06.04.1963
Sameinað þing: 46. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í D-deild Alþingistíðinda. (3227)

197. mál, endurskoðun laga um bjargráðasjóð o.fl.

Flm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Þáltill. þessi, sem er á þskj. 389 og flutt af okkur hv. 8. þm. Norðurl. e. (MJ), fjallar um endurskoðun laga um bjargráðasjóð o.fl. með það fyrir augum, að komið verði á fót tryggingakerfi fyrir landbúnaðinn.

Tryggingamálin eru nú orðin eitt af höfuðmálum þess tíma, sem við lifum. Er því brýn nauðsyn, að nú þegar verði í fullri alvöru tekið til við að undirbúa löggjöf um tryggingamál fyrir landbúnaðinn. Bjargráðasjóður er nú sú stofnun í landinu, sem hefur það hlutverk öðrum þræði að létta af landbúnaðinum þyngstu skakkaföllunum af óáran eða tíðarfarsvöldum. En sú stofnun er engan veginn svo öflug sem þyrfti að vera, auk þess sem segja má, að vegna aðildar kaupstaðanna að sjóðnum sé e.t.v. heppilegra að hafa annað form og aðra skipan á þessum málum. En það eru hinir breyttu tímar, þar sem fjármagnið hefur stórvaxið í búrekstrinum, bæði í stofni og rekstri, sem gerir áhættuna meiri og skakkaföllin stærri og afdrifaríkari en á meðan búskapurinn var frumstæðari.

Nú er í gangi margs konar vísindastarfsemi til þess að fyrirbyggja hin ýmsu fyrirbæri, sem fylgja nýjum háttum og við getum kallað menningarkvilla. Það má vænta mikils árangurs á því sviði til meira öryggis. En ávallt mun þó þörf á tryggingum, og þær á að undirbúa og þeim á að koma í framkvæmd sem allra fyrst.

Ég vil vekja athygli á því, að fyrir þessu Atþingi liggja nú þrjár þáltill., sem eru í raun og veru um alveg hliðstætt efni. Ein þessi till. er frá tveimur þm. Alþb. og hefur þegar verið vísað til hv. fjvn. Frá nokkrum þm. Framsfl. hefur nýlega verið hér útbýtt annarri till., sem einnig fjallar um þessi tryggingamál. Þessi tillöguflutningur ber því ótvírætt vitni, að hér er um mál að ræða, sem er mikils varðandi. Nú er að vísu mjög liðið á þingtímann, en ég vildi vænta þess, um leið og ég legg til, að þessari þáltill. verði vísað til hv. fjvn. til athugunar, að hv. n. vildi taka hana sem fyrst til athugunar og afgreiðslu. Mér sýnist, að til þess ætti að vera tími, enda þótt ekki séu mjög margir dagar eftir af þingi, og vil sérstaklega vitna til þess, að það mun vera óvenjulegt, a,ð um svo að segja sama mál komi fram þrjár þáltill. á sama þingi. Það sýnir, að hér er um mál að ræða, sem vert er að gefa gaum, og ég vil því leggja á það áherzlu, að þessi till. geti fengið afgreiðslu nú á þessu þingi.

Ég legg sem sagt til, að umr. verði nú frestað og málinu vísað til fjvn.