06.04.1963
Sameinað þing: 46. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í D-deild Alþingistíðinda. (3238)

199. mál, vegasamband milli Fljótshverfis og Suðursveitar

Flm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að flytja þeim ræðumönnum, sem hér hafa tekið til máls, síðan ég var hér síðast í þessum ræðustót, þakkir fyrir ágætar undirtektir og stuðning við málið. Ég vil einnig þakka hv. 5. þm. Austf., Páli Þorsteinssyni, fyrir þær leiðréttingar, sem hann hefur hér gert á mínum hugmyndum, sem eru varðandi brúna á Jökulsá á Breiðamerkursandi, sem ég hafði hugmynd um að væri fyrirhuguð 1964, innan næstu tveggja ára hélt ég að hún væri væntanleg, en auðvitað er það, eins og hann réttilega tók fram, ekki mjög stórt atriði, þó að hún sé áformuð máske ári seinna en ég talaði um, og einnig brúin á Kotá í Öræfum, sem ég hafði sannast að segja tekið upp úr till. vegamálastjóra, sem hann á sinni tíð sendi fjvn., og er það að sjálfsögðu allra góðra gjalda vert, að það sé leiðrétt. Ég taldi víst, að hún hefði komizt inn á fjárl. þannig. En það er mín ónákvæmni að hafa ekki athugað það. Ég efast ekki um, að þar fer þessi hv. þm. með rétt mál, og það var að sjálfsögðu aldrei mitt áform að ætla að segja rangt til um þetta, því að það hæfir ekki málinu að hafa þar ekki fyllstu nákvæmni, og er ég honum þess vegna þakklátur fyrir þær leiðréttingar, sem hann hefur gert hér Ég mínu máli. En hitt finnst mér mest um vert, að þeim þm., sem hér hafa talað, og væntanlega þm. almennt, virðist vera fullkomlega ljós nauðsyn þessa máls, mikilvægi þess og einnig, — þó að mér fyndist nú kannske örlítið á það skorta, hjá hv. 5. þm. Austf., einnig virðast þeir hafa þá bjartsýni til að bera, að nú séu komnir þeir tímar, að þá hluti, sem tillagan fjallar um, muni vera hægt að framkvæma og það án þess, að til þess þurfi mjög langan tíma, eins og nú er komið málum.

Það hafa verið fluttar hér till. að undanförnu um ýmiss konar minni háttar samgöngubætur á þessu svæði, eins og hv. 8, þm. Austf. minntist á. Þær eru allar góðra gjalda verðar, og hef ég bæði fyrir og eftir þann tíma, sem ég hef hér verið í forsvari fyrir það fólk sérstaklega, sem býr öðrum megin við þetta svæði, mælt með því, eftir því sem ég hef getað, að slíkar samgöngubætur kæmust á, því að mér hefur að jafnaði verið ljóst, að hér var við erfiðleika að etja, sem ekki mátti láta neins ófreistað að sigrast á. En hitt liggur auðvitað jafnljóst fyrir, að þótt komið sé fyrir á þessum söndum einhverjum og ekki mjög stórum farartækjum, sem öðru hverju geta skotizt þarna yfir, þá getur verið að þeim hið mesta gagn, en þau geta samt ekki gert neitt svipað gagn og ef þarna yrði opnuð almenn leið, sem gæti staðið opin hverjum sem væri, hvaða bifreið sem væri landinu, hvaða dag ársins sem væri eða svo að segja, því að það er auðvitað það markmið, sem verður að keppa að, eins og hér hefur greinilega komið fram að skilningur er fyrir á þinginu. Leyfi ég mér að ítreka enn þau tilmæli til þeirrar n., sem fær málið til athugunar, að hún salti það ekki hjá sér, heldur meti gildi þess og hafi hröð handtök á afgreiðslu þess, án þess að ég sé að krefjast þess af henni að rasa fyrir ráð fram í einu eða neinu. En hér er um þess háttar mál að ræða, að rannsókn sérfróðra manna á möguleikunum hlýtur að vera ósk ekki einasta þeirra þm., sem sérstaklega eru í forsvari fyrir það fólk, sem á hér hlut að máli, heldur aura landsmanna, enda má segja, að opnun hringleiðarinnar um Ísland sé mál alls landsins.