13.03.1963
Sameinað þing: 38. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í D-deild Alþingistíðinda. (3358)

184. mál, endurskoðun laga um byggingarsamvinnufélög

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég tel eðlilegt, að það komi fram, þar sem hér er um allmörg byggingarsamvinnufélög að ræóa, sem fengu hinar bréflegu óskir umræddrar mþn., þar sem farið var fram á, að þau létu í ljós þá ágalla, sem þau teldu vera á núgildandi lögum um byggingarsamvinnufélög, að þar sem aðeins tvö bréfleg svör bárust við þessum óskum, þá tel ég rétt, að það komi fram, að þau félög, sem þarna svöruðu nánast strax, voru Byggingarsamvinnufélag lögreglumanna og Byggingarsamvinnufélag Reykjavíkur. Frá öðrum byggingarsamvinnufélögum bárust n. engin svör, þrátt fyrir að rík áherzla var á, það lögð, að þau létu frá sér heyra um þá ágalla, sem þau teldu vera á núgildandi lögum um þessi efni.

Áður en umrædd þál., sem er undirrót þessarar endurskoðunar, var samþ. hér á þingi, höfðu farið fram um það allmiklar umræður hér, hver nauðsyn væri á endurskoðun þessara laga, og ætla ég mér ekki að efast um allar þær röksemdir, sem fyrir því voru færðar, að endurskoðunin færi fram. En ég ætla þó, að þm. sé ljóst, að það er dálítið erfitt að hefja slíka endurskoðun án þess að hafa fyrir sér allvíðtæka reynslu, sem forustumenn þessara byggingarsamvinnufélaga hljóta óhjákvæmilega að hafa í þessum efnum, og virðist það stangast nokkuð á, annars vegar rökin, sem fyrir því voru færð, að lögin skyldu endurskoðuð, og hins vegar það áhugaleysi, sem virðist vera hjá byggingarsamvinnufélögunum um þessi efni, ef frá eru talin þessi tvö félög.

Eins og næstv. ráðh. skýrði frá, verður að sjálfsögðu unnið að þessu áfram. En æskilegra hefði verið, að fleiri álit lægju fyrir n. en þegar hefur tekizt að afla, áður en endanleg afgreiðsla málsins fer fram.