12.12.1962
Sameinað þing: 20. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í D-deild Alþingistíðinda. (3322)

111. mál, verndun hrygningarsvæða

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. sjútvmrh. fyrir hans svör við fsp. Að sjálfsögðu er mér það Ljóst og hefur verið, að fiskirannsóknir hafa verið hér á, undanförnum árum almennt. En það, sem till. mín á síðasta Alþingi stefndi að, var að undirbyggja það, að ákveðin hrygningarsvæði, sem vitað væri um við strendur landsins, væru friðuð.

Hæstv. sjútvmrh. hefur hér upplýst, að rannsóknir þær, sem fram fóru í sumar á hrygningarsvæði síldarinnar við Suðurland, aðallega Vestmannaeyjar, hefðu borið nokkurn árangur og að í ljós hefði komið, að ástæða væri til að athuga, hvort skip með veiðarfæri á þessum stað yfir hrygningartímann mundu ekki geta valdið þar tjóni. Ég tel einmitt, að þetta sé það, sem okkur beri að stefna að í enn ríkari mæli en áður hefur verið gert, að finna út hin stærstu hrygningarsvæði við strendur landsins, bæði síldar og annars nytjafisks, og að þau verði friðuð þann tíma, sem hrygningin stendur þar yfir.

Mér dettur ekki í hug á nokkurn hátt að bera brigður á niðurstöður okkar ágætu fiskifræðinga í þessu sambandi, en hinu er ekki að leyna, að þar greinir nokkuð á við þá reynslu, sem sjómenn telja sig hafa fengið í sambandi við sitt starf. Í umsögn atvinnudeildar Háskóla Íslands, fiskideildar, til allshn. um till. þá, sem ég flutti hér í fyrra, kemur það fram, að fiskifræðingar telja„ að um

helmingur þess fisks, sem á hrygningarsvæðin kemur, sé veiddur, á meðan á hrygningu stendur, en hinn helmingur stofnsins, eins og segir orðrétt í bréfi þeirra, „fái að hrygna í friði“. Það er einmitt þarna, sem ber á milli fiskifræðinga og álits þeirra manna, sem lengst hafa stundað þessar veiðar, að sjómenn óttast, að það ónæði, sem veiðarfæri valda á hrygningarsvæðunum yfir þann tíma, sem fiskurinn er þar, beinlínis flæmi hann í burtu og hann komi e.t.v. ekki aftur, þó að hann sé þar ekki veiddur. Þess eru dæmi, að ákveðin svæði, sem talin hafa verið hrygningarsvæði hér við land, hafa eyðzt af ástæðum, sem ekki liggur tjóst fyrir, hvað þar hefur verið að verki. Þetta vita allir, sem kunnugir eru þessum málum, fylgzt hafa með fiskveiðum á undanförnum árum, að átt hefur sér stað, bæði hér við suðurströndina og víðar. Það liggur ekki ljóst fyrir, hvaða ástæður liggja til þessa, en hitt er staðreynd, að þetta hefur átt sér stað, og það er einmitt þetta. sem ég tel að leggla eigi höfuðáherzlu á að rannsaka, hvaða orsakir liggja til þess, að hrygningarsvæði og ákveðin veiðisvæði þorni upp, eins og sagt er, og fiskur sækir þar ekki aftur og fæst þar ekki um kannske áratugbil, eftir að veitt hefur verið þar bæði með netum og öðrum veiðarfærum. Till. mín í fyrra miðaði að því, að slík athugun færi fram sérstaklega á ákveðnum svæðum og ef það sýndi sig að dómi fiskifræðinga, að það þyrfti að vernda þau með sérstökum ráðstöfunum, þá yrði það gert.