis um, hve mál þetta er stórt í sniðum í hlutfalli við okkar aðstæður. Og af því má líka sjá, hve sjálfsagt og eðlilegt það er, að Alþingi sjálft deili þessu fé.

Ég er alveg samþykkur þeim anda, sem kemur fram í síðustu mgr. 2. gr. frv., þar sem segir: „Fénu skal einkum varið til að efla útflutningsiðnað, til hafnargerða, raforkuframkvæmda og annarra framkvæmda, sem stuðla að aukningu þjóðarframleiðslunnar og gjaldeyrisöflun.“ En á þessum sviðum, sem þarna eru nefnd, kallar margt að. Þörfin er mikil fyrir framkvæmdalán. Það má meira að segja réttilega tala um lánsfjárhungur. Það er vandi að skipta réttilega þessu fé milli atvinnugreina og framkvæmdafyrirtækja, því að sem betur fer eru margþættir möguleikar okkar Íslendinga í atvinnumálum, og þess vegna er það, að þó að upphæðin sé há, er alls ekki með því fullnægt þörfinni, og þarf vitanlega mjög að gera upp á milli atvinnugreina og fyrirtækja.

Það er því eðlilegt, þegar Alþingi framkvæmir þessa skiptingu, þá sé það gert fyrir opnum tjöldum og þannig, að allir þm. hafi þar jafnan rétt til að gera sínar till. Fjvn. er vitanlega ágæt nefnd og valdamikil á Alþingi. En samt er hún samkv. þingreglum aðeins ráðgefandi. Henni er ekki ætlað að vera annað en ráðgefandi fyrir Alþingi. Henni er ekki ætlað að vera löggefandi líka, og þó að ég sé meðal þeirra manna, sem telja, að Alþingi sé óþarflega fjölmennt orðið, er ég ekki

þeirrar skoðunar, að þetta fjölmenni eigi að gefa fjvn. umboð til að fara með úrslit um löggjafarefni.

Ég skal ekkert á það deila, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki á reiðum höndum till. um þessa skiptingu nú. Raunar er hæstv. ríkisstj. búin að láta í það skína með nokkrum drýgindum alllengi, að hún hafi í smíðum framkvæmdaáætlun og við þær smíðar mjög færa menn, bæði erlenda og innlenda. Og þess vegna mætti segja, að það hefði ekki verið furðulegt, þótt lántökufrv. þessu hefði fylgt a.m.k. brot úr slíkri áætlun til þess að sýna, hvað fyrir vakir, greinilegar en fram kemur í frv. En sleppum því. Ég deili ekkert á ríkisstj. fyrir að hafa ekki til þessar skiptingartill. nú, þegar hún leggur frv. fram. En að sjálfsögðu höfum við stjórnarandstæðingar, sem vissum ekki um lántökuhugmyndina, fyrr en frv, var lagt fram, enn þá minni skilyrði til að hafa nú á hraðbergi skiptingartillögur. En þetta á ekki að þurfa að koma að neinni sök. Ég efast ekki um, að það sé rétt, sem hæstv. ríkisstj. hefur lýst yfir hér á þinginu, að frv. þessu liggi á, og ég vil alls ekki verða til þess að tefja för þess. Skiptingu lánsfjárins má gera með lagasetningu seinna á þessu þingi. Og þess vegna flyt ég till. á sérstöku þskj., sem felur það í sér, að sett verði síðar sérstök lög um skiptingu lánsfjárins, og af því að ég vil styðja að því, að mál þetta geti gengið greiðlega; vil ég óska þess, að þessi till. verði samþ., og ekki hafa þessi orð fleiri.