14.11.1962
Sameinað þing: 13. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í D-deild Alþingistíðinda. (3300)

82. mál, skipulagning fiskveiða með netum

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þessi þáltill., sem hér er spurt um framkvæmd á, var samþykkt á Alþingi 15. febr. 1981. Hinn 25. febr. var hún send Fiskifélagi Íslands til athugunar og fyrirgreiðslu í sambandi við og í samráði við þá aðila, sem í tilt. eru nefndir. Með bréfi 27. febr., ætla ég, að það sé, 1962, gerir Fiskifélagið grein fyrir, hvernig málið standi, segir, að skoðanir þessara aðila, sem til hafi verið leitað, séu mjög skiptar og Landssamband ísl. útvegsmanna telji, að ekki sé rétt að gera neitt nú, eins og skoðanir manna séu á málinu. Rn. f6i þá Fiskifélaginu að halda þessum athugunum sínum áfram ag freista þess að ná samkomutagi við aðila.

Frá Fiskifélaginu hef ég nú fengið grg., sem ég tel rétt að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta, því að hún skýrir málið mjög rækilega. Bréf Fiskifélagsins er svo hljóðandi:

„Undanfarin ár hefur sú breyting á veiðum vélbátaflotans orðið, að veiðar með þorskanetjum hafa farið mjög vaxandi, en hins vegar hafa línuveiðar dregizt saman að sama skapi. Hefur þetta leitt til þess, að á vissum svæðum hafa línubátar verið útilokaðir frá því að stunda veiðar og því orðið að skipta um yfir á netjaveiðar. Með tilkomu netja úr gerviefnum hefur veiðihæfni þeirra aukizt til muna. Vaxandi aflavon á netjaveiðunum em meginorsök þessara breytinga. Sú skoðun er hins vegar almenn, að gæði þess fiska, sem veiðist í net, séu að jafnaði mun rýrari en línufisks. Af þessu hefur verið talið miður farið, að sú breyting hefur á orðið, sem að ofan getur.

Undanfarin ár hafa þær raddir orðið háværari, sem talið hafa nauðsynlegt, að gerðar væru af hálfu hins opinbera ráðstafanir í því skyni að ýta. undir aukningu línuveiðanna, en draga úr netjaveiðunum. Till., sem samþ. var á Alþingi síðari hluta vetrar 1881 og spurt er um framkvæmd á nú, gengur í þá átt. Á fyrra ári var hafinn undirbúningur samkv. ákvæðum till. og Fiskifélagi Íslands falið að gera tillögur um reglur samkv. því, sem segir í till., og jafnframt að hafa samráð við þá aðila, sem í till. eru nefndir. Auk þess að hafa samráð við fyrrgreinda aðila, vax rætt við fjölmarga fulltrúa skipstjóra og útvegsmanna úr nær öllum veiðistöðvum á því svæði, þar sem þorskanetjaveiðar eru stundaðar. Í ljós kom við þessar athuganir, að skoðanir manna á nauðsyn ráðstafana samkv. till. voru afar skiptar, enda hér tvímælalaust um að ræða mjög viðkvæmt hagsmunamál, þar sem er takmörkun á notkun ákveðins veiðarfæris.

Niðurstaða af þessum athugunum varð sú, að ákveðið var að senda þeim aðilum, sem till. nefnir, til athugunar þau atriði, sem viðræður höfðu leitt í ljós að hugsanlegt væri að setja reglur um. En þessi atriði voru: 1) Lagning þorskanetja utan 700 m dýptarlínu skyldi ekki heimil fyrr en 10. marz austan Reykjaness. 2) Á nánar afmörkuðu svæði á milli Reykjanesvita og Garðskagavita skyldi með öllu óheimilt að leggja þorskanet, þannig átti að tryggja línubátum friðland. Var hér einnig miðað við 100 m dýptarlínu. 3) Þar fyrir norðan skyldi ekki heimilt að leggja net utan 100 m línu fyrr en 25. marz. 4) Óheimilt skyldi að leggja net á meira en 180 m dýpi. 5) Engum fiskibát skyldi heimilt að hafa meira en 90 net liggjandi í sjó í einu.

Voru þessi atriði send til athugunar öltum fyrrgreindum aðilum. Svörin, sem bárust, sýndu eftirfarandi: Enginn aðilanna nema fiskmatsráð taldi sig geta fallizt á þessi atriði óbreytt, en þó voru Sjómannasambandið og Alþýðusambandið samþykk þeim í meginatriðum. Hins vegar kom í ljós, að ágreiningur var mjög mikill innan félaga útvegsmanna og skipstjórnarmanna. Í langflestum tilfellum höfnuðu þessir aðilar með öllu þeim hugmyndum, sem fram voru settar, án þess að benda á nokkuð, er gæti komið í staðinn.

Hér er, eins og áður segir, um mjög viðkvæmt hagsmunamál að ræða, sem snertir á einn eða annan hátt meginhluta vélbátaflotans á vetrarvertíð, og það væri óhyggilegt af ríkisvaldinu að setja reglur eins og þær, sem hér um ræðir, nema tryggt væri fyrir fram, að a.m.k. verulegur meiri hl. þeirra aðila, sem eiga að hlíta þeim, væri þeim ekki beinlínis andvígur, vegna þess að menn teldu, að með þeim væri gengið óhóflega á hagsmuni þeirra. Með tilliti til þessa hefur þótt rétt að rasa hér ekki um ráð fram, heldur freista þess að finna þá lausn á þessu vandamáli, sem nyti stuðnings sem flestra þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli. Með tilliti til þessa var Fiskifélaginu, þegar niðurstöður fyrrgreindra atriða lágu fyrir á s.l. vetri, enn falið að kanna þetta mál og gera tillögur um það. Hafa enn á ný farið fram viðræður við ýmsa þá aðila, sem hér koma mest við sögu, og munu bráðlega liggja fyrir niðurstöðurnar af þeim viðræðum.“

Þetta er skýrsla Fiskifélagsins um málið, og ég hef raunar litlu við hana að bæta. Endanlegar till. frá, því munu væntanlegar innan tíðar, eins og segir í bréfinu, og fiskimátastjóri leggur á það áherzlu, að það sé ekki rétt að rasa svo um ráð fram, að settar verði um þetta reglur, nema því aðeins að a.m.k. verulegur meiri hl. þeirra aðila, sem eiga að hlíta reglunum, yrði þeim ekki beinlínis andvígur, og ég er Fiskifélaginu sammála um þetta.