19.12.1962
Sameinað þing: 24. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í B-deild Alþingistíðinda. (326)

1. mál, fjárlög 1963

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Mér finnst rétt á þessu stigi að lýsa brtt., sem ég mun flytja við skrifl. brtt., sem hv. fjvn. hefur lagt hér fram, en henni hefur enn ekki verið útbýtt, svo að ég veit ekki, hvaða þskj. númer hún kemur til með að hafa. En þessi till. hv. fjvn. hljóðar á þessa leið: „Að taka allt að 28 millj. kr. lán til byggingar menntaskóla, kennaraskóla og hjúkrunarskóla.“ Ég mun leggja til, að á eftir orðunum „byggingar menntaskóla“, en á undan orðunum „kennaraskóla og hjúkrunarskóla” komi: þ. á m. nýs menntaskóla í Reykjavík“, þannig að till. mundi þá hljóða þannig: Að taka allt að 28 millj. kr. lán til byggingar menntaskóla, þ. á m. nýs menntaskóla í Reykjavík, kennaraskóla og hjúkrunarskóla.

Ég tel ekki ástæðu til að tala sérstaklega fyrir þessari brtt. minni, vegna þess að við 2. umr. gerði ég grein fyrir nauðsyn þess, að byggður verði nýr menntaskóli í Reykjavík, og sé ekki ástæðu til að endurtaka það hér aftur.