27.02.1963
Sameinað þing: 33. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í D-deild Alþingistíðinda. (3328)

148. mál, launakjör alþingismanna

Fyrirspyrjandi (Hannibal Valdimarsson):

Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svör hans, svo langt sem þau náðu. Hann viðurkenndi það, að launakjör íslenzkra alþm. væru á engan hátt sambærileg við launakjör þm. í nágrannalöndunum. og vitanlega hafði þó upplýsinga verið aflað um þau launakjör a.m.k. með tilliti til þess að hafa hliðsjón af launakjörum þm. í öðrum þjóðþingum. Og þær tölulegu upplýsingar, sem hæstv. forsrh. gaf um þetta efni, benda til þess, að grunnlaunin í Danmörku séu um 170–180 þús. ísl. kr. á. móts við rúmlega 50 þús. kr. hér. Það eru a.m.k. þrefalt meiri laun, sem þeir hafa, danskir þm., heldur en við höfum. Þm. í lögþinginu færeyska eru og mun hærra launaðir en íslenzku alþm., og er þó starfatími lögþingsins miklu skemmri en Alþingis er nú orðinn. Svíþjóð er að vísu auðugt Land, en þar er líka þingfararkaupið, grunnlaunin bara, á þriðja hundrað þús. ísl. kr. móts við 50 þús. kr. okkar. Skal það játað, að ríkisdagurinn sænski starfar lengur en Alþingi íslendinga, og þannig er um þjóðþing Norðurlanda, þau starfa nokkru lengur en Alþingi. En augljóst er af þeim fáu tölum, sem hæstv. forsrh. nefndi, að launakjör alþm. eru ekkert sambærileg launakjörum þm. í nágrannalöndunum.

Mér þótti miður að heyra, að hæstv. ríkisstj. teldi enn ekki ástæðu til neinna aðgerða til lagfæringar á þessu, því að það var gefið mjög í skyn, að á síðasta þingi mundi verða gerð lagfæring á launakjörum þingmanna, þó að ekki yrði af því, enda er enn meiri þörf orðin á því nú. Launakjör hafa bókstaflega gerbreytzt hér á Alþingi, ekki aðeins vegna vaxandi dýrtíðar, heldur vegna hinnar nýju kjördæmaskipunar, sem kostar þm, á allan hátt miklu meira að rækja sitt starf en áður var, meðan kjördæmin voru margfalt smærri.

Ég tel því, að fyllsta ástæða sé til þess fyrir alþm., að fengnum þessum upplýsingum hæstv. ráðh, um, að ríkisstj. ætli ekkert í þessum launamálum að gera, að athuga, hvort þeir telji sig ekki tilneydda að taka málið í sínar hendur og bera fram fyrir hönd allra flokka till. um launakjör þm., vafalaust byggðar á þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, og e.t.v. á því frv., sem hæstv. ríkisstj. hefur látið semja. Ég teldi það að öllu leyti eðlilegt, því að vitanlega er það ekki hæstv. ríkisstj., heldur Alþingi sjálft og enginn annar, sem á að ákveða launakjör þm.