12.12.1962
Sameinað þing: 20. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í D-deild Alþingistíðinda. (3321)

111. mál, verndun hrygningarsvæða

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Spurt er, hvað liði framkvæmd þál., er Alþingi samþykkti hinn 11. apríl s.l. um verndun hrygningarsvæða við strendur landsins. Þessi þáltill. eða tillgr. var svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að gera hið fyrsta nauðsynlegar ráðstafanir til, að framkvæmdar verði rannsóknir á hrygningarsvæðum nytjafiska við landið.“

Þessu er því fyrst og fremst til að svara, að rannsóknir á hrygningarsvæðum hafa verið eitt meginverkefni fiskideildar atvinnudeildar háskólans í þau 25 ár, sem hún hefur starfað, og raunar hefur lengur verið að þessum störfum unnið heldur en í þessi 25 ár. Unnið hefur verið allan þennan tíma, eftir því sem tök hafa verið á. En aðalerfiðleikarnir, sem við hefur verið að stríða, hafa verið þeir, að fé hefur skort til þess að framkvæma rannsóknirnar eins og þurft hefði að dómi fiskifræðinganna, bæði skipakost og fjármuni til annarrar starfsemi, sem þurft hefði að hafa uppi, ef vel hefði átt að vera í þessu efni. Þetta hefur nokkuð verið lagað í þeim till. fjvn., sem nú hefur verið útbýtt rétt í þessu, og leyfi ég mér að vísa til þeirra, enda standa fyrir dyrum allstórfelldar rannsóknir á þessu sviði í samvinnu við útlenda aðila, sérstaklega á gotsvæðum karfans, en allar eru þessar rannsóknir talsvert fjárfrekar og umsvifamiklar.

Um rannsóknirnar í sumar hef ég fengið þe2ta yfirlit frá fiskifræðingum: Tilgangurinn með rannsóknunum var að reyna að staðsetja nákvæmlega hrygningarsvæði sumargotssíldarinnar, svo að unnt væri að ganga úr skugga um, hvort hinum botnlægu síldareggjum væri hætta búin af dragnótaveiði, sem oft fer fram í námunda við eða á hinum afmörkuðu hrygningarstöðum. Þessum rannsóknir voru í sumar framkvæmdar að tilhlutan fiskideildar og sjútvmrn. Fjárskortur olli því, að það varð að notast við tiltölulega frumstæðan skipakost eða fiskibát, sem notaður var í þessu skyni, og urðu rannsóknirnar því minni í sniðum heldur en orðið hefðu, ef betra skip hefði fengizt til starfans. Rannsóknirnar fóru fram í júlímánuði s.l., og var einungis kannað svæðið við Vestmannaeyjar. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður tókst að finna hrygningarstað við Geirfuglasker, þar sem mikið af síldareggjum var á botninum á litlu svæði, og voru eggin í þykkum lögum, þannig að sennilegt er, að dragnótaveiðar á slíkum stað gætu haft mjög skaðleg áhrif. Mikla nauðsyn ber því til að efla þessar rannsóknir, svo að unnt verði að staðsetja alla hrygningarstaði á dragnótasvæðunum við Suður- og Vesturland og koma síðan í veg fyrir tortímingu síldareggjanna, a.m.k. á þeim tíma, sem þau eru talin vera í hættu, sem eru á dragnótatímanum taldar 3–4 vikur.

Fleira hef ég ekki að upplýsa um þetta mál. Ég vil aðeins undirstrika, að rannsóknir á hrygningarsvæðum nytjafiska hafa farið fram um allmörg undanfarin ár og verða hafðar uppi, eftir því sem fjárframlög hins háa Alþingis leyfa.