31.10.1962
Sameinað þing: 8. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í D-deild Alþingistíðinda. (3293)

248. mál, lán út á landbúnaðarafurðir

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það hefur verið rætt um það fyrr í haust, að bændur hafi verið afskiptir með afurðalán undanfarið. Menn eru ekki sammála um þetta og ekki einu sinni bankastjórarnir, þegar þessi mál koma til tals á þeirra fundum. Hitt er rétt, sem hv. fyrirspyrjandi sagði hér áðan, að aðalfundur Stéttarsambands bænda skoraði á stjórn Stéttarsambandsins að beita sér fyrir því, að lánað yrði allt að 70% út á landbúnaðarafurðir á þessu hausti. Till. þessi var eðlileg. Það er ekki nema eðlilegt, að bændur beri fram óskir um að fá aukin lán, hærri útborgun og örari útborgun. Í sjálfu sér hefði ekkert verið við það að athuga, þótt prósentan hefði verið hærri, sem bændur miðuðu við. Hitt er svo annað mál, hvort takast má að verða við óskum þeirra í þessu efni.

Það er rétt, sem hv. þm. sagði hér, að ég hafði talið þessa till. eðlilega á fundinum og réttmætari en margar aðrar till., sem þar voru samþykktar. Í tilefni af því hef ég ásamt bankamálaráðh. átt viðræður við ýmsa bankastjóra um þessi mál og kynnt mér rækilega, hvernig þetta hefur verið undanfarin ár, og látið þá skoðun mína í ljós, fyrir hönd ríkisstj. einnig, að það sé eðlilegt, að landbúnaðurinn beri ekki skarðan hlut í lánsfjármálunum og búi a.m.k. ekki við lakari hlut en aðrir atvinnuvegir, t.d. eins og sjávarútvegurinn. Þetta er bankastjórunum ljóst. Þeir vita vilja ríkisstj, í þessu efni, og í viðræðum við bankastjórana hef ég komizt að raun um, að þeir eru þessu máli velviljaðir og vilja ekki á landbúnaðinum níðast. Og í tilefni af því, að það hefur verið sagt áður, að landbúnaðurinn hafi búið við skarðan hlut og ekki fengið sambærileg lán og sjávarútvegurinn, þá er eðlilegt að athuga nákvæmlega og í skýru ljósi, hvernig þetta hefur verið. Er þá fyrst að aðgæta það, hvað Seðlabankinn segir um seðlabankalánin, en hér hef ég bréf eða skýrslu frá Seðlabankanum um það efni.

Á árunum 1956–1359, að báðum meðtöldum, var lánað 67% úr Seðlabankanum út á landbúnaðarvörur og einnig sama prósenta út á sjávarafurðir. Árið 1960 var lánaður Seðlabankanum 60.8% út á landbúnaðarafurðir, en 58% út á sjávarafurðir. Árið 1961 var lánað úr Seðlabankanum 55.3% út á landbúnaðarafurðir, en 55% út á sjávarafurðir.

Þetta er það, sem að Seðlabankanum snýr. Nú er það vitað, að bæði landbúnaður og sjávarútvegur hafa fengið viðbótarlán úr viðskiptabönkunum með hærri vöxtum en afurðavíxlarnir eru bundnir við. Og það má vel vera, að þar sé einhver mismunur á. Hins vegar er það víst og hefur komið upp í viðræðum við bankastjóra, að ýmis landbúnaðarfyrirtæki hafa fengið viðbótarlán, og það segir í þessari skýrslu, sem ég hef hér fyrir framan mig um afurðalán viðskiptabankanna.: „Engar fastar reglur gilda um afurðalán viðskiptabankanna, viðbótarlán.“ Viðbótarlán út á sjávarafurðir munu þó yfirleitt ekki fara yfir 15%, þannig að samanlögð lán út á sjávarafurðir fari yfirleitt ekki yfir 70%. En það hefur nú jafnvel heyrzt stundum, að það vanti á, að öll fyrirtæki, sem með sjávarafurðir eru, komist upp í þessa prósentu, viðbótarlán viðskiptabankanna út á landbúnaðarafurðir fari eftir mati þeirra hverju sinni, þannig að hvert fyrirtæki, hvort sem það stundar sjávarútveg eða landbúnað, verður að semja við viðskiptabankana um viðbótarlánin.

Ég hygg að fenginni þessari skýrslu frá Seðlabankanum um seðlabankalánin, að þá verði ekki lengur um það deilt, að þar hafi verið jafnrétti fram til þessa og að prósenta landbúnaðarins á árinu 1960 og 1961 er þó aðeins hærri. Um hitt geta menn e.t.v. frekar deilt, af því að það liggur ekki eins Ljóst fyrir.

Ég er innilega sammála hv. fyrirspyrjanda um það, að ég tei alveg nauðsynlegt, að bændunum verði borgað út allt að 70% eða a.m.k. a, eins og verið hefur þar, sem ég hef þekkt til nú um áratugi. Þar hefur það verið venjan að borga 2/3. Nú hef ég verið að leitast við að kynna mér, hvernig þetta hefur verið í framkvæmdinni síðustu árin. Og þá er spurningin þessi: Hafa fyrirtæki, sláturfélög og kaupfélög, sláturleyfishafar, kaupmenn, sem verzla með landbúnaðarafurðir, hafa þau dregið útborgunina lengur til bænda síðustu árin en áður var eða hefur verið borguð út lægri prósenta síðustu ári,n en áður hefur verið? Ég hef leitað með logandi ljósi hringinn í kringum landið, og svarið er: Útborgunin hefur ekki verið lækkuð að prósentutölu, og hún hefur ekki farið seinna fram en venjulega. Ég hygg, að þetta sé út af fyrir sig nokkurt svar við því, hvort dregið hefur verið úr útlánum út á landbúnaðarafurðir frá því, sem verið hefur. Einhvers staðar frá hafa fyrirtækin fengið peningana til þess að geta borgað sömu prósentu og áður, ekki lægri prósentu og ekki seinna en áður. Og um stórt fyrirtæki hef ég heyrt, að það hafi snemma í haust ákveðið að greiða 27 kr. út á hvert kg af kjöti strax, áður en það fékk nokkurt afurðalán. Er það vitanlega gleðilegt, að við skulum þó eiga svo stöndugt fyrirtæki í landinu, sem hefur getað þetta, og viðskiptamenn þess fyrirtækis njóta nú góðs af því. Og það er áreiðanlegt, að það væri æskilegast, að þannig sé hægt að borga sem mest strax að haustinu út á afurðirnar, því að ég er því innilega hlynntur. Og ég held, að þessir bankastjórar, sem hafa með þessi mál að gera, viti alveg minn vilja í þessu og ríkisstj. hvað þetta snertir. Ég hygg því, að á þessu hausti verði veitt fyrirgreiðsla úr bönkunum ekki lakari en verið hefur, þannig að kaupmenn, kaupfélög, verzlunarfélög og þau fyrirtæki, sem verða með þessar afurðir, þurfi ekki að lækka útborgunina eða draga hana lengur en verið hefur, ekki í krónum, heldur hlutfallslega miðað við aukið magn og hækkun á verðinu.

Það er þetta, sem hlýtur að koma í ljós núna næstu daga, því að nú er 1. nóv. á morgun og lán út á haustafurðirnar eru miðuð við birgðir 1. nóv. þessa árs. Og bændum er venjulega borgað út í nóvember og stundum ekki fyrr en í desember. Það er þess vegna eðlilegur tími, má segja, að spyrja um þetta nú. Að svo miklu leyti sem það snertir landbrh. beint, er mér mjög ljúft að svara þessu. Ég hef kynnt mér þetta einmitt í tilefni af samþykkt stéttarsambandsfundarins, en lánin verða veitt núna næstu daga úr bönkunum. Ég hef það eftir viðtölum við bankastjóra Seðlabankans, að þeir reikna með að lána 55% úr Seðlabankanum, eins og lánað er út á sjávarafurðir, og ég veit um góðan vilja bankastjóra viðskiptabankanna að greiða úr þessu máli.

Ég hef í rauninni ekki meira um þetta að segja að sinni. En ef eitthvað kæmi nýtt fram frekar í umr., þá er vitanlega sjálfsagt að taka til athugunar, hvort þörf er fleiri skýringa, en ég ætla, að þetta sé nægilegt svar við fsp.