27.02.1963
Sameinað þing: 33. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í D-deild Alþingistíðinda. (3337)

160. mál, bygging þverárbrautar á Vestmannaeyjaflugvöll

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég held, að það sé alveg nauðsynlegt með flugvallargerð eins og annað að gera sér glögga grein fyrir staðreyndunum hverju sinni, og það er sannleikur, að þörf á framkvæmdum er mjög víða. Og þótt við gætum verið sammáta um sérstöðu Vestmannaeyja, þá náttúrlega kemur ekki til mála að taka mestan hluta af flugvallafénu á einu ári þangað og sinna ekki neitt þörfum annarra staða. Það var minnzt hér á Norðfjörð. Á s.l. ári var lokið við Norðfjörð. Það mun hafa kostað um 700 þús. kr. að ljúka við Norðfjörð, að setja slitlag á þann völl. Ef það hefði ekki verið gert, hefði fokið í burtu og eyðilagzt mikið af því verki, sem þarna var búið að vinna. Það kom vitanlega ekki til mála annað en ljúka við þetta verk. Það hafði verið hafið, og kostnaðurinn, ég man ekki, hver hann var, hvort hann var 5 eða 6 millj., en það vitanlega kom ekki til mála að láta verkið vera fleiri ár hálfgert og liggja undir skemmdum.

Ég hef ekki fylgzt með því, hvað oft er flogið á Norðfjörð, en það hefur nú verið flogið þangað eitthvað talsvert, held ég.

Um það, að það hefði verið ástæða til, að Vestmannaeyjaflugvöllur hefði verið kominn lengra á veg eða meira gert, síðan þáltill. var flutt 1960, heldur en raun ber vitni, þá ber að vekja athygli á því, að allt fram á siðasta ár var gert ráð fyrir, að það þyrfti flugbraut, sem kostaði 20 millj. kr. eða meira, til þess að það kæmi að gagni, og meðan féð var svo takmarkað sem raun ber vitni um, átti það mjög langt í land. En eftir að við sáum fram á það, að 600 m kæmu að miklum notum, að ég ekki segi fullum notum í bráð, þá vitanlega var sérstök ástæða til þess að flýta því. Þá, gátum við séð fyrir endann á, því á tiltölulega fáum mánuðum og stuttum tíma, og þess vegna er það, sem þegar hefur verið gerð kostnaðaráætlun og tímaáætlun um að ljúka þessu verki. Það hefði mátt gera tímaáætlun líka með 20 millj. kr. brautina, en það var miklu erfiðara mál. En ég get aðeins endurtekið það, sem ég sagði áðan, að það er ekki ástæða til að ætla annað en þessu verki verði lokið á næsta ári.

Það er ekki rétt, sem hv. fyrirspyrjandi sagði hér áðan, að það hefði verið búið að eyða 9 millj. fyrir fram af fjárveitingu þessa árs, af rúmlega 13 millj. eða 13.3 millj., sem eru á fjárlögum. Það er búið að nota milli 6 og 7 millj. fyrir fram til nauðsynlegra framkvæmda. Þetta hefur verið gert mörg undanfarin ár, og það verður vitanlega unnið fyrir fram einnig á þessu ári. Það er eins og með vegaframkvæmdir og framkvæmdir, sem ýtt er mjög fast á eftir, að það er unnið fyrir fram, og við því er vitanlega ekkert að segja. Ég veit, að hv. þm. munu segja sem svo, að það þyrfti að veita meira fé í flugvellina, til flugvallagerða, og er alveg sammála því. En flugvallafé hefur verið hækkað um rúmlega 100% s.l. 4 ár, en byggingarkostnaður aukizt eða hækkað um 45%, þannig að framkvæmdafé til flugvallagerða hefur raunverulega hækkað talsvert, þótt það hefði verið æskilegt, að það væri meira.

Ég hef svo ekki meira um þetta mál að segja. Ég tel, að hafi upplýst málið alveg, og ég vona, að hv. þm. skilji, að það er ekki unnt að taka meginhlutann af framkvæmdafénu eitt ár til eins staðar, hvorki Vestmannaeyja né annars, vegna þess að hluti af þessu fé verður alltaf að fara til nauðsynlegra lagfæringa víðs vegar um landið. En Vestmanneyingar sjá nú vissulega fyrir endann á því, að þetta verður lagað mjög mikið frá því, sem verið hefur, með því að Björn Pálsson fer að fljúga til Vestmannaeyja með góðu samkomulagi við Flugfélag Íslands.