06.04.1963
Sameinað þing: 46. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í D-deild Alþingistíðinda. (3209)

190. mál, sjúkrahús

Flm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Eins og veðurfari og samgöngum er háttað hér á landi, er óhjákvæmileg nauðsyn að hafa allmörg vel búin sjúkrahús dreifð um landið. Á annan veg er ekki unnt að tryggja sæmilega líf og heilsu íbúanna. Þetta hafa líka landsmenn skilið, og þess vegna hafa kaupstaða- eða héraðsbúar víða lagt hart að sér til þess að koma sér upp dýrum og vel búnum sjúkrahúsum og fengið til þess styrk úr ríkissjóði, eins og lög mæla fyrir um. En þótt erfitt hafi verið að reisa þessi sjúkrahús, þá er komið í ljós, að enn erfiðara er að standa undir rekstri þeirra. Tekjur þeirra eru daggjald, sem ákveðið er af heilbrigðisstjórninni, og rekstrarstyrkur úr ríkissjóði, 10–25 kr. á legudag eftir stærð, búnaði og þjónustu, sem ætlazt er til að þau eigi að geta veitt. Daggjöldin hafa undanfarið hækkað minna en tilkoatnaður, en rekstrarstyrkurinn, sem er lögbundinn, verið óbreyttur frá 1958. Hallinn hefur því farið vaxandi og er að verða mjög þungbær flestum þeim kaupstöðum og héruðum og öðrum, sem eiga og reka sjúkrahúsin, því að í lengstu lög er reynt að veita þjónustu, sem búnaður þeirra og aðrar aðstæður framast leyfa

Það kemur nokkuð oft fyrir, að kostnaður við sjúkling er margfalt meiri en daggjaldið, sem sjúkrahúsið fær. Ég man t.d. eftir, að það kom fyrir, að líf sjúklings reið á því, að unnt væri að fá handa honum lyf, sem aðeins var til í einni lyfjaverzlun í Reykjavík. Veður var svo vont, að ekki var lendandi á staðnum og ekki fært nema stórri flugvél, sem flaug með lyfið og kastaði því niður. Þá kemur nokkuð oft fyrir, að lífsnauðsynlegt er að hafa stöðugan vörð hjá sjúklingi, og kostar það auðvitað miklu meira en daggjaldið. Sem dæmi þess, að koatnaður hefur vaxið meira en hækkun daggjalda, má geta þess, að daggjöldin á landsspítalanum námu 80% kostnaðar, er þau fyrst voru ákveðin, en nema nú ekki nema helmingi eða tæplega það. Við daggjöld landsspítalans eru svo daggjöld hinna sjúkrahúsanna, miðuð, og er því augljóst, að verulega hefur þyngzt sá baggi, sem eigendur þeirra verða að bera, og það eru ekki að öllu leyti þeir sömu og notendur þeirra. Á sumum sjúkrahúsum úti á landi er ekki nema helmingur sjúklinganna úr þeim kaupstað, sem á að bera hallann af sjúkrahúsinu og ber hann.

Til þess að fá þetta mál undirbúið, svo að unnt sé að leiðrétta þetta misrétti á næsta Alþingi, er þessi till. flutt.