21.11.1962
Sameinað þing: 14. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í D-deild Alþingistíðinda. (3311)

249. mál, virkjunarmöguleikar Jökulsár á Fjöllum o.fl.

Jónas G. Rafnar:

Herra forseti. Sem 2. fyrirspyrjandi vil ég leyfa mér að þakka hæstv. ráðh. fyrir hans svör. Ég verð að telja, að miðað við altar aðstæður hafi vel verið á þessum rannsóknarmátum haldið, þegar á það er litið, að ráðh. upplýsir, að fullnægjandi upplýsingar muni liggja fyrir þegar um næstu áramót. Ég tel því, að þarna hafi verið fylgt eðlilegum hraða í þessum athugunum.

Það er ósköp eðlilegt, að virkjun Jökulsár á Fjöllum sé ofarlega í hugum okkar Norðlendinga. Hér á Alþingi og víðar um land hefur verið talað um, að auka þurfi jafnvægi í byggð landsins, og við gerum okkur það ljóst, að stórvirkjun einmitt á þessum stað mundi ekki hvað sízt verða til þess að lyfta undir allt athafnalíf í okkar landsfjórðungi. Hins vegar er það ljóst, að þessi stórvirkjun er gersamlega tengd því, að í nágrenni hennar geti komið stóriðja. Og það hlýtur að hafa sinn aðdraganda að rannsaka, hvers konar stóriðja kæmi þá til greina.

Hæstv. ráðh. sagði hér áðan, og það er rétt, að virkjun Jökulsár komi ekki til greina, nema stóriðja komi til, og það er vegna þess, að raforkuþörfin í þessum landshluta er ekki nægilega mikil til þess. Það líður nú senn að því, að raforkan frá Laxá, sé ófullnægjandi og það þurfi í náinni framtíð, ég vil segja nú í vetur, að fara að undirbúa nýja virkjun þar. En þetta mál á þessu stigi er óskylt málinu um virkjun Jökulsár á Fjöllum.