05.12.1962
Sameinað þing: 18. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í D-deild Alþingistíðinda. (3316)

103. mál, vátrygging fiskiskipa

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Spurt er, hvað líði endurskoðun laga um vátryggingu fiskiskipa. Sem svar við þessu skal ég taka fram eftirfarandi:

Um áramótin 1960 og 1961 kom hingað til lands maður að nafni Hinrik Amein frá Bergen, forstjóri stofnunar þar, sem heitir Reassurance institutet for fiskefarkoster, sem er endurtryggingastofnun fyrir gagnkvæm vátryggingafélög fiskiskipa í Noregi. Hinrik Amein kynnti sér vátryggingar á íslenzka fiskiflotanum og skilaði áliti um það efni, og var það álít liður í hagfræðilegri athugun á rekstri sjávarútvegsins, sem Gerhard M. Gerhardsen prófessor í fiskveiðihagfræði við háskólann í Bergen stjórnaði á vegum ríkisstj. En hann hafði í sinni athugun komizt að því, að vátryggingakjör íslenzkra fiskiskipa þyrftu sérstakrar athugunar við, og átti frumkvæði að því, að þessi sérfræðingur var fenginn frá Noregi.

Á öndverðu ári 1961 skipaði svo sjútvmrn. tryggingafræðingana Jón Erling Þorláksson og Þóri Bergsson ásamt Páli Sigurðssyni forstjóra Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum í nefnd til að gera tillögur um fiskiskipatryggingar. Nefndin gerði ýmsar tölulegar athuganir í sambandi við tryggingarnar og fór mjög nákvæmt ofan í málið allt. Nefndarmennirnir allir ásamt þeim Tómasi Þorvaldssyni útgerðarmanni í Grindavík og Kristni Erlendssyni skipaeftirlitsmanni hjá Samábyrgð Íslands, ferðuðust síðan til Noregs og Danmerkur og kynntu sér vátryggingar fiskiskipa í þessum löndum. En í lokin, er þeir áttu að skila áliti, urðu þeir ekki sammála um till. til breytinga á tryggingunum og skiluðu sínu álitinu hver síðari hluta ára 1961, eins og ég held að ég hafi við annað tækifæri skýrt frá hér á hv. Alþingi.

Síðan voru á þessu yfirstandandi ári skipaðir þeir Jón Erlingur Þorláksson og Tómas Þorvaldsson, hinn síðari samkv. tilnefningu Landssambands ísl. útvegsmanna, til þess að freista að ganga frá till. um málið á grundvelli hinna þriggja álita sérfræðinganna, sem fyrir lágu. Það var leitað til Landssambands ísl. útvegsmanna um það að tilnefna mann til samstarfs við Jón Erling Þorláksson um málið, og þeir unnu síðan úr því efni, sem fyrir var, og urðu sammála um tillögur um málið. Var þá svo um talað, að tillögurnar frá beim yrðu að lokum bornar undir stjórn L.Í.Ú., áður en gengið yrði endanlega frá, þeim. Þeir tvímenningarnir, urðu, eins og ég sagði, sammála um tillöguuppkast, sem lagt var fyrir L.Í.Ú. september s.l., og þar er uppkastið enn til athugunar. L.Í.Ú. fékk málið í septembermánuði s.l. Það var ekki talið fært að gana frá því, án þess að þeir fengju tækifæri til þess að senda um það sína umsögn, en það hafa þeir ekki gert enn, og það hefur valdið því, að málið hefur ekki verið lagt fram hér á Albingi.

Efnislega skal ég ekki fara að ræða málið. Mér finnst ekki ástæða til þess við þetta tækifæri, þó að hv. fyrirspyrjandi gerði það nokkuð. En mér skilst, að það hafi verið aðallega málsmeðferðin, sem spurt var um, og þeirri fyrirspurn tel ég mig hafa svarað með þessu.