06.04.1963
Sameinað þing: 46. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í D-deild Alþingistíðinda. (3236)

199. mál, vegasamband milli Fljótshverfis og Suðursveitar

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Hér er hreyft miklu nauðsynjamáli, en þetta er í sjálfu sér ekki nýtt mát, því að á undanförnum þingum hefur það oftar en einu sinni borið á góma, með hvaða hætti yrði auðið að tengja saman vegasambandið sunnanlands. Á síðasta þingi fluttum við þm. Austf. till. til þál. í þrem liðum, þar sem er vikið að þessu um brúargerðir á Skeiðaráraandi. Einn liður þeirrar ályktunar er þannig, með leyfi hæstv. forseta, að Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta fylgjast sem bezt með tæknilegum nýjungum við brúargerðir, er kynnu að gera kleift að brúa jökulvötnin á Skeiðarársandi. Þegar ég mætti fyrir þeirri tillögu af hálfu flutningsmanna hennar, komst ég m.a. þannig að orði:

„Þó að verkefni við vega- og brúargerðir séu víða brýn og aðkallandi og mörgum finnist hægt ganga að leysa þau, miðar samt í áttina, þannig að vegakerfið lengist og batnar ár frá ári, og nú eru unnin verk við brúargerðir og fyrirhleðslur vatna, sem alls kostar ókleift hefði verið að leysa af hendi fyrir einum eða tveimur áratugum. Valda því einkum hin stórvirku tæki, sem nú eru notuð við verklegar framkvæmdir og margfalda orku mannshandarinnar. Ekki þarf að ætla, að þróunin á sviði tækni og verklegra framkvæmda stöðvist. Þvert á móti verður að gera ráð fyrir því, að framtíðin muni bera í skauti sér enn þá örari þróun á þessu sviði en verið hefur til þessa, þannig að eftir tiltölulega stuttan tíma verði kleift að fullkomna vegakerfið og bæta mikið frá því, sem nú er, og skilyrði skapast til að sigrast á torfærum, sem nú virðast lítt viðráðanlegar, og verður að skoða viðfangsefnin með tilliti til þess. Eftir því sem fleiri ár eru brúaðar, því auðveldara á að vera að taka föstum tökum þau stóru verkefni, sem óleyst eru við brúargerðir.“

Ég minni á þetta hér til þess að sýna, að þau rök, sem ég færði fram af hálfu þm. Austurlandskjördæmis á síðasta þingi, falla mjög saman við það, sem hv. 1. flm. þeirrar till., sem hér liggur fyrir, hefur nú bent á. Af þessu leiðir það, að ég get í sjálfu sér alveg tekið undir hana orð um þetta mál, nauðsyn þessa mála, og styð að sjálfsögðu till. En um leið og ég tek þetta fram, vil ég segja, að ég veit af kunnugleika á staðháttum, að hér er um mjög stór viðfangsefni að ræða, og ég tel mjög hæpið, að það sé raunhæft að hafa ekki lengri tíma fyrir sér en það að ætla sér að leysa þetta á tveim árum. Og ég vil aðeins benda bæði flm. og þeirri nefnd, sem till. fær, á það, að vitanlega hefur till. gildi, þó að það verði ekki miðað við, eina og hér segir, að opna á næstu tveimur árum akvegasamband um þennan landshluta.

Í grg. till. gætir dálítillar ónákvæmni um einstök atriði, sem stafar vitanlega af því, að flm. eru ekki svo kunnugir á þessum slóðum sem skyldi. Ég hefði ekki gert það að umtalsefni eða vakið athygli á því, hefði ekki komið fram í ræðu flm. atriði af því tagi, sem mér finnst eðlilegt að hann geri ráðstöfun til að ekki verði skýrt frá í þingfréttum, af því að það vilja allir og er alltaf bezt í hverju máli að hafa það, sem sannara reynist. Ég tók svo eftir, að það kæmi fram hjá flm., að það væri ákveðið að brúa Jökulsá á Breiðamerkursandi á árinu 1964. Því miður er ekki svo vel séð fyrir því máli. Sannleikurinn er sá, að það er ákveðið að hefjast handa um fyrirhleðslur og brúargerðir á Steinasandi eða við Steinavötn nú í sumar og ráðgert, að það verk í heild taki tvö ár og ekki verði byrjað á framkvæmdum við Jökulsá, fyrr en því verki er lokið. Er þessi biðtími notaður til þess að gera fullnaðarmætingar og rannsóknir á brúarstæði Jökulsár. Annað minni háttar atriði kom fram líka, ég tók svo eftir, að flm, vitnaði til þess, að það væri fjárveiting nú í brú á Kotá í Öræfum. því miður náði sú till. ekki fram að ganga, þannig að þessi fjárveiting er ekki inni í fjárlögum nú, heldur aðeins 50 þús. kr. til fyrirhleðslu, sem er greiðsla fyrir verk, sem raunverulega er búið að vinna. Allt eru þetta minni háttar atriði, sem breyta ekki meginmálinu, en eðlilegt í fréttum, að það komi fram í þessu efni, sem rétt er.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þetta til viðbótar. Ég vil þó aðeins geta þess, að ég beitti mér fyrir því 1957 og síðar tókum við þm. Austf. þá hugmynd upp aftur á siðasta þingi, að til bráðabirgða yrði bætt úr vegasambandinu yfir Skeiðarársand með vélknúnu tæki, og hv. 1. flm. þessarar till. hefur alltaf stutt það drengilega í fjvn. Og í fjárl. þessa árs er heimild til þess að festa kaup á skriðbil, sem hentað gæti til ferða um torleiði á landi og sem ferja yfir vötn, og reyna slíkt farartæki á jökulvötnum og aurum Skaftafellssýstu til þess að fá úr því skorið, hvort á þann hátt yrði opnuð samgönguleið fyrir Skaftfellinga og ökufært yrði á léttum bilum umhverfis landið. Ef hæstv. samgmrh. væri hér viðstaddur á fundinum, hefði ég viljað nota þetta tækifæri til þess að spyrjast fyrir um það, hvaða horfur væru á um framkvæmd á þessu á n.k. sumri, en þar sem hæstv. ráðh. er nú fjarstaddur, sé ég ekki, að auðið sé að fá svör við slíkri fsp. á þessum fundi.