31.10.1962
Sameinað þing: 8. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í D-deild Alþingistíðinda. (3294)

248. mál, lán út á landbúnaðarafurðir

Fyrirspyrjandi (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir þau svör, sem hann gaf hér. En sú breyting, sem mér skilst að sé orðin á þessum hlutum frá því, sem verið hefur, er sú, að viðbótarlánin frá Seðlabankanum eigi að nema það miklu, að prósentan haldist frá því, sem var í fyrra, þannig að það eigi að lána út á verðhækkunina og framleiðsluaukninguna, að það sé þegar ákveðið, að prósentan haldi sér, þessi 55%. Þá skilst mér enn fremur, að ósamið sé um viðbótina. Vera má, og ég efast ekkert um það, að hæstv. ráðh. hefur farið rétt með það, að ýmis fyrirtæki, sláturfélög og jafnvel sum kaupfélög og fleiri aðilar, hafi átt þess kost sums staðar að fá viðbótarlán án milligöngu nokkurra sérstakra aðila. En almennt, þegar litið er á þessa félagsstarfsemi bændanna í landinu, hygg ég, að flest fyrirtækin hafi ekki greiðan aðgang að viðskiptabönkum eða sparisjóðum, sem geti innt þetta hlutverk af hendi, þótt frá því séu að vísu undantekningar. Þá skilst mér, að til þess að fullnægt sé því, sem bændur telja lágmarkskröfu sína um 70%, vanti 80–100 millj., til þess að þessum lánum sé fullnægt út á framleiðsluna nú eftir mánaðamótin, miðað við þær horfur, sem eru með framleiðslumagnið um þessi mánaðamót. Og ég vænti þess fastlega, að hæstv. ráðh. haldi sínum viðtölum áfram við viðskiptabankana og þá aðila, sem ráða þeim málum, og að þetta mál leysist á rausnarlegri hátt en verið hefur á undanförnum árum.