27.02.1963
Sameinað þing: 33. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í D-deild Alþingistíðinda. (3334)

160. mál, bygging þverárbrautar á Vestmannaeyjaflugvöll

Fyrirspyrjandi (Unnar Stefánsson):

Herra forseti. Á árinu 1960 bar ég fram hér í Sþ. till. til þál. um flugbraut í Vestmannaeyjum. Till. var svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta fara fram fullnaðarathugun á skilyrðum til byggingar nýrrar flugbrautar í Vestmannaeyjum og stuðla að aukinni fjárveitingu og öflun lánsfjár til að hefja framkvæmdir verksins.“

Till. þessi náði ekki fram að ganga, og er ekki vitað til, að það mál væri á dagskrá hjá hinu opinbera fyrr en í fyrrasumar. Fyrir frumkvæði bæjarstjórnarinnar í Vestmannaeyjum fékkst þá fyrirheit um fjármagn að láni, svo að flugmálastjórninni þótti tiltækilegt að láta hefja framkvæmd á byggingu 600 m þverbrautar á. núv. flugbraut. Um mánaðamótin janúar–febrúar s.l. hafði verið unnið þar fyrir lánsfé að upphæð 1 millj. 50 þús., og leit þá svo út, að óvíst væri með öllu, hvort um frekari framkvæmdir yrði að ræða að sinni vegna fjárskorts. Af fjárveitingu til flugvalla á fjárl. þessa árs var kunnugt, að miklum hluta hafði verið ráðstafað fyrir fram, svo að augljóst þótti, að af fjárveitingu þessa árs yrði ekki unnt að halda verkinu áfram með þeim gangi, að viðunandi þætti.

Í grg. með till. minni, sem að framan er lýst, um þetta mál, er bent á þá algeru sérstöðu, sem Vestmannaeyjakaupstaður býr við meðal byggðarlaga landsins að því er samgöngur varðar. Eins og kröfum fólks er nú háttað um lífsþægindi, leyfi ég mér að telja það verulega annmarka á búsetu í Vestmannaeyjum, hve samgöngur eru erfiðar þar. Þverbraut á Vestmannaeyjaflugvöll mundi vera verulegt spor í rétta átt og því mikil nauðsyn á, að haldið verði áfram við þær framkvæmdir, sem þegar eru hafnar með leyfi og fulltingi flugráðs.

Með hliðsjón af því, hve hlutur Vestmannaeyjabæjar og íbúanna þar er mikilvægur í þjóðarframleiðslunni í heild, með hliðsjón af því, að kaupstaðurinn nýtur ekki neinnar hlutdeildar í því fjármagni, sem árlega er varið til vega- og brúagerða, leyfi ég mér að telja, að það sé mjög mikilvægt og eðlilegt, að þessi flugvallargerð haldi áfram, svo sem byrjað hefur verið á. Með hliðsjón af framansögðu leyfi ég mér að bera fram fsp. á þskj. 293 til hæstv. samgmrh., svo hljóðandi:

„a) Hvenær er ráðgert að fullgera þann 600 m áfanga af þverbraut á Vestmannaeyjaflugvöll, sem byrjað hefur verið á?

b) Hve mikið er áætlað, að sá áfangi þverbrautar kosti?

c) Hversu mikið fé er handbært til framkvæmda á þessu ári?“