19.12.1962
Sameinað þing: 24. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (323)

1. mál, fjárlög 1963

Karl Kristjánssom:

Herra forseti. Ég hef ásamt þeim hv. 3. og hv. 4. þm. Norðurl. e. leyft mér að flytja nokkrar brtt., sem ég vil nú stuttlega gera grein fyrir. Þessar till., sem ég geri grein fyrir, eru á þskj. 210, undir III og VII.

Fyrst eru það þá vegirnir eða tölul. III. Við leggjum þar til, að vegna Svalbarðsstrandarvegar verði fjárveitingin í stað 225 þús. 330 þús. kr. Heimamenn hafa lánað til vegagerðar þarna og eiga nú hjá veginum í árslok 1962 800 þús. kr. Þetta er vegur, sem íbúar úr tveim hreppum og nokkrum hluta þriðja hrepps flytja afurðir sínar í kaupstað eftir, og þar að auki er þetta varavegur fyrir Norðurlandsveg, þegar Vaðlaheiði gerist ófær, sem oft vill verða. Ef fjárveiting verður ekki hærri en gert er ráð fyrir í till. fjvn. nú, þarf á fjórða ár til að ljúka skuldinni. Ég skal játa, að ekki væri sanngjarnt að láta þá, sem lána til vega hjá sér, sitja fyrir öllum fjárveitingum. Það væri eins og að afhenda þeim, sem fjárráð hafa, fjárveitingarákvarðanirnar. Hins vegar eru heimalán, sem engir vextir greiðast af, sönnun fyrir því, að vegabótanna er mikil þörf og brýn og að menn vilja færa fjárhagslegar fórnir til að fá vegina. Þess vegna á að taka nokkurt tillit til slíkra skulda, þegar Alþingi skiptir vegafé. Till. okkar um hækkun fjárveitingarinnar til Svalbarðsstrandarvegar upp í 330 þús. kr. er spor í áttina, þótt hærri hefði fjárveitingin auðvitað átt að vera. En við töldum, að þýðingarlaust mundi vera að nefna hærri fjárhæð, eins og ástatt er. Hins vegar teljum við ósanngirni, ef þessi brtt. okkar verður ekki tekin til greina.

Næst eru svo Fnjóskadalsvegir: Við leggjum til, að þeir fái sömu fjárveitingu og Svalbarðsstrandarvegur, eða 330 þús. kr. í stað 225 þús. kr. Fnjóskdælir eiga inni 650 þús. kr. hjá þjóðvegagerðinni í þessa árs lok. Það er að vísu 150 þús. kr. lægri skuld en sú, sem hvílir á Svalbarðsstrandarvegi, og 200 þús. kr. sé ég að Fnjóskadalsvegi einum eru ætlaðar af millibyggðavegafé. En í Fnjóskadal báðum megin Fnjóskár eru óvegir á löngum köflum, þar sem kosta þarf miklu til á næstu árum að gera viðunandi vegi. Þess vegna er till. okkar mjög sanngjörn, má ekki lægri vera að sjálfsögðu.

Þá er till. um að hækka fjárveitinguna til Bárðdælavega úr 100 þús. kr. í 200 þús. kr. A þeim vegum hvíla 350 þús. kr. skuldir. Samkv. till. fjvn. mundi það taka um 31/2 ár miðað við fjárveitingu í ár að borga þá skuld. Slíkt nær vitanlega engri átt, þar sem stórkostlega mikið er einnig ógert af vegum í Bárðardal báðum megin Skjálfandafljóts.

Næst er till. um hækkun á framlagi til Þingeyjarsýslubrautar milli byggða og á Tjörnesi úr 160 þús. kr. í 300 þús. kr. Ég sé, að Tjörnesvegur á að fá samkv. till. fjvn. 200 þús. kr. af millibyggðavegafé. En þarna stendur þannig á, að mikil þörf kallar eftir vegabót: uppfyllingum í giljum, smábrúm, ræsum, og uppbyggingu ruðningsvegar vegna vetrarnota vegarins og þeirrar miklu umferðar, sem þar er nú orðin, því að þetta er tengivegur milli héraða. Ný viðhorf eru þarna að koma til sögunnar, sem auka vegaþörfina. Bændur í vestanverðri Norður-Þingeyjarsýslu eru komnir á fremsta hlunn með að taka upp blandaðan búskap, þ.e. framleiðslu mjólkur til innleggs ásamt sauðfjárafurðum. Er þá líklegt, að þeir flytji mjólkurafurðir sínar til Húsavíkur í mjólkursamlagið, sem þar er rekið. Gera slíkir flutningar vetrarveg um Tjörnes nauðsynlegan og endurbætur þjóðvegarins þar mjög aðkallandi.

Þessu næst er till. frá okkur um að hækka framlag til Þingeyjarsýslubrautar sunnan Húsavíkur úr 225 þús. kr. í 330 þús. kr. Þarna er um að ræða greiðslu upp í 800 þús. kr. skuld. Vegabótin, sem þarna hefur átt sér stað, að verulegu leyti fyrir lánsfé heima fyrir, hefur sparað ríkinu mikið fé — og mun gera það áfram — í snjómokstri á vetrum. Snjósælir vegarkaflar hafa verið hækkaðir, og ekkert hefur á þeim stöðum þurft að moka þar síðan, þótt mikið hafi snjóað. Þarna er dagleg umferð vegna mikilla mjólkurflutninga úr mörgum sveitum Suður-Þingeyjarsýslu. En halda verður áfram þessari hækkun vegarins um Aðaldalshraun, því að sú vegarbót er á alllöngu svæði enn ógerð. Fjárveitingin er því allt of lítil og sjálfum ríkissjóðnum til tjóns að hraða ekki þessari vegarbót og spara með henni vetrartilkostnaðinn að því er snjóruðninginn snertir. Það væri þess vegna hagræði fyrir sjálfan ríkissjóðinn að hraða þarna vegargerðinni með hækkuðu framlagi.

Þá vil ég minnast á Út-Kinnarveg. Við leggjum til, að framlag til hans hækki úr 75 þús. kr. í 140 þús. kr. Þarna er bráðnauðsynlegt að mölbera uppgröft úr skurðum, engjaskurðum, sem voru grafnir með tilliti til vegagerðarinnar, og tengja saman vegastúfa, endurbæta ræsi o.fl. Jafnvel eru þarna vegna torfæra á vegunum farnir á bökkum Skjálfandafljóts gamlir vegslóðar, sem fljótið hefur grafið sig inn undir, og gæti orðið slys af, ef holbakki spryngi og félli niður undan bifreið. Ég tel þessa hækkun framlagsins því sjálfsagða, og þyrfti hún auðvitað meiri að vera.

Þá er síðasta brtt. um vegi, nýr liður, Kinnarvegur í Suður-Kinn, 100 þús. kr. Þarna er bráðnauðsynlegt að mölbera ómölborinn skurðgröfuuppmokstur, sem gerður var fyrir nokkru og notaður hefur verið á vetrum, en eyðist fyrir veðrum og umferð. Tjón af því, að mölburðurinn hefur dregizt, er þegar orðið allmikið og má ekki meira verða. Enn fremur eru þarna komnar allmiklar lægðir í gamla braut, sem gerð er á mýrlendi, en þetta er oft og einatt aðalleið þeirra, er fara milli Húsavíkur og Akureyrar, þegar Fljótsheiði er ekki greiðfær, þar af leiðandi líka varavegur fyrir Norðurlandsveg, sem liggur um Fljótsheiði.

Þá er brtt. okkar við framlög til hafna. Þær eru undir VII. lið á þskj. 210. Við leggjum þar til, að framlag til Flateyjar á Skjálfanda hækki úr 50 þús. kr. í 100 þús. kr. Þarna er verið að safna fé til átaks við höfnina í Flatey. Það er nokkuð sérstakt málefni að koma þarna upp öruggu bátalægi með því að grafa skurð, siglingaskurð inn í tjörn, sem er við suðausturhorn eyjarinnar. Fengist þá trygg bátahöfn, og mundi hún verða öryggishöfn, ekki aðeins fyrir Flateyinga, heldur og fyrir alla þá, sem sækja á hin fengsælu fiskimið í grennd við Flatey, en það eru bátasjómenn frá Eyjafirði, Siglufirði og Húsavík.

Það er áætlað, að þessi umbót í Flatey muni kosta 31/2 millj, kr. Sú áætlun var gerð í sumar sem leið. Raunar er fjárveiting þessi aðallega til að láta hlutaðeigendur vita, að eftir þeim sé munað, en ekki til þess, að hægt sé að ráðast í framkvæmdir á næsta sumri. En fjárveitingin má varla minni vera en 100 þús., til þess að hún nái þeim tilgangi sínum. Líklegt þykir mér, að seinna í vetur komi málefni Flateyinga — byggðamálefni Flateyinga til umr. hér á Alþingi á breiðara grundvelli, því að nefnd starfaði árið sem leið, sem hv. sjútvmrh. skipaði, og hún hefur nú skilað áliti um framkvæmdir þar.

Grenivík er vaxandi útgerðarstaður og vel sett til fiskimiða. En þar er mjög léleg hafnaraðstaða fyrir bátaútveginn, aðeins bryggjuhró fyrir opnum firði. Ákveðið hefur verið að byrja þar hafnargerð næsta sumar, sem áætlað er að muni kosta um 5 millj. kr. Báðu Grenvíkingar um 700 þús. kr. fjárveitingu. Við leggjum til, að framlagið verði hækkað úr 300 þús. kr. í 450 þús. kr. og teljum hóflegt.

Svo er Húsavík. Þar hefur verið mikið unnið að hafnarbótum, og þar er hratt vaxandi útgerð. Í sumar er ætlunin að koma upp bátabryggjum innan hafnarinnar, en þeirra er mikil þörf. Enn fremur á næsta sumar að byggja verbúðir, sem er mjög aðkallandi vegna þess, hve margir vilja gera þar út. Verbúðabyggingarnar er áætlað að út af fyrir sig kosti á 3. millj. kr. Við leggjum til, að fjárveiting til Húsavíkur hækki úr 450 þús. kr. í 700 þús. kr., og er ekki freklega í sakir farið.

Ég leyfi mér að vænta þess, að allar þessar brtt., sem ég nú hef lýst, fái góðar undirtektir, þar sem þær eru áreiðanlega öfgalausar og mjög sanngjarnar.