19.12.1962
Sameinað þing: 24. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í B-deild Alþingistíðinda. (335)

1. mál, fjárlög 1963

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Á þskj. 222 eru brtt. frá mér og þeim hv. 3. þm. Norðurl. v. og hv. 5. þm. Norðurl. v.

I. brtt. á því þskj. er frá okkur og er um brúargerðir. Við leggjum þar til, að bætt verði inn í frv. fjárveitingum til að gera brýr á tvær ár í Vestur-Húnavatnssýslu. Það er á Reyðarlæk í Vesturhópi og Katadalsá á Vatnsnesi. Þetta eru ekki dýr mannvirki miðað við það, sem almennt gerist nú. Vegamálaskrifstofan áætlar, að brú á Reyðarlæk kosti 440 þús. og á Katadalsá 310 þús.

Eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. gerði grein fyrir hér áður við umr., höfum við ekki flutt neinar till. um breytingar á þeim upphæðum, sem ætlaðar eru til vegagerðar í kjördæminu, ekki lagt til, að hækkaðar verði þær fjárveitingar, sem gert er ráð fyrir á 13. gr. til vegaframkvæmda. Það er ekki fyrir það, að það sé ekki brýn þörf á því að auka framlögin í þessu kjördæmi, heldur er það, að við teljum þó enn meiri þörf á því að gera brýr þar yfir nokkur vatnsföll, og m.a. eru þar þær ár, sem ég hér nefndi. Þó að þetta séu ekki stór vatnsföll, eru þau oft mjög erfið yfirferðar að vetrinum og valda miklum erfiðleikum fyrir bændur, sem þurfa að koma mjólk frá búum sínum til mjólkurstöðvarinnar á Hvammstanga, en mjólkursala er nú þangað úr öllum hreppum sýslunnar.

Á sama þskj. flytjum við einnig till. um framlag til byggingar við héraðsskólann á Reykjum í Hrútafirði. Það er IV. till. á þessu þskj. Við förum þar fram á 300 þús. kr. til heimavistarhúss, sem þar er nauðsynlegt að byggja. Þetta er vitanlega ákaflega lítill hluti af því, sem þetta hús mun kosta. En við teljum þó allmiklu skipta að fá þessa upphæð inn á fjárl. sem viðurkenningu af hálfu Alþ. á því, að þetta hús þurfi að reisa og verði unnið að því á næstu árum.

Héraðsskólinn á Reykjum er mjög góður skóli að áliti allra, sem til þekkja. En þar vantar tilfinnanlega nýtt hús fyrir nemendaíbúðir og kennaraíbúðir. Það hefur verið svo nú síðustu árin, að aðsókn hefur verið mjög mikil að skólanum, og venjulega hefur þurft að vísa frá fleiri nemendum en hægt hefur verið að taka í skólann, vegna þess að nemendaíbúðirnar eru allt of litlar. Urðu okkur satt að segja nokkur vonbrigði, að hv. fjvn. skyldi ekki sjá sér fært að taka upp í sinar till. neina fjárveitingu til þessarar nauðsynjaframkvæmdar. Hæstv. menntmrh. sagði hér áðan, að aldrei hefði jafnmiklum fjárupphæðum verið varið til skólabygginga og nú, skv. þeim tili., sem fyrir liggja um fjárveitingar á næsta ári til slíkra bygginga. Ég geri ráð fyrir, að þetta sé rétt hjá hæstv. ráðh. En þess má geta í því sambandi, að aldrei hafa jafnverðlitlar krónur verið lagðar til þeirra framkvæmda eða annarra verklegra framkvæmda í landinu. Og það má líka minna á það, að aldrei hafa verið hér á landi jafnmörg börn og unglingar, sem skylt er að veita fræðslu, eins og nú.

Ég vil í sambandi við þessa till. okkar um framlagið til Reykjaskóla einnig benda á, að það er ákaflega lítið, sem veitt er skv. frv. og till. hv. fjvn. til nýrra skólahúsa á Norðurlandi vestra, það er mjög lítið. Og við viljum því vænta þess, að þessari till. okkar verði vinsamlega tekið af hv. þm.

Brtt. frá hv. fjvn. var útbýtt hér á fundi seint í dag, og það hefur þess vegna ekki gefizt nema skammur tími til að líta yfir þær. Ég get ekki stillt mig um að minnast hér á till., sem nefndin flytur. Það er brtt. við 22. gr. frv. Þessi till. er þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Að ráðstafa eignum áburðareinkasölu ríkisins til jarðvegsrannsókna, sérstaklega með tilliti til rannsókna á áburðarþörf lands, eftir ákvörðun landbrn. í samráði við búnaðardeild atvinnudeildar háskólans.“ — Ekki ætla ég að fara að hafa á móti því, að varið sé fé til þessara nauðsynlegu rannsókna. En hitt verð ég að segja, að mér þykir það dálítið einkennilegt að leggja til að ráðstafa eignum stofnunar, sem enn er starfandi. Það mun ekki vera venja að ráðstafa eignum slíkra fyrirtækja, fyrr en þau hætta störfum. En nú er það þannig með áburðarsöluna, eins og allir vita, að hún er enn rekin. Ég geri ráð fyrir, að það fyrirtæki eins og önnur þurfi á einhverju rekstrarfé að halda, og ég skil þetta þannig, að hæstv. ríkisstj. ætli að sjá fyrir því með öðru móti, fyrst hún ætlar nú að taka þær eignir, sem þar eru til, og ráðstafa þeim á þennan hátt, því að ég geri ráð fyrir því, að þessi till. hv. fjvn. sé flutt í samráði við ríkisstj. Hún ætlar því vafalaust að sjá áburðareinkasölunni fyrir rekstrarfé á annan hátt.

Um síðustu mánaðamót fékk ég bréf frá síldarverksmiðju Siglufjarðarkaupstaðar, sem nefnist Rauðka, og ég hygg, að aðrir þm. úr Norðurl. v. hafi fengið bréf samhljóða þessu, sem ég fékk. Í bréfinu er skýrt frá því, að verksmiðjuna vanti tilfinnanlega ný tæki til þess að geta hagnýtt síldarsoðið. Og það er gizkað á, að á þessu ári, 1962, hafi tapazt verðmæti að upphæð 6 millj. kr., vegna þess að verksmiðjan hafði ekki tæki til þess að nýta síldarsoðið. Ráðamenn verksmiðjanna hafa nú fengið vélsmiðju eina hér í Reykjavík til að gera áætlun um endurbætur á verksmiðjunni, m.a. að koma fyrir þessum tækjum, soðvinnslutækjum, og í bréfi þessu er farið fram á það, að við þm. vinnum að því, að inn á fjárl. 1963 verði tekin heimild fyrir ríkisstj. til að ábyrgjast allt að 15 millj. kr. vegna soðvinnslutækja með tilheyrandi fyrir síldarverksmiðjuna Rauðku á Siglufirði. Nú sé ég það, að í fjárlfrv., eins og það nú er eftir 2. umr., er einn liður á 22. gr., það er XX. liðurinn þar, þar sem er heimild fyrir ríkisstj. til að ábyrgjast allt að 35 millj. kr. til bygginga og endurbóta á síldarverksmiðjum og síldarumhleðslustöðvum, og hv. fjvn. leggur til í brtt. á þskj. 212, að þessi upphæð, 35 millj. kr., verði hækkuð í 50 millj. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt í umr. gerða grein fyrir því, hvernig eigi að nota þessa heimild, ef samþykkt verður. En ég vildi leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn annaðhvort til frsm. fjvn., hv. 3. þm. Vestf., eða til hæstv. fjmrh., hvort ekki mætti gera ráð fyrir því, að þessi heimild verði m.a. notuð til þess að veita þessari verksmiðju Siglufjarðarkaupstaðar nauðsynlega fyrirgreiðslu, þannig að ríkið taki ábyrgð á láni, sem hún þarf nauðsynlega á að halda til þess að koma verksmiðjunni í betra horf. Vildi ég óska eftir því að fá svar við þessari spurningu, áður en umr. lýkur.