13.03.1963
Sameinað þing: 38. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í D-deild Alþingistíðinda. (3365)

251. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það var aðeins eitt atriði, sem mig langaði til að benda sérstaklega á af því, sem fram kom í þeirri skýrslu, sem hæstv. ráðh. las frá atvinnudeildinni.

Fyrst er að minnast þess, að dragnótaveiðarnar voru leyfðar aftur í landhelgi undir vísindalegu eftirliti og í trausti þess, að hægt væri að fylgjast með og gefa aðvaranir í tíma og breyta til, ef í ljós kæmi, að hætta vri á ferðum. Ég treysti mér ekki til þess að draga miklar ályktanir óundirbúið af þeim tölum, sem hæstv. ráðh. las frá fiskifræðingunum En hinu tók ég eftir, að aðalniðurstaðan var sú, eins og raunar hæstv. ráðh. benti á í lokin, að atvinnudeildin eða fiskifræðingarnir treysta sér ekki til þess að skera úr um það á þessu stigi málanna, hvort dragnótaveiðarnar hafi skaðleg áhrif eða ekki. Mér fannst það koma fram, að þetta vri ekki eingöngu vegna þess, hve styttur tími væri liðinn, frá því að þær hófust á ný, heldur einnig vegna þess, að rannsóknarferðir væru of fáar. Ég skildi málið þannig, að það gæti vel verið þannig ástatt, að rannsóknarferðirnar væru svo fáar, að fiskifræðingarnir treystu sér ekki til þess að gefa úrskurð um, hvað væri að gerast. En nú hefur dragnótin verið leyfð í trausti þess, að vísindalega eftirlitið væri fullnægjandi. Ég vildi þess vegna leyfa mér að nota þetta tækifæri til þess að beina því til hæstv. ráðh., að hann athugi sérstaklega þennan þátt í málinu, hvort rannsóknarferðirnar eru of fáar, hvort vísindaeftirlitið er of lítið, og gera þá ráðstafanir til þess að bæta úr því, ef svo er.