24.10.1962
Sameinað þing: 6. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í D-deild Alþingistíðinda. (3282)

30. mál, gjaldeyrisandvirði

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 30 fsp. til ríkisstj. um mismun gjaldeyrisandvirðis samkv. 6. gr. l. nr. 28 1962, og skal ég fara um hana örfáum orðum.

Gengisskráningu var breytt í byrjun ágústmánaðar 1961 á þá lund, að verð erlends gjaldeyris hækkaði í íslenzkum krónum um 13–14%. Þegar þessi breyting átti sér stað, var í landinu allmikið af útflutningsvöru á ýmsum stigum. Að öðru óbreyttu hefðu þeir, sem stóðu að útflutningi þessara vara, þegar til kom, fengið verðhækkun, sem gengisbreytingunni nam. En með lagaboði var þessi verðhækkun af þeim tekin og ráðstafað á annan hátt. í 6. gr. 1. nr. 28 frá 1962, um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um nýtt gengi íslenzkrar krónu, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá er skilað er til banka gjaldeyri fyrir útfluttar afurðir, framleiddar á tímabilinu 16. febr. 1960 til 31. júlí 1981, skal hann greiddur útflytjanda á því gengi, er gilti fyrir 4. ágúst 1961.“

Og á öðrum stað í greininni segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Mismunur andvirðis skilaðs gjaldeyris á eldra gengi og andvirðis hans á hinu nýja gengi samkv. 1. mgr. skal færður á sérstakan reikning á nafni ríkissjóðs í Seðlabankanum.“

Mér virðist tímabært, að upplýsingar séu gefnar um það á Alþingi, hversu mikið fé inn á þennan reikning er lagt, og því hljóðar fyrri liður fsp. á þskj. 30 á þessa leið:

„Hve miklu nemur, í krónum talinn, sá mismunur á andvirði skilaðs gjaldeyris á eldra gengi og andvirði hans á hinu nýja gengi, er færa skyldi á sérstakan reikning á nafni ríkissjóðs í Seðlabankanum samkv. 2. mgr. 6. gr. l. nr. 28 17. apríl 1962.“

Í 7. gr. sömu laga er kveðið á um það, að af þessum reikningi skuli endurgreiða hluta af útflutningsgjaldi af þessum vörum, sem hér er um að ræða, og sömuleiðis hluta af hlutatryggingasjóðsgjaldi af sömu vörum, og enn fremur er í 8. gr. ákvæði um, að heimilt sé að verja af þessum reikningi fé til greiðslu vátryggingargjalda.

Í síðari lið fsp. er spurzt fyrir um það, hversu miklu af þessum mismun hafi verið varið til slíkra greiðslna, þ.e.a.s. til að greiða hluta útflutningsgjalds samkv. 1. mgr. 7. gr., hve miklu til að greiða hluta útflutningssjóðsgjalds samkv. 2. mgr. 8. gr. og hve miklu til greiðslu vátryggingariðgjalds samkv. 2. mgr. 6. gr. laganna. Segja má, að í sambandi við þessar greiðslur sé um að ræða a.m.k. óbeina endurgreiðslu gengishagnaðarins til útflutningsframleiðslunnar. Ég hef sett fyrirspurnarliðinn þannig fram, að ég geri ráð fyrir, að gerð verði grein fyrir hverri upphæð fyrir sig.