31.10.1962
Sameinað þing: 8. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í D-deild Alþingistíðinda. (3287)

51. mál, misnotkun deyfilyfja

Fyrirspyrjandi (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Tvær síðustu vikur hafa dagblöðin í Reykjavík birt upplýsingar, sem gefa rökstudda ástæðu til að ætla, að misnotkun ýmiss konar deyfilyfja hafi farið mjög í vöxt hér á landi og sé að verða ískyggilegt vandamál.

Yfirlæknir Slysavarðstofunnar hér í borginni hefur sagt opinberlega, að óhugnanlega margir neyti deyfilyfja. Ráðamaður Bláa bandsins hefur upplýst, að eiturlyfjasjúklingar séu erfiðara vandamál en áfengissjúklingar fyrir þá stofnun. Lögreglan skýrir svo frá, að allmargt fólk undir áhrifum deyfilyfja hafi verið tekið við akstur. Slökkviliðið bjargaði skaðbrenndri konu, sem var undir annarlegum áhrifum, að því er sagt er opinberlega. Lögreglan skýrir frá því, að maður hafi fundizt látinn með 2 deyfilyfjaglös í vasanum. Þannig hafa fréttirnar hlaðizt upp dag eftir dag.

Það verður ekki um villzt, að eitt erfiðasta þjóðfélagsvandamál nútímans hefur borizt eða er að berast hingað til Íslands, enda þótt enn hafi ekki komið í ljós teljandi notkun á verstu eiturlyfjum, sem notuð eru erlendis, t.d. marihuana eða heróín. Þó hafa pillurnar, sem hér virðast tíðkast, víðast hvar reynzt undanfari þess, sem verra er. Í nágrannatöndum okkar hefur vaxandi útbreiðsta eiturlyfja reynzt örugg braut til glæpa og afbrota. Þessi plága virðist leggjast hvað þyngst á ungt fólk, oft og tíðum á unglinga, og hafa sölumenn lyfjanna þar sérstaklega lagzt á skólaæskuna til að skapa sér fasta viðskiptamenn. Ein svartasta hlið þessa máls virðist vera tilhneiging til að gefa ungum stúlkum eiturlyfin, og má þegar sjá þess nokkur merki hér á landi. Eftir að ungir menn eða konur hafa vanizt á þessi lyf og geta ekki án þeirra verið,leiðast þau oft út á braut þjófnaðar og afbrota til að komast yfir lyfin. Reynsla annarra þjóða ætti að vera rík aðvörun til Íslendinga um að leitast við að taka þetta vandamál föstum tökum þegar í byrjun og fyrirbyggja frekari útbreiðslu eitur- og nautnalyfja, ef þess er nokkur kostur.

Hér í Reykjavík hefur það gerzt, að blöðin hafa bent lögreglunni á tiltekna aðila, sem ástæða var til að gruna um sölu eða dreifingu deyfilyfja. Blöðin hafa fylgzt með þessu máli, og er á þeim að sjá, að þau undrist, hversu lausum tökum lögreglan virðist taka það. Verður það í fljótu bragði ekki skýrt á annan hátt en að hér hljóti að vanta strangari lagafyrirmæli, sem gera lögreglunni kleift að vinna gegn þessari plágu og kæfa hana í fæðingu. Jafnvel eftir að óeðlilega mikið magn deyfilyfja hefur fundizt á heimili manns, gerist ekkert annað dögum saman en lögreglan segist vera að teita að honum til yfirheyrslu. Ýmsum virðist vera orðið nokkuð ósamræmi í réttarfari, þar sem hægt em að setja menn á sakaskrá fyrir lítil umferðarbrot og gengið er hart fram í því að refsa unglingum fyrir smáþjófnaði og óknytti, ef ekkert er raunverulega hægt að gera varðandi svo stórfellt mál eins og dreifingu eiturlyfja.

Ég hygg, að ég geti mælt það fyrir hönd flestra landsmanna, að þetta mál verði að kæfa í fæðingu með hverjum þeim aðgerðum, sem til þess þarf. Ég hef talið rétt að hreyfa þessu máli á, Alþingi í spurningarformi. Dómsmrh. er að því spurðum, hvort hin vaxandi misnotkun deyfilyfja gefi að áliti dómsmálastjórnarinnar ekki tilefni til sérstakra gagnráðstafana af hálfu ríkisins, og ef dómsmálastjórnin reynist vera þeirrar skoðunar, er enn fremur spurt, hvort gildandi lagafyrirmæli séu nógu ströng til þess, að slíkar gagnráðstafanir geti náð tilgangi sínum. Ef ráðh. svarar þessum spurningum neitandi, hefur Alþingi raunar þvegið hendur sínar af málinu, og mun þá verða vænzt árvekni og aðgerða af hálfu framkvæmdavaldsins. Ef ráðh. hins vegar svarar játandi, verður Alþingi hið fyrsta að taka málið til athugunar og samþ. lagaákvæði, nægilega ströng til þess að hægt verði að halda uppi þeirri löggæzlu á þessu sviði, sem dugir.