27.02.1963
Sameinað þing: 33. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í D-deild Alþingistíðinda. (3339)

160. mál, bygging þverárbrautar á Vestmannaeyjaflugvöll

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra foræti. Það eru aðeins örfá orð. — Þetta, sem ég taldi lausn, ég tók það fram í fyrri ræðu minni, að það væri hugsað sem lausn til bráðabirgða, þar til unnt verði að leysa málið betur með lengri braut, ef reynalan sýnir, að þess sé þörf. Það er rétt, að það er hugsað, að Björn Pálsson fljúgi til fleiri staða en Vestmannaeyja. En það þarf ekki endilega að hugsa sér, að hann fljúgi það allt á einni og sömu vélinni, því að ef þessi vél, sem hann nú er að kaupa, reynist vel, enda er fengin góð reynsla fyrir henni erlendis, þá hefur hann í hyggju að kaupa aðra vél, og er varla um annað að ræða, ef hann ætlar að fljúga á alla þessa minni flugvelli, sem nefndir voru hér áðan.

Um samvinnuna á milli Björns Pálssonar og Flugfélags Íslands held ég að ekkert þurfi að efast, ég hef rætt bæði við forstjóra Flugfélagsins og Björn Pálsson um þetta, og þeir virðast ekki telja neitt til fyrirstöðu. Og ef vél Björns er ætlað að fljúga til Vestmannaeyja, þegar vafasamt veður er eða slæmt, þá náttúrlega fer Flugfélagið ekki að senda eina af sínum vélum, ef þær eiga á hættu að verða að snúa við, vegna þess að vindur hafi breytzt. Það tekur nú ekki nema 20 mínútur eða svo að fljúga héðan til Vestmannaeyja, í mesta lagi hálftíma, og veðurfregnirnar geta þeir fengið og séð alveg, hvort veðrið er einmitt eða ekki, þannig að ég held, að við getum látið þá um það að koma sér saman um þetta og það þurfi tæplega að valda vandræðum. Það, sem ég legg áherzlu á, er, að með þessu móti verða samgöngumát Vestmannaeyinga leyst fyrr en annars hefði verið, ef við hefðum þurft að hugsa okkur 20 millj. kr. brautina strax sem eina lausn fyrir Vestmannaeyjar.

Um það, að viðhaldið hafi verið vanrækt á flugvellinum í Vestmannaeyjum á s.l. ári, það kemur mér alveg á óvart, og ég held, að hv. þm. geri of mikið úr því. Ég minnist þess að hafa heyrt, að það hafi verið ófært einn eða tvo daga, brautin hafi verið ófær einn eða tvo daga, vegna þess að það hafi verið kominn holklaki í hana. En þarf það að vera vegna þess, að viðhaldið hafi verið vanrækt? Skyldi það ekki vera vegna þess, að tíðarfarið hefur verið eitthvað öðruvísi en venjulega? Það hefur runnið þarna til, og um leið og tækifæri gafst til, var þetta vitanlega lagfært, þannig að ég held, að flugbrautin í Vestmannaeyjum sé ekki í neitt slæmu ástandi, eins og nú standa sakir. En ég get fyrirgefið hv. þm. það, þótt hann notaði tækifærið og kæmi þessu að. Það vildi þannig til, að það rann til þarna vatn og það myndaðist holklaki, og það mun hafa verið ófært þarna í einn eða tvo daga í vetur.

Varðandi það, að það hafi verið lofað flugvelli í Vestmannaeyjum fyrr og að vinna þarna meira en gert hefur verið, þá vil ég aðeins segja, að það var 1960, sem verkfræðingi flugmálastjórnarinnar var falið að gera áætlun um .heildarkostnað við flugbraut í Vestmannaeyjum, sem þá miðaðist við langa braut og dýra. Það var ekki hafizt handa og byrjað á þessu verki neitt að ráði fyrr en . s.l. ári, og það var vegna þess, að það var ekki fyrr en á s.l. ári, sem möguleikar sáust til þess, að unnt væri að hefjast þarna handa og halda verkinu síðan viðstöðutauat áfram. Það þurfti að flytja jarðýtur út í Vestmannaeyjar og önnur tæki frá flugmálastjórninni, og það þótti ekki hyggilegt að gera það, nema þessi tæki, eftir að þau voru komin þangað, gætu haldið áfram að vinna stöðugt, ekki þyrfti að flytja þau þaðan í burtu eða þau þyrftu ekki að vera þar verklaus. Og svo skal ég viðurkenna það, eins og ég reyndar sagði áðan, að eftir að séð var, að 800 m braut gat verið áfangi, sem kæmi Vestmanneyingum að gagni, þá var lögð enn meiri áherzla á að ljúka þessum áfanga enn fyrr en annars hefði verið. Og ég hygg, að bæði hv. fyrirspyrjandi og hv. 8. þm. Sunnl. geti verið sammála um, að einmitt þetta er mjög ánægjulegt, að það skuli vera unnt í biti a.m.k. að leysa samgöngumál Vestmanneyinga með þessum hætti.

Það var eitt, sem hv. 6. þm. Sunnl. leyfði sér að fullyrða hér áðan, og er það út af fyrir sig leiðinlegt fyrir hann, að hann skuli fullyrða það hér, að það sé mjög mikill baggi að því, að flugráð hefur ekki enn gert till. um skiptingu flugvallafjár á þessu ári. Hann vildi fullyrða, að það hefði tafið framkvæmdir. Þetta er alveg út í hött. Það hefur ekki tafið framkvæmdir. Það er hvergi verið að vinna að flugvallagerð nú nema í Vestmannaeyjum og verður ekki byrjað að vinna að flugvallagerð annars staðar í landinu fyrr en með vorinu, þegar klaki fer úr og tíðin batnar. Af þeim ástæðum er enginn bagi að því, þótt flugvallafénu hafi ekki enn verið skipt, og það er leiðinlegt að koma hér upp í ræðustólinn eins og hv. 6. þm. Sunnl. og fullyrða svona út í bláinn það, sem attir sjá að hefur ekki við nein rök að styðjast. Flugráð mun gera till. um skiptingu og ráðstöfun á fénu áreiðanlega nægilega fljótt til þess, að það verði bagalaust, og flugmálastjórnin mun nota þetta fé eins skynsamlega og unnt er. Hitt skal ég taka fram hv. 6. þm. Sunnl. til ánægju, að það er alls ekki mín till. sérstaklega, að hv. fjvn. hætti að skipta fénu. En ég hygg, að flugráð og flugmálastjóri hafi gleggri og betri yfirsýn um það, hvernig þessu fé beri að verja, heldur en jafnvel fjvn. Og fjvn. þyrfti að skipta fénu fyrir áramót, en það liggur jafnvel ljósar fyrir, þegar kemur fram í marz–apríl að vori, rétt áður en verkin skulu hefjast, hvar skórinn kreppir helzt að, hvar hafa orðið skemmdir yfir veturinn. Það hafa t.d. orðið skemmdir í Vestmannaeyjum, það hefur runnið til. í fyrravetur skemmdist talsvert á Egilsstöðum. Það er vitanlega óhjákvæmilegt að taka fé til að gera við það o.s.frv., þannig að það getur verið hægara að ráðstafa þessu fé og úthluta því með góðu móti í marz–apríl heldur en t.d. í desember, ef við legðum nú bara að jöfnu þekkingu og víðsýni hv. fjvn.- manna og flugráðs og flugmálastjórnar. Ég tel, að þetta þurfi að koma hér fram, um leið og sjálfsagt er að mótmæla því, að það sé einhver bagi að því, að flugráð hefur ekki enn gert till. um ráðstöfun á flugvallafénu.