13.03.1963
Sameinað þing: 38. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í D-deild Alþingistíðinda. (3363)

251. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Fyrirspyrjandi (Jón Skaftason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir þau ýtarlegu svör, sem hann gaf við þeirri fsp., sem ég talaði fyrir hér áðan. Eins og ég sagði í frumræðu minni, var meiningin með flutningi þeirrar fsp., sem nú er verið að ræða, ekki sá að vekja upp það deilumál, gamalt og nýtt, hvort réttælanlegt eða viturlegt sé að leyfa dragnótaveiði í íslenzkri landhelgi, og skal ég ekki að því víkja. En það er eitt atriði, sem kom fram í ræðu hæstv. ráðh., sem mig langar til að víkja örfáum orðum að.

Hæstv. ráðh. lét sem hann hefði skilið orð mín þannig, að í þeim fælist einhver vantrú á fiskifræðingana okkar og þau störf, sem þeir vinna. Ég vil af þessu tilefni taka fram, að mín skoðun er einmitt sú, að fiskifræðingarnir og það starf, sem þeir vinna í þágu íslenzks þjóðfélags, sé hið mikilsverðasta og á margan hátt algerlega ómetanlegt fyrir velferð þessarar þjóðar, og ég fæ ekki skilið, að hæstv. ráðh, hafi getað dregið þá skoðun, sem virtist koma fram í þeim orðum, sem hann sagði hér áðan, af þeim ummælum, sem ég viðhafði, þegar ég fylgdi þessari fsp. úr hlaði. Hitt er svo aftur á móti staðreynd, sem ég veit að bæði hann kannast við og ýmsir aðrir, að margir og þá kannske ekki sízt sjómenn halda því fram, að dragnótin gangi hættulega nærri fiskistofninum. Hvort þessi skoðun þeirra byggist á eintómri vitleysu eða einhverju öðru, skal ég ekkert um segja. En ég vil bara lýsa því yfir, að mér finnst ástæða til þess, að bæði þessir menn og svo aftur almenningur, sem þetta mál svo sannarlega varðar miklu, fái að vita um skoðanir þær, sem fiskifræðingarnir hafa á þessu máli nú í dag, og einmitt af því og eingöngu þess vegna er sú fsp., sem ég hef borið fram ásamt hv. 3. þm. Norðurl. e., barin fram. Við henni hef ég nú fengið glögg og ýtarleg svör frá fiskifræðingunum, og eftir þeim svörum að dæma virðist reynslutíminn ennþá vera of stuttur til þess, að þeir telji sig geta dæmt um það, hvort dragnótaveiðin í Faxaflóa gengi hættulega nærri fiskistofnunum þar.