05.12.1962
Sameinað þing: 18. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í D-deild Alþingistíðinda. (3315)

103. mál, vátrygging fiskiskipa

Fyrirspyrjandi (Björn Pálsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að spyrjast fyrir um, hvað liði endurskoðun laga um vátryggingu fiskiskipa. Um þetta mál hefur verið rætt á fundum útgerðarmanna undanfarin ár, og það hefur komið fram hér á Alþingi í umr., að þessi lög væru í endurskoðun. Hér er um stórmál að ræða, og vera má, að það valdi nokkru, hvað dregizt hefur að endurskoða þessi lög, að tryggingagjöldin voru greidd um tíma úr útflutningssjóði og síðan hafa þau verið greidd af vissri prósentu, sem hefur verið tekin af útgerðarmönnum eða útflutningsvörunum.

Það hefur verið upplýst, að tryggingaiðgjöld eru um það bil tvöfalt hærri hér á. landi en í Noregi. Samkv. lögum, sem samþ. voru í fyrra viðvíkjandi ráðstöfunum vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um nýtt gengi, þá var það ákveðið í þeim lögum, að 3.72% af útflutningsverðmæti sjávarafurða rynni til tryggingar fiskiskipa. Þetta á ekki að gilda nema til ársloka, þá eiga 1.8% af útflutningsverðmæti sjávarafurða að renna til stofnlánadeildar sjávarútvegsins. Það er því fullkomlega ástæða til þess að athuga það nú, hvað ríkisstj. hyggst fyrir í þessu efni, og ástæða til þess að mælast til þess, að þessari endurskoðun verði hraðað. Ég hygg, að það verði ekki ánægja með það meðal útgerðarmanna að greiða jafnhá útflutningsgjöld og verið hafa. Alls er tekið í útflutningsgjöld með því, sem tekið er í hlutatryggingasjóð, 7.4% af öllum sjávarafurðum. Þetta gerir um það bil 15% af því verðmæti, sem úr sjó er dregið, því að vitanlega kemur þetta, allt á útgerðarmennina. Ef þeir þyrftu ekki að greiða þessi gjöld, þá gætu fiskvinnslustöðvarnar og söltunarstöðvarnar greitt hærra gjald. Og þessi tryggingagjöld, sem renna í ár til fiskiskipanna, eru 3.72%, sem jafngildir 7.44% eða eitthvað nálægt því, miðað við fob.-verð útflutningsvara. Ef það væri hægt að lækka þessi gjöld um 1/3 eða eitthvað slíkt, þá mundu þarna sparast sennilega 40–50 millj. Það er líklegt, að þessi gjöld verði um 120 millj. í ár, sé miðað við, að útflutningsverðmæti sjávarafurða verði 3300 millj., sem er ekki alveg hægt að fullyrða um nú.

Ég efast ekki um, að ríkisstj. hefur hug á að laga þessa hluti, og ég er ekki í vafa um, að það er hægt. Það er meira en það, að þessi lög séu ófullkomin, þau eru ranglát líka. Það er þannig, að skip, sem eru innan við 100 tonn, það er skyldutrygging á þeim, og þessi skyldutrygging hefur verið óhagkvæm fyrir skipaeigendur. Þeir hafa ekki látið mikið til sín heyra síðari árin, vegna þess að þeir hafa ekki sjálfir þurft að greiða þetta, en þetta var þannig, að þeir þurftu að borga um það bil 6% af verðmæti skipanna í tryggingagjöld. En þeir, sem eiga skip, sem eru yfir 100 tonn, hafa þurft að borga 3–4%. En það eru fleiri atriði en þetta, sem koma til greina. Þeir, sem hafa skip sín í frjálsri tryggingu, fá miklu meiri og fullkomnari bætur en hinir t.d. ef vélabilanir eru hjá þeim, þá eru þær yfirleitt greiddar. En mínni skipin, sem eru í skyldutryggingu, fá slíkt yfirleitt ekki greitt. Auk þess fá þeir, sem hafa stærri skipin, lán frá tryggingafélögunum, sem kemur sér mjög vel fyrir þá, sem eru að ráðast í skipakaup.

Það er ekki ástæða til þess, að ég fjölyrði miklu meira um þetta. Það er margt, sem kemur til greina viðvíkjandi þessu. Þetta er mikið mál, og ég mun þess vegna láta þetta nægja í bili.