21.11.1962
Sameinað þing: 14. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í D-deild Alþingistíðinda. (3309)

249. mál, virkjunarmöguleikar Jökulsár á Fjöllum o.fl.

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. raforkumrh. hefur nú gefið ýmsar fróðlegar upplýsingar um Jökulsá á Fjöllum, m.a. upplýsingar, sem gefnar voru hér á Alþingi fyrir 2 árum um þetta mál, þegar þáltill. var flutt, og má segja, að ekki sé góð vísa of oft kveðin. Mér virðist af svörum hæstv. ráðh., að hann hafi í raun og veru litið svo á, að þál. frá 22. marz 1961 væri um annað efni en hún er, þ.e.a.s. hæstv. ráðh. hafi litið svo á, að þál. hafi verið um að fela ríkisstj. eða skora á hana að láta gera rannsóknir á virkjunarskilyrðum í fallvötnum landsins, a.m.k. hinum stærstu, og fullnaðaráætlanir um hagnýtingu orku þar. Það var ekki svo, að hæstv. ríkisstj. væri falið svona víðtækt verkefni með þál., heldur fjaltaði hún aðeins um eitt sérstakt fallvatn, þ.e.a.s. Jökulsá á Fjöllum. Alþingi skoraði á ríkisstj. að láta hraða gerð fullnaðaráætlunir um virkjun Jökulsár á Fjöllum og athugun á hagnýtingu orkunnar til framleiðslu á útflutningsvöru í því sambandi, eins og hv. fyrsti fyrirspyrjandi gerði grein fyrir hér áðan. Eðlilegt hefði verið að hugsa sér, að þegar hæstv. ráðh. fékk þessa þál. — í hendur, þá, hefði það verið hans fyrsta verk, ef hann vildi framkvæma þál., að gefa raforkumálaskrifstofunni eða öðrum þeim starfsaðilum, sem hann hefur yfir að segja, fyrirmæli um að hefja þessa rannsókn, sem til þess þurfti að gera fullnaðaráætlunina um virkjun Jökulsár á Fjöllum. En það virðist hann ekki hafa gert, heldur byrjar nú rannsóknir við annað fallvatn — á Suðurlandi — og miklu meira hefur verið í það lagt, eftir því sem hæstv. ráðh. sjálfur upplýsir. Við því er auðvitað ekki nema gott að segja, að fallvötn landsins séu rannsökuð og áætlun gerð um virkjun þeirra, ef tök eru á. En ég vil aðeins benda á það, sem reyndar áður hefur verið gert, að það var ekki þetta, sem þál. frá 22. marz 1961 fjallaði um, heldur var hún aðeins um tiltekið vatnsfall, og það er það, sem við, sem að henni stóðum, og sjálfsagt þeir, sem greiddu atkv. með henni, — hún var samþykkt með shlj. atkv. hér í Alþingi, — ætluðumst til af hæstv. ráðh. Og það er það, sem verið er að ganga eftir hér.

Hér er nú lítill tími til umr. En út af því, sem hæstv. ráðh. sagði um rannsókn á hafnarskilyrðum í sambandi við stórvirkjanir hér á landi, sem er mjög þýðingarmikið mál að sjálfsögðu, þá vil ég ekki út af fyrir sig neitt andmæla því, að það geti verið, að Akureyri eða staðir við Eyjafjörð séu heppilegustu hafnarstaðir á Norðurlandi og Reykjavík eða Þorlákshöfn á Suðurlandi. Það getur vel verið að svo sé. En mér fannst ummæli hæstv. ráðh. um það, hvernig þetta atriði hafi verið rannsakað, vera nokkuð óákveðin. Hann sagði að seinni ræðu sinni eitthvað á þá leið, að augum hefði verið rennt yfir, — ég heyrði ekki almennilega hvort hann sagði: yfir landið eða yfir kortið. (Gripið fram í: Land- og sjókort.) Land- og sjókort, já. Hæstv. ráðh, hefur sem sagt til framkvæmdar á þessari þál. látið renna augum yfir land- og sjókort til þess að finna það út, hvar heppilegastur væri hafnarstaður fyrir þessa framleiðslu, sem um er að ræða.

Þetta finnst mér, að sé nú ekki ýtarleg rannsókn, ef það hefur ekki verið annað, og trúlega hefur það nú verið annað. Og þá vildi ég mega spyrja hæstv. ráðh., hvort hann geti upplýst okkur um það, á hvern hátt þessara upplýsinga hefur verið aflað, hvort leitað hafi verið til vitamálaskrifstofunnar um upplýsingar eða verkfræðingar sendir í ferðalag, eins og oft er gert, þegar minna er í húfi en hér, til þess að kynna sér hafnarstaðina. Ég hef sérstakt tilefni til þess að spyrja um þetta, vegna þess að ég átti í sumar tal við annan af þeim sérfræðingum, sem komu norður á fund okkar á Akureyri, og spurði hann um einn ákveðinn stað, eiginlega af forvitni, hvort hann hefði verið athugaður og hver niðurstaðan væri með hann. Hann sagði, að það mundi ekki hafa verið gert, og kvað sér ekki kunnugt um hafnarskilyrði á þessum stað. En það getur vel verið, að öðrum hafi verið kunnugt um það og að það hafi verið athugað síðan.

Tími minn mun sjálfsagt vera þrotinn, en ég vildi aðeins á það minna, að þegar hæstv. ráðh. talaði um hagnýtingu raforku frá stóriðjuveri, talaði hann eingöngu um alúminíumframleiðslu. Ég vil spyrja hann að því í því sambandi og vænta þess, að hann svari því, ef hann hefur tök á, hvort ekki hafi verið athugaðir aðrir möguleikar fyrir framleiðslu, sem notar mikla raforku. Í þál. er ekki sérstaklega talað um alúminíum, heldur um hagnýtingu á orkunni til framleiðslu á útflutningsvöru. í því fólst að sjálfsögðu, að það yrði að athuga almennt, hvaða möguleikar væru á því að framleiða útflutningsvöru á þennan hátt. Um þetta vildi ég spyrja hæstv. ráðh., hvort þetta hafi ekki verið athugað eitthvað í sambandi við fleiri tegundir framleiðslu heldur en alúminíum, og ef svo er, hvort nokkrar upplýsingar liggi fyrir um það efni.