19.12.1962
Sameinað þing: 24. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

1. mál, fjárlög 1963

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Vestf., hv. 4. þm. Vestf. og ég flytjum allmargar brtt. við fjárlögin við þessa umr. Það hefur orðið að samkomulagi milli okkar, að við skiptumst nokkuð á um að mæla fyrir þessum till., og kemur í minn hlut að mæla fyrir nokkrum þeirra. Þær eru allar, þessar brtt., sem við flytjum saman, á þskj. 210 og þskj. 218.

Áður en ég vik að þessum brtt., vil ég drepa hér á tvö atriði í sambandi við brtt. hv. fjvn. Það er þá fyrst, að ég sé af 13. brtt. fjvn., að till. sú, sú einasta, sem ég flutti við 2. umr. fjárl. og var að upphæð 20 þús. kr., hefur verið tekin til greina af hv. fjvn. að verulegu leyti, þ.e.a.s. hún hefur verið skorin niður um 25% — um fjórðung, en samt sem áður ber að þakka, að þessi tili, hefur verið tekin til greina og sá liður, sem till. var flutt við, hefur verið hækkaður um 15 þús. kr. Ég þakka fjvn. fyrir þessa afgreiðslu og tel, að þetta sé nokkurs um vert fyrir bændurna á Kirkjubóli í Langadal, sem áttu og eiga við ærna erfiðleika að stríða. En það hefur nokkuð almenna þýðingu, að þetta býli leggist ekki í eyði eins og þau býli önnur þarna í dalnum norðan Þorskafjarðarheiðar, sem þegar hafa farið í eyði. Ég sem sé þakka fjvn. fyrir að hafa þó litið með nokkurri sanngirni á þetta mál.

Þá vil ég í tilefni af 53. brtt. hv. fjvn. segja örfá orð. Á fjárlögum nokkurra undanfarinna ára hefur verið liður, sem ber heitið: „Til orlofsheimilis verkalýðssamtakanna.“ Á þessum lið stendur þannig, að Alþýðusamband Íslands hefur á undanförnum árum haft með höndum undirbúning að því, að reist væri orlofsheimili, sem fólkið í verkalýðshreyfingunni, sem nú er um 31 þús. manns, ætti aðgang að til þess að dveljast í í sumarorlofi sínu. Til undirbúnings þessa máls höfum við forustumenn Alþýðusambandsins á undanförnum árum átt í samningum við hæstv. landbrh. um það, að ríkið leigði verkalýðshreyfingunni land undir orlofsheimili verkalýðssamtakanna, og tókust samningar um þetta í októbermánuði s.l. Landið hefur nú verið skipulagt, verkalýðsfélögin ákveðið að taka þátt í uppbyggingu orlofsheimilahverfis á þessu landi, og undirbúningur allur að framkvæmdum er kominn það langt, að framkvæmdir hefjast með vorinu. En vitað er, að þessi stofnun kemur til með að kosta margar millj. kr., ef ekki nokkra milljónatugi, miðað við núv. byggingarkostnað. En nú sé ég það, að einmitt þessi 53. brtt. hv. fjvn. lýtur að því að breyta heiti þessa liðar á þann veg, að í staðinn fyrir „til orlofsheimilis verkalýðssamtakanna“ komi, til orlofsheimila verkalýðssamtaka. — Ég vona, að það sé rétt, sem hv. frsm. fjvn. sagði hér í kvöld, að þetta væri einungis orðalagsbreyting, en ekki efnisbreyting.

Og ef það er sannleikur, sem ég vona að sé og enginn hrekkur sé þarna á bak við, þá er till. um þessa breytingu á textanum þýðingarlaus. En ef hins vegar er ætlunin að dreifa þessari fjárveitingu nú á einstök verkalýðsfélög innan Alþýðusambandsins, en þau eru 160 að tölu, þá er ég hræddur um, að það geti orðið til þess, að það megi taka drjúgum hærri fjárveitingu inn á fjárl. til þess að þjóna þessu markmiði, ef nokkurn á um það að muna af hinum mörgu aðilum, sem þá geta komið til greina. Held ég því, að það mundi geta dregið dilk á eftir sér, ef meining væri á bak við að framkvæma það, að nú ætti að rýmka heimildina til þess, að einstök verkalýðsfélög innan Alþýðusambandsins ættu rétt á fjárveitingu í þessu skyni. Ég vil því vona, að þetta þýði, eins og formaðurinn sagði, enga efnisbreytingu, og veit þá í raun og veru ekki, til hvers er verið að breyta heiti þessa liðar á fjárlögunum. En svo mikið er víst, að það gæti komið mjög flatt upp á Alþýðusambandið, sem hefur að öllu leyti undirbúið þessa framkvæmd og er að hefja framkvæmdir, ef þarna er ætlunin að drepa þessari fjárveitingu á dreif til margra aðila, og mundi þá hvern um sig, ef margir yrðu um það að sækja um þetta og allir ættu rétt á því eftir orðalaginu, lítið um það muna, nema upphæðin yrði þá margfölduð. Ég vil að svo komnu máli a.m.k. vænta þess, að hér sé, eins og formaður fjvn. og frsm. hefur þegar sagt, aðeins um orðalagsbreytingu að ræða og ekki efnisbreytingu, og stend í þeirri meiningu, þangað til annað verður þá sagt, sem tekur af tvímæli um þetta.

Þá skal ég þessu næst víkja að þeim brtt., sem ég ætla hér að mæla fyrir, og byrja þá á þeim brtt., sem við þremenningarnir flytjum á þskj. 210.

Þar er fyrst brtt., sem merkt er VI og er um það, að 100 þús. kr. fjárveiting, sem ætluð er samkv. till. fjvn. til hafnarmannvirkjagerðar á Drangsnesi, hækki og verði 350 þús. kr. hækki um 250 þús. Hafnarnefndin á Drangsnesi hefur mörg undanfarin ár sent áskoranir til þingsins um það, að fé væri veitt til Drangsnesbryggju, en sífellt talað fyrir daufum eyrum. Afsökunin hefur fyrst og fremst verið sú, að það væri verið að gera myndarlega hafnarbót í nágrannakauptúninu Hólmavík, og það er rétt, og þess vegna yrði Drangsneshöfn að bíða með þolinmæði, þangað til þessari mannvirkjagerð á Hólmavík væri lokið. En af þessu leiðir það, að Drangsnesbúar hafa gert sér ákveðnar vonir um það, að þegar hafnarmannvirkjunum á Hólmavík væri lokið, þá kæmi röðin að Drangsnesi. Nú er það þannig, að lokið hefur verið við mjög myndarlega viðgerð á Hólmavíkurbryggju, og þess vegna hugsaði hafnarnefndin á Drangsnesi sér til hreyfings, að nú hlyti röðin að koma að Drangsnesi og að þeir fengju myndarlega fjárveitingu til þess að geta hafizt handa um lengingu bryggjunnar þar. En þegar til stykkisins kemur, er lagt til, að þessi staður fái aðeins 100 þús. kr., og það er ekkert stórt, sem hægt er að gera í hafnarmannvirkjum fyrir 100 þús. kr., miðað við núverandi verðlag. Það hygg ég, að öllum hv. alþm. sé ljóst. En þarna er brýn þörf á lengingu bryggjunnar. Atvinnulifið á Drangsnesi hefur blómgazt á undanförnum árum, síðan landhelgin var stækkuð, og fiskifloti þeirra aukizt mjög. Hafnarskilyrðin eru hins vegar algerlega ófullnægjandi, og þessi fiskifloti býr við mikið öryggisleysi vegna lélegra hafnarskilyrða. Þarna þarf því úr að bæta. En það verður ekki ráðizt í neinn áfanga, sem að gagni kemur, ef fjárveitingin er 100 þús. kr., og þess vegna leggjum við til, að fjárveitingin verði nú 350 þús. kr., en með lægri upphæð þýðir ekki að hefja áfanga, sem þarna verður að framkvæma í einu lagi.

Ég vænti þess, að menn líti á þörf þessa kauptúns, sem nú stendur í blóma og með traust atvinnulíf, en með ófullnægjandi hafnaraðstöðu og hefur beðið, eins og ég hef sagt, lengi eftir því að geta lagfært hjá sér hafnaraðstöðuna, til þess að smábátaflotinn, sem þarna er, geti á sómasamlegan hátt notið öryggis og athafnað sig við Drangsnesbryggju. Ég vil því vona, að þessi till. mæti sanngirni hv. þm. og verði samþykkt.

Þá er þessu næst VIII, liðurinn á þskj. 210, sem er um hækkun á fjárveitingum til nokkurra annarra hafna í Vestfjarðakjördæmi.

Þar er fyrst till. um það, að fjárveiting til Ísafjarðarhafnar hækki úr 450 þús. í 700 þús. kr. Nú eftir 2. umr. fjárlaganna barst þm. Vestfjarðakjördæmis símskeyti frá hafnarnefnd Ísafjarðar, þar sem skorað var á okkur þm. að stuðla að því, að Ísafjarðarhöfn fengi 700 þús. kr. fjárveitingu. Var ég því að vona, að fulltrúar Vestfjarðakjördæmis í fjvn. mundu ekki snúa daufa eyranu við þessari bón hafnarnefndarinnar á Ísafirði. En það var einmitt daufa eyrað, sem sneri að þessu símskeyti og þessari frómu ósk hafnarnefndarinnar á Ísafirði. Það sést nú af till. hv. fjvn., að hún ætlar þarna ekki úr að bæta, og áfram stendur 450 þús. kr. fjárveitingin.

Fyrir nokkuð mörgum árum var byggð svokölluð bátahöfn á Ísafirði. Það hefur reynslan sýnt, að síðan hún var byggð, hefur varla orðið skemmd á nokkru skipi í Ísafjarðarhöfn. En nú var svo komið, að bátafloti Ísfirðinga hafði stækkað mjög, svo mjög, að bátahöfnin var orðin allt of lítil og ofþrengsli í bátahöfninni. Þess vegna var það s.l. vor, að hafnarnefnd Ísafjarðar hófst handa um það að láta grafa upp út frá bátahöfninni með það fyrir augum, að landarmur bátahafnarinnar yrði lengdur, þar á að vera stálþil, og þessi uppgröftur var framkvæmdur með mjög stórum og myndarlegum krana, sem nú hefur lokið verulegum hluta af uppgreftinum. Á næsta sumri var svo ætlunin að ljúka uppgrefti og ramma niður stálþil og ganga frá þessari stækkun bátahafnarinnar, og er þetta áfangi, sem vinna verður í einu lagi.

Ég taldi sjálfsagt og hv. 2. þm. Vestf. og hv. 4. þm. Vestf. — við töldum allir sjálfsagt að verða við kröfu hafnarnefndarinnar á Ísafirði og höfum tekið upp þá tili., sem hafnarnefndin sendi frá sér um, að fjárveitingin til Ísafjarðarhafnar verði nú hækkuð úr 450 þús. í 700 þús., til þess að hægt sé að ljúka þessum nauðsynlega áfanga til stækkunar bátahafnarinnar á Ísafirði til öryggis fyrir hinn mikla og verðmæta vélbátaflota, sem þar er nú staðsettur og á að njóta öryggis í þessari höfn. Um það þarf ekki að fjölyrða, að Ísafjarðarhöfn er mikil útflutningshöfn, og þar eru dregin mikil verðmæti í þjóðarbúið af ísfirzka bátaflotanum. Ég vil því vænta þess, að hv. alþm. fallist á, að full þörf sé á að samþykkja þessa brtt. okkar þremenninganna.

Þá er 2. töluliður í þessari till. viðvíkjandi hafnarbótum á Kaldrananesi í Strandasýslu. Hefur hv. fjvn. af sinni rausn ætlað 25 þús. kr. til bættra hafnarskilyrða í Kaldrananesi. Ég veit satt að segja ekki, hvað hv. fjvn. meinar með því að vera að taka á blað 25 þús. kr. til hafnarmannvirkja. Er það til þess að spotta viðkomandi. stað, draga dár að honum? Til einskis gagns er það. Miklu viðkunnanlegra væri að segja: Við getum enga fjárveitingu látið til þessa staðar, — heldur en fara að setja 25 þús. kr. til hafnarmannvirkis. Það er alveg eins hægt að nefna einhverja aura, það er alveg jafngagnslaust að leggja 25 þús. kr. í hafnarmannvirki.

Það er að vísu hægt að segja það, að Kaldrananes er í dag ekki mikill framleiðslustaður. En þarna er góður landgangur að bryggju, en þessi landgangur að bryggju er í fullkominni hættu, ef ekkí er byggður bryggjuhaus framan við þennan landgang, og það er það, sem íbúar Kaldrananeshrepps hafa óskað eftir að fá aðstoð til nú um alimörg ár, áður en þessi landgangur að bryggju eyðileggist. En þarna eru hin ágætustu hafnarskilyrði frá náttúrunnar hendi, og það mundi skapa útgerðinni við Steingrímsfjörð, Hólmavíkurbátum og Drangsnesbátum, verulegt öryggi, ef að öruggri lendingaraðstöðu væri að ganga Bjarnarfjarðarmegin, þ.e. á Kaldrananesi. Og þaðan væri hægt í þeim sjóferðum, sem bátar verða að leita inn á Bjarnarfjörð, inn að Kaldrananesi, að aka aflanum hvort sem væri til Drangsness eða Hólmavíkur, og skipin gætu komizt aftur á sjó, þó að þau hefðu ekki getað tekið Steingrímsfjörð.

Það má því segja, að bryggjan á Kaldrananesi sé öryggishöfn viðvíkjandi höfnunum við Steingrímsfjörð, þ.e. Drangsnesi og Hólmavík, og eigi fullan rétt á sér, og þá þar að auki, eins og ég áðan sagði, til að fyrirbyggja, að það mannvirki, sem þarna er, eyðileggist. En Kaldrananesbryggja er ekki örugg, fyrr en bryggjuhaus hefur verið byggður við núverandi landgang bryggjunnar.

Við leggjum því til, að gert sé mögulegt að byggja eða byrja a.m.k. á að byggja þennan bryggjuhaus, með því, að fjárveitingin verði ekki 25 þús. kr., heldur 200 þús. kr. Hækkunin er um 175 þús. kr.

3. töluliður þessarar till. er um, að fjárveiting til Norðurfjarðar í Árneshreppi hækki úr 150 þús. kr. í 250 þús. kr.

Norðurfjörður í Árneshreppi er verzlunarstaður Arneshrepps. Þangað eru fluttar allar nauðsynjavörur til allra Arneshreppsbúa, og þaðan eru fluttar út afurðir hreppsbúa. En þarna er bryggjustúfur, sem liggur fram á svo grunnan sjó, að skip eins og Skjaldbreið getur ekki lagzt að bryggjunni, og verður á þessum verzlunarstað að flytja allar vörur úr skipi og í í uppskipunarbátum, en það er óviðunandi aðstaða á okkar tímum. Það hygg ég, að allir verði að játa.

Talið er, að bezt bryggjustæði sé í eyri, sem er þarna rétt við verzlunarstaðinn, og að rangt sé að leggja mikið aukið fé í lengingu á þeim bryggjustúf, sem þarna er, en hann dugir sem sé aðeins fyrir smábáta. Þarf því á Norðurfirði að byggja bryggju, sem strandferðaskip ríkisins, Skjaldbreið og Herðubreið, geti lagzt að og þannig verði auðveldaður brottflutningur afurða og aðflutningur nauðsynjavara til íbúa Árneshrepps. Íbúar þessa sveitarfélags geta ekki dregið að sér vörur með bifreiðum frá Reykjavík, eins og flest önnur byggðarlög geta, og ekki heldur komið afurðum sinum frá sér landleiðina, því að Arneshreppur er, eins og kunnugt er, eitt af þeim sveitarfélögum á Vestfjörðum, sem eru ekki í neinum tengslum við akvegakerfi landsins. Öll tengsl íbúa þessa sveitarfélags byggjast á flutningum á sjó. Og þar verður tengingin að vera sem sé bæði um aðflutning og fráflutning með uppskipunar- og útskipunarbátum í sambandi við strandferðaskipin. Þarna er því full þörf á að rétta fámennu og einangruðu byggðarlagi. hjálpandi hönd, og það duga ekki til þess að byggja bryggju, sem strandferðaskipin geta lagzt að, neinar 150 þús. kr. Til þess að hægt sé að hefjast handa um þessa framkvæmd, dugir a.m.k. ekki minna en 250 þús. kr., sem er það, sem við leggjum til, og hygg ég þó, að það yrði að vera aðeins fyrri áfangi að þessari bryggjugerð.

Þá er 4. tölul, þessarar till. um hækkun á fjárveitingu til bryggju í Súðavík. Er nú lagt til af hv. fjvn., að það verði 50 þús. kr. fjárveiting til bryggju í Súðavík, en við leggjum til, að í staðinn komi 250 þús. kr.

Súðavík er fiskiþorp með um 200 manns. Staðurinn átti um langt árabil við mikla atvinnuörðugleika að stríða, blómgaðist ekki, en nú á seinni árum hefur atvinnulifið blómgazt. Þeir hafa keypt sér stærri báta, og Súðavíkurbryggja er nú ófullnægjandi til þess að veita þeim bátaflota, sem þarna er gerður út, öryggi. Það þarf því að gera mjög myndarlegar umbætur á Súðavíkurbryggju, og er háðung, vil ég nánast segja, að nefna 50 þús. kr. í því sambandi, enda alveg gagnslaust, eins og þegar til annarrar hafnar, sem ég hef gert áður að umtalsefni, voru nefndar 25 þús. kr. af hv. fjvn. Þeir, sem reka atvinnu eða gera út í Súðavík, vita það bezt, að þeim er bráð nauðsyn á því, að Súðavíkurbryggja sé gerð bæði traustari og að viðlegupláss þar sé aukið, svo að bátar þeirra geti athafnað sig við þessa bryggju.

5. tölul. þessarar till. er um það, að 350 þús. kr. fjárveiting, sem fjvn. leggur til að komi til hafnar á Þingeyri, verði 600 þús. kr.

Á s.l. hausti kom hafnarnefnd Þingeyrar hingað til Reykjavíkur til þess að vinna að því við þm. Vestfjarðakjördæmis, að þeir fengju myndarlega fjárveitingu til hafnargerðar á Þingeyri. Þeir lögðu fyrir okkur áætlanir og teikningauppdrætti vitamálastjórnarinnar um ýmsar gerðir hafnar á Þingeyri og höfðu þar gert sitt val í samráði við sérfræðinga vitamálastjórnarinnar um, hvernig hafnargerð skyldi þarna hagað, og vildu fá fyrirheit af hendi okkar Vestfjarðaþm. um það að styðja þeirra mál. Við vorum, held ég, allir sammála um það, að þeir hefðu þegar í hendi nokkurt fjármagn til þess að hefja þessa myndarlegu hafnargerð, og hvöttum þá heldur en löttum að halda áíram undirbúningi að þessari hafnargerð, og þess mætti vænta, var þeim fyllilega sagt, að á fjárlög yrðu teknar myndarlegar upphæðir, til þess að þeir gætu farið af stað með þetta átak í sínum hafnarmálum. Og með það í huga fóru þeir heim til sín af okkar fundi. Ég varð fyrir vonbrigðum og við, sem að þessum till. stöndum, þegar við sáum, að þarna voru aðeins ætlaðar 350 þús. kr. til hafnargerðar á Þingeyri, og teljum, að það megi ekki minna vera en þessu plássi sé mætt af skilningi á þann hátt, að þeir sjái sér fært að hefja sína hafnargerð. En það geta þeir trauðla, nema þeir fái um 600 þús. kr. fjárveitingu á fjárl. Nú eru nokkrir staðir á fjárl. með 600 þús. kr. framlög og nokkrir einstakir með 700 þús. kr. framlög, og þetta er staður, sem ætlar að færast mikið í fang, og nauðsyn rekur þá áfram til þess að hefjast handa um byggingu hafnar með myndarlegum hætti, og aðstaða er öll hin bezta á Þingeyri til þess að byggja þarna góða höfn. A það var bent, að það eru fyrst og fremst bætt hafnarskilyrði á Þingeyri, sem tryggja þróun og tilverumöguleika kauptúnsins Þingeyrar og einnig sveitanna þar í kring. En það er staðreynd, að fólk hefur flutzt þarna í burtu og sveitirnar virðast vera að tæmast í kringum Þingeyri, og það er áreiðanlega vegna þess, að Þingeyri hefur verið verr sett en flest önnur kauptún á Vestfjörðum að því er snertir góð hafnarskilyrði. Ég mundi því vilja vænta þess, þó að menn segi, að þetta sé nokkuð há upphæð, 600 þús. kr. til Þingeyrarhafnar, að þegar þeir vita, hvernig á stendur, að þarna er verið að fara af stað með mjög myndarlegar framkvæmdir, að þeir hafa sjálfir búið sig þannig út, að þeir hafa verulegan fjárstofn til að fara af stað með, þá beri að mæta þeim með fjárveitingu, sem verki heldur uppörvandi en á þann veg að draga úr þeim þrótt og kraft til að hefjast handa.

6. tölul, þessara till. okkar um hafnarbætur og hafnarframkvæmdir í Vestfjarðakjördæmi er svo við 59. liðinn, ýmsar hafnarframkvæmdir. Þar er lagt til, að til ýmissa hafnarframkvæmda séu ætiaðar 150 þús. kr. Við leggjum til, að þessi liður verði upp á 450 þús. kr. og að aftan við liðinn bætist svo hljóðandi: „Þar af 300 þús. kr. til byggingar fiskihafnar við Hreggsstaði á Barðaströnd (fyrsti áfangi).“

Um þingtímann í fyrra fengum við Vestfjarðaþm. rækilegt erindi frá íbúum í Barðastrandarhreppi um það, að þeir teldu, að það, sem bezt gæti tryggt viðunandi byggð á Baiðaströnd, væri, að byggð væri fiskihöfn þarna einhvers staðar, þar sem beztar þættu hafnaraðstæður á Barðaströndinni, og var aðallega talað um tvo staði. Hreggsstaði eða Siglunes. Ég er ekki í nokkrum vafa um, að það hefði mikla þýðingu fyrir byggðina norðan Breiðafjarðar, að þarna kæmi höfn, þó að hún væri ekki mjög stór í sniðum, en höfn, sem gæti veitt öryggi smábátaútgerð, sem gæti orðið stuðningsatvinnuvegur við Barðstrendinga. Enn fremur hefði höfn á þessum stað verulega þýðingu fyrir Vestfjarðahafnirnar, en Vestfirðingar verða oft að sækja sjó suður fyrir Látrabjarg. Í langvarandi norðanstormum er erfitt að taka Látraröstina, og væri mikið öryggi fyrir vestfirzka bátaflotann, þegar hann væri á þessum slóðum, að þurfa ekki í tvísýnu að leggja í Látraröst, heldur gæti leitað hafnar einhvers staðar á Barðaströndinni. Ég tel því, að höfn á þessum stað hefði þýðingu, ekki aðeins fyrir viðkomandi sveitarfélag, heldur einnig fyrir Vestfjarðabyggðirnar norðan Látrabjargs. Fulltrúar frá vitamálastjórninni hafa a.m.k. tvívegis farið á þessar slóðir til þess að skoða allar aðstæður og gera þar áætlanir og fallast á, að skilyrði séu þarna allgóð til að byggja fiskihöfn, og er okkur ljóst, að hún mundi kosta miklu meira fé en hér er farið fram á. En við gerum líka ráð fyrir, að þetta væri aðeins byrjunaráfangi, sem þó e.t.v. gæti orðið að nokkru gagni og orðið grundvöllur fyrir byrjandi smábátaútgerð.

Þá er XI. liðurinn á þessu sama þskj. Hann er um sjóvarnargarða. Og till. fer fram á, að þar verði tekinn upp nýr liður til sjóvarnargarðs á Ísafirði, og leggjum við til, að til hans verði veittar 200 þús. kr.

Á 16. gr. fjárl. eru nú fjárveitingar til einna 10 staða, og eru þar 4 staðir a.m.k. með 200 þús. kr. til sjóvarnargarða, það er Eyrarbakki, það er Flateyri, það er Hauganes og það eru Vestmannaeyjar. Þessir staðir allir eru með 200 þús. kr. til sjóvarnargarða. Nú er það kunnugt, að Ísafjarðarkaupstaður stendur á sand- og malareyri, Skutulsfjarðareyri, og þessi eyri liggur undir ágangi í brimum, og hefur kaupstaðurinn varið miklu fé til þess að setja stórgrýti í sjávarmálið á eyrinni norðanverðri til þess að verjast landeyðingu og tekizt nokkuð að afstýra eyðingu lands á utanverðri Skutulsfjarðareyri. En þarna þarf meira til, og úr því að fjárveitingar eru til þessara hluta til margra staða, sem mjög líkt stendur á um, t.d. á Flateyri, þar sem aðstaða er mjög svipuð, en fjárveitingar til sjóvarnargarða þar hafa verið á fjárl. nokkur undanfarin ár, þá tel ég alla sanngirni mæla með því, að Ísfirðingum sé veitt svipuð fjárveiting til þess að afstýra landbroti og eyðingu lands á utanverðri Skutulsfjarðareyri. Í því símskeyti, sem hafnarnefnd sendi Vestfjarðaþm. núna fyrir nokkrum dögum, var einmitt einnig farið fram á það, að Ísafirði yrðu veittar 200 þús. kr. til sjóvarnagarðs, og er þetta því till. frá hafnarnefnd Ísafjarðar, sem við þremenningarnir höfum leyft okkur að taka upp, og vildi ég vona, að ekki verði gert upp á milli Ísafjarðar að þessu leyti og þeirra annarra staða, sem sízt eru í meiri hættu af ágangi sjávar en Skutulsfjarðareyrin er og hafa á þessu fjárlfrv., sem við ræðum um, 200 þús. kr. hver um sig. Ég sé að vísu, að síðan 2. umr, fjárl. fór fram, hefur hv. fjvn. tekið upp í sínar till. 100 þús. kr. fjárveitingu til sjóvarnargarðs á Ísafirði og orðið þannig að hálfu leyti við ósk og kröfu hafnarnefndarinnar á Ísafirði. En það held ég, að sé ekki nóg og að réttlátast væri að láta Ísafjörð fá 200 þús. kr. í þessu skyni. Þörfin er ærin og verkefnin mikil til þess að verja þarna landbroti, og væri þá Ísafjörður settur á sama bekk og 4 aðrir staðir, sem nú hafa samkv. till. fjvn. 200 þús. kr. í þessu skyni.

Þá er XII. liðurinn á þskj. 210. Hann er um hækkun fjárveitingar til jarðhitasjóðs. Fjvn. leggur til, að jarðhitasjóði séu ætlaðar 6 millj. og 200 þús. kr. Við leggjum til, að þessi heildarliður verði hækkaður í 8 millj. kr. og að aftan við liðinn bætist svo hljóðandi: „Þar af til jarðborana í Syðridal í Bolungarvík, að Laugum í Súgandafirði og Sveinseyri í Tálknafirði 1 millj. og 800 þús. kr.“

Á undanförnum árum hefur jarðhitasjóður varið fé til jarðborana eftir heitu vatni á ýmsum stöðum á landinu, og hefur þetta mál yfirleitt mætt skilningi hv. þm. Það er ekkert lítið atriði þjóðhagslega séð, að þar sem jarðhiti er í námunna við þéttbýli, þá sé hann notaður eða gengið úr skugga um, hvort hann sé fyrir hendi, til þess að upphita heil kauptún eða bæi. Engum eyri hefur fram að þessu verið varið til jarðhitaleitar á Vestfjörðum, en jarðhiti kemur þar þó víða fram á yfirborð. Það eru stærstu jarðhitasvæðin á Reykhólum og í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. En mjög víða kemur jarðhiti fram annars staðar.

M.a. kemur jarðhiti fram rétt í námunda við Bolungarvikurkauptún, en Bolungarvikurkauptún hefur nú um 800 manns og er í örum vexti, með þróttmikið atvinnulif. Það væri ekki lítils virði, ef hægt væri að fá jarðhita í næsta nágrenni kauptúnsins til upphitunar húsa í Bolungarvík, og þess vegna teljum við brýna nauðsyn bera til þess, að jarðhitasjóður sinni því hlutverki að prófa það með borun, hvort þar væri ekki um nægilegt jarðhitamagn að ræða til upphitunar húsa í Bolungarvíkurkauptúni.

Líkt stendur á um Suðureyrarkauptún. Suðureyrarkauptún hefur mjög stóran og myndarlegan vélbátaflota, og það er eitt þeirra kauptúna, sem framleiða mest í þjóðarbúið á íbúa af öllu landinu. Nokkuð innan við kauptúnið er laug, og þar hafa Súgfirðingar fyrir löngu byggt myndarlega sundlaug. En full ástæða er til að ætla, að þarna sé um mikinn jarðhita að ræða, ef borun væri framkvæmd, og fjarlægðin frá kauptúninu er svo lítil, að það væri auðvelt mál og sjálfsagt til sparnaðar fyrir þjóðarbúið að byggja hitaveitu fyrir Suðureyrarkauptún, ef borun á þessum stað bæri árangur, og sjálfsagt er að ganga úr skugga um, hvort svo sé.

Þriðji staðurinn, sem í þessari till. er nefndur, er svo Sveinseyri í Tálknafirði. Það eru ekki nema um 20 ár síðan við Sveinseyri í Tálknafirði voru aðeins nokkrir sveitabæir. Nú hefur þarna risið upp myndarlegt kauptún, sem er í mikilli grósku og örum vexti. Þar er búið að byggja mikil hafnarmannvirki, þar er hinn glæsilegasti fiskiskipafloti, þar er ný höfn, og jarðhitinn er þarna í Sveinseyrartúni, hefur verið byggð sundlaug við þær laugar fyrir löngu, sundkennsla í Tálknafirði, Patreksfirði og í umhverfinu þarna hefur farið fram við þá sundlaug, og full ástæða er til að ætla, að við borun kæmi í ljós, að þarna væri nægur jarðhiti til að hita upp Sveinseyrarkauptún, þó að það stækkaði mikið, sem fyllilega má búast við, frá því, sem nú er.

Við förum sem sé fram á, að jarðhitasjóði verði ætlað það hlutverk að framkvæma borun og þannig leit eftir jarðhita í námunda við Bolungarvíkurkauptún, í námunda við Suðureyrarkauptún og í námunda við Sveinseyrarkauptún og að til þessa verði varið allt að 1 milljón og 800 þús. kr. á næsta árs fjárl. Það er ekki sanngjarnt, að samtímis því sem jarðhitasjóður ræðst í stórframkvæmdir á þessu sviði í öðrum landshlutum, þá sé ekki hreyft því máli að athuga jarðhitaauðæfin á Vestfjörðum, því að þau eru ekki minni þar víða en annars staðar á landinu.

Þá hef ég rætt um þær till., sem við þremenningarnir flytjum á þskj. 210 og vík þá nokkrum orðum að þeim tili., sem við flytjum á þskj. 218.

Þar er þá fyrst IV. liðurinn. Sú till., sem við þar flytjum, er um, að tekinn verði upp nýr liður: til brúar á Mórillu í Kaldalóni, fyrri fjárveiting, og verði hún 985 þús. kr. A fjárl. yfirstandandi árs voru fjárveitingar til brúa í Vestfjarðakjördæmi aðeins til mjög lítillar brúar í Norður-Ísafjarðarsýslu og til endurbyggingar gamallar brúar í Strandasýslu. Aðrar fjárveitingar voru ekki á þessa árs fjárl. til brúa í Vestfjarðakjördæmi. Menn mundu því með sanngirni hafa getað vænzt þess, að nú yrði verulega úr bætt og miklu hærri fjárveiting ætluð til brúa í þessu kjördæmi en á þessu ári. Þegar vegamálastjóri ræddi við okkur Vestfjarðaþingmenn um væntanlegar till. sínar í sambandi við vegamál og brúa, nefndi hann einmitt, að hann teldi einna næst standa að taka upp á þessa árs fjárlög fjárveitingu til Sunnudalsár í Arnarfirði, 265 þús. kr., og til Mórillu, sem hann sagði að væri 50 m löng brú, og ásamt henni þyrfti að byggja 1 km langan varnargarð, og mundi þetta mannvirki kosta 1 millj. 985 þús. kr. Ég taldi því alveg víst, að fyrir fjvn. mundu liggja frá vegamálastjóra fjárveitingar til þessara tveggja brúa. En hvort sem svo hefur verið eða ekki, þá eru till. fjvn. nú um það, að fjárveiting verði tekin til byggingar brúar á Sunnudalsá í Arnarfirði, á Kaldbaksós í Strandasýslu og á Tunguá í Strandasýslu, en ekki neitt til brúar á jökulvatnið Mórillu, sem aðskilur þó tvö sveitarfélög, Snæfjallahrepp og Nauteyrarhrepp, og veldur því enn um sinn, að Snæfjallahreppur er í engum tengslum við vegakerfi landsins. Hér viljum við leggja til, að af áætluðum kostnaði við brú á Mórillu og varnargarðinum, sem vegamálastjóri segir að þurfi að gera í sambandi við þá brúargerð, verði tekinn um það bil helmingur eða 985 þús. kr.

Vegamálastjóri segir, að þetta sé 50 m löng brú og verði hún byggð á tiltölulega ódýran hátt, burðarbitarnir verði úr strengjasteypu, en um það bil helmingurinn af kostnaðinum verði varnargarður. Undan Drangajökli í Kaldalóni renna nefnilega þrjár ár nú, en till. vegamálastjóra er sú, að þessar þrjár ár verði færðar í einn farveg, og til þess er þessi varnargarður, sem hann þarna ræðir um, gerður, að færa allt vatnið, sem þarna fellur til sjávar, í einn farveg og byggja eina brú í staðinn fyrir þrjár.

Áætlanir allar liggja fyrir hjá vegamálastjóra um þessa framkvæmd, og nauðsynin er brýn. Snæfjallahreppsbúar una því illa að hafa engin tengsl til nágrannasveitarfélags síns, og veldur það þeim auðvitað miklum erfiðleikum. Þeir verða að fara á bát úr sínum hreppi inn í nágrannahreppinn, vegna þess að Mórilla er óbrúuð þarna í Kaldalóni. Ef þessi till. fengist samþ., mundu þó íbúar Snæfjallahrepps telja sig sjá hilla undir það, að lokið yrði við þessa brúargerð á öðru ári hér frá, ef fyrri fjárveiting fengist eins og við leggjum til.

Þegar litið er á fjárveitingarnar til byggingar brúar á Kaldbaksós og Sunnudalsá og Tunguá og þessari upphæð bætt við, þá erum við með lítið eitt hærri upphæð en vegamálastjóri gerði okkur grein fyrir á fundi Vestfjarðaþingmanna að þyrfti að taka á fjárl. til þess að ljúka brúnni á Mórillu og varnargarðinum, sem þar með þarf að fylgja. Ég álít því, að Vestfjarðakjördæmi ætti siðferðilegan rétt á því að fá fjárveitingu að þessu sinni til þessara fjögurra brúa, þeirra sem hv. fjvn. hefur tekið upp fjárveitingu til, og fyrri fjárveitingu til brúar á Mórillu.

Önnur till. okkar þremenninganna á þessu þskj. er VIII og er um það að verja 20 þús. kr. til þess að leysa sérstök vandamál við framkvæmd fræðslumála skólabarnanna í Ketildalafræðsluhéraði. Bak við þessa till. um 20 þús. kr. fjárveitingu liggja nokkuð sérstakar ástæður. Ytri hluti sveitarinnar, Ketildalahrepps, hefur lagzt í eyði, miðhluti sveitarinnar hefur strjálazt mjög, og þar er skólahús sveitarfélagsins. En innan til í Ketildalahreppi búa miðaldra hjón með 13 börn frá 16 ára og niður í eitt ár, 6 af þessum börnum eru nú á skólaskyldualdri, en ekkert barn á skólaskyldualdri er á öðrum bæjum í sveitarfélaginu. Sveitarfélagið er sem sé að heita má í upplausn, og aðstaðan er þannig, að ekki var hægt að koma börnum þessa myndarheimilis fyrir í námunda við skólahús sveitarinnar. Þar var ekki hægt að koma þeim fyrir, kennari ekki heldur fáanlegur á s.l. hausti, svo að skólafræðsla á þann hátt, sem eðlilegast var og ríkinu skylt, var ekki framkvæmanleg. Ekki var heldur auðvelt fyrir þessi hjón að taka kennara inn á heimilið, bæta því við 15 manna fjölskyldu og bæjarhúsið yfirfullt þar að auki, svo að sú leið var ekki heldur fær. Hvernig skyldi þá sjá þessum 6 skólaskyldu börnum frá þessu heimili fyrir lögboðinni skólafræðslu? Ég kynntist málinu á þann hátt, að ég kom á þennan bæ, ræddi við húsbóndann, sem stóð í þessum mikla vanda, og sem gamall kennari fékk ég áhuga á málinu og ég sagði við hann: Ég sé aðeins eina leið, og hún er sú, að börnin verði flutt í skóla til næsta skólahéraðs, sem sé á Bíldudal. En bóndinn sagði: Til þess að ég gæti framkvæmt þetta, þyrfti ég a.m.k. að hafa til umráða bíl, sem væri svo stór, að ég gæti að morgninum flutt börnin og mjólkina frá mínu búi í einni ferð til Bíldudals, því að ef ég verð að fara tvær ferðir að morgninum, þá orka ég því ekki ásamt því að sinna 24 nautgripum og 250 fjár. En svo yrði ég seinni part dagsins að sækja börnin aftur til Bíldudals. En þrjár ferðirnar get ég ekki farið. Úrræðið til þess, að ég geti þess vegna orkað þessu fyrir mín börn, sem ég vil þó umfram allt gera, er sú, að ég geti fengið slíkan bíl. — Og ég lét það fyllilega í ljós, að ég tryði því ekki, þegar skólahald legðist niður í sveitarfélaginu og sveitarfélagið væri ekki fært um að veita þarna hjálp, að ríkið gerði það þá ekki fyrir svona fjölskyldu. Þessi bóndi sótti svo um það til fræðslumálastjóra, að honum yrði veitt aðstoð til þess að geta flutt börnin til skólans á Bíldudal með kaupum á Landrower-bíl, 11 manna bil. Fræðslumálastjóri athugaði málið, féllst á, að þetta væri einasta úrræðið, leitaði umsagnar námsstjórans á Vestfjörðum, og námsstjórinn á Vestfjörðum mælti eindregið með þessari úrlausn á málinu. Það fór til fjmrn. Fjmrn, velti málinu nokkuð fyrir sér og synjaði svo um þetta, kvað sig skorta heimild til þess að gefa eftir aðflutningsgjöld af slíkri bifreið, og það er rétt, til þess þarf heimild. En nú í sambandi við afgreiðslu fjárl. var einmitt hægt að veita slíka heimild, ef vilji var fyrir hendi. Eftir því var leitað við hv. fjvn., en hún synjaði því, hafði þó fallizt á, að þessi leið yrði farin, því að hún hafði fallizt á, að tekið yrði upp á fjárlög 30 þús.kr. í ár og 30 þús. kr. næsta ár til skólabílskaupa, og um það munu gilda ákveðnar reglur eða lagaákvæði að styrkja sveitarfélög til þess að kaupa skólabíl. En hvaða lausn er það á málinu? Jú, það er lausn á málinu frá ríkisins hendi í staðinn fyrir skólahald í sveitarfélaginu að stuðla að því, að skólabillinn sé keyptur. En það er hins vegar ekki lausn á þeim hluta, sem undir normal-kringumstæðum hefði átt að verða sveitarfélagsins hlutur. Og þá kemur að þessu, að sveitarfélagið er máttvana og í upplausn og sá hluti kemur á þennan eina einstakling, sem börnin á, öll börnin í sveitarfélaginu. Það, sem þurfti því að gera, var að gera honum mögulegt að leggja fram fé til kaupa á bílnum að hálfu á móti ríkinu, því að mér er kunnugt um það, að hann hefur sjálfur dregið saman 26 þús. kr. þrátt fyrir það, að hann sé með sín 13 börn og búinn að byggja upp myndarlega búskaparaðstöðu á sinni jörð, og hefur aflað sér láns að upphæð 35 þús. kr., en vantar um 20 þús. kr. til þess að geta ráðið við andvirði bílsins til móts við þá aðstoð, sem þarna er heitið frá ríkinu. Ekkert útlit er fyrir það, að þjóðfélagið vilji rétta þessum manni hjálparhönd. Börnin hans eru ekki nema 6, og það þykir kannske ekki stórmál að sjá 6 börnum fyrir lögboðinni fræðslu. En þarna stendur sérstaklega á um tvennt: barnahópurinn er óvenjulega stór og sveitarfélagið er máttvana og byrðin hvílir því á þessum einstaklingi. Hann biður um 20 þús. kr. aðstoð og fær nei. En maður, sem segir, að eftir því hafi verið leitað við hann, að hann sviki land sitt og þjóð og hann hafi verið svo sterkur á svellinu, að hann hafi staðizt þessa freistingu og neitað því, hann fær tífalda þessa upphæð, sem bóndinn bað um, 200 þús. kr. fær hann fyrir það að hafna því að svíkja land sitt og þjóð, og mætti þó ætla, að þar gætu skapazt hættulegri fordæmi en í hinu tilfellinu. Hver sá maður, sem kæmi og segði, að sin hefði verið freistað: það hefur verið sótt eftir því, að ég fremdi landráð, og ég hef staðið mig, ég hef hafnað því, — hann virðist eftir þessu fordæmi, sem hér er gefið, eiga að fá a.m.k. 200 þús. kr. fyrir það að standa sig. Væntanlega ætla menn ekki að gera upp á milli þeirra manna, sem geta sagt það, að þeir hafi látið vera að svíkja land sitt og þjóð. En maðurinn, sem er að ala upp 13 mannvænleg börn fyrir þjóðfélagið og vill reyna að sjá sinum barnahóp borgið, að þau fái lögboðna fræðslu, á hans hönd er slegið af hv. fjvn., af hæstv. menntmrh., sem ég leitaði líka til, af því að ég taldi, að þessi maður ætti siðferðilegan rétt á aðstoð.

Héðan af sé ég ekki neina möguleika til þess að leysa þetta mál, nema hæstv. menntmrh. sæi sér það fært, þegar að því kemur að leysa málið til þess að tryggja börnunum lögskipaða fræðslu, að af því fé, sem sparast í Ketildalaskólahéraði fyrir það, að skólahald leggst þar niður og börnunum er með ærinni fyrirhöfn föðurins komið til næsta fræðsluhéraðs, verði það tekið, sem þarf til þess, að bóndanum verði mögulegt að leysa út sinn hluta af þessari fyrirhuguðu skólabifreið. Ég teldi það ekki nema sjálfsagt án allra lagaheimilda, að menntmrh. heimilaði fræðslumálastjórninni að greiða af þeim hluta, sem ríkinu sparast við, að skólahald er lagt þarna niður, það, sem á vantar, til þess að bifreiðin verði þá keypt og börnin fái möguleika til þess að verða flutt í Bíldudalsskóla. Og ég trúi því ekki enn fyrr en ég tek á því, að um þetta verði synjað, þegar allar aðrar leiðir lokast.

Það getur v el verið, að hv. alþm. segi: Þetta er mál, sem snertir bara einn einstakling. — En það eru tugir einstaklinga, sem eru með fjárveitingar á fjárl. frá ári til árs minna verðugir en þessi hjón, sem þarna eru að skila þjóðfélaginu 13 mannvænlegum borgurum, og hefur ekki verið talið útilokað að hnika jafnvel liðugt um slíkar fjárveitingar til einstaklinga með minni verðleika en hér er um að ræða og af minni nauðsyn. Og það er fyrir mér ekkert hégómamál, hvort 6 börn njóta skólafræðslu eða ekki, þó að aðrir kunni að telja það smámál.

Um þetta skal ég svo ekki hafa fleiri orð. En ég taldi sjáifsagt, að hv. alþm. gætu átt þess kost að vita, hvernig í þessu máli liggur, hvaða aðstaða er á bak við beiðnina um þessar 20 þús. kr.

Þá er að síðustu XVII. liðurinn á þessu þskj. Hann er um flugvallagerðir. Á 20. gr. fjárl. er lagt til, að til flugvallagerða verði varið 12 millj. 720 þús. kr. Það er heildarupphæð, og flugráð skiptir sjáifsagt þessari upphæð, og leggjum við þremenningarnir til, að við þennan lið bætist: „Þar af til flugvallar á Hólmavik 700 þús. kr. og til Þingeyrarflugvallar 500 þús. kr.“ Þ.e.a.s., af þessum 12 millj. 720 þús. kr. verði 1.2 millj. kr. varið til tveggja flugvalla í Vestfjarðakjördæmi. Till. er ekki um neina hækkun á liðnum, heldur aðeins ákvæði um það að taka nokkurn hluta af þeirri fjárveitingu, sem fyrirhuguð er, til tveggja flugvalla á Vestfjörðum. Og hvers vegna til þessara tveggja flugvalla á Vestfjörðum? Jú, fyrir nokkrum árum bjuggu Vestfirðingar við miklu betri flugsamgöngur en þeir búa nú við. Meðan sjóflugvél stundaði ferðir á Vestfjarðahafnirnar, kom þessi flugvél við á bæði Dýrafirði og á Steingrímsfirði, Hólmavík, og á mörgum öðrum fjörðum, sem nú seinustu árin hafa ekki fengið neina flugþjónustu, síðan stærri landflugvélar komu til sögunnar.

Ágæt flugbraut er hjá Hólmavíkurkauptúni, en hún er ívið of stutt, til þess að hin stóra flugvél, sem Flugfélag Íslands nú hefur í förum milli Reykjavíkur og Ísafjarðar, geti örugglega haft lendingarstað þar. Til þess að Hólmavíkurflugvöllur verði nothæfur fyrir þessa vél, þarf örlitla lengingu á honum. Og Hólmvíkingar eru búnir að biðja um það í mörg ár í röð, að þessi lenging á Hólmavikurflugvelli verði framkvæmd, svo að þeir geti aftur orðið aðnjótandi flugsamgangnanna, líkt og áður var, meðan sjóflugvélarnar voru í gangi.

Eins er þetta á Þingeyri. Í landi jarðarinnar Sanda rétt hjá Þingeyrarkauptúni er flugbraut talin mjög góð, enda eru skilyrði þarna ágæt til flugvallargerðar. En hún er nokkuð of stutt líka, eins og Hólmavíkurflugbrautin, til þess að hin stóra vél Flugfélagsins, sem nú flýgur á Ísafjarðarflugvöll, geti lent þar með nokkru sómasamlegu öryggi. Þá flugbraut þarf líka að lengja nokkuð.

Að vísu þyrfti að sinna miklu fleiri flugvöllum á Vestfjörðum, en við töldum ekki rétt að dreifa fjárveitingu í þessu skyni, heldur leggja höfuðáherzlu á, að þessir flugvellir, sem beztir eru næst á eftir Ísafjarðarflugvelli, verði gerðir þannig úr garði með nokkurri lengingu, að þessi kauptún, Hólmavík og Þingeyri, geti orðið aðnjótandi flugsamgangna, eins og þau nutu fyrir nokkrum árum. Það er mjög mikil óánægja í þessum byggðarlögum út af því, að þessum þætti samgöngumálanna skuli hafa hrakað svo mjög sem raun ber vitni um frá því, sem áður var, og það getur hver maður skilið, að þegar þokast aftur á bak, en ekki áfram, þá verða menn vitanlega óánægðir með það og vilja ekki við það una. Þessi till. okkar er því nánast um það, að þessum tveimur flugvöllum verði sinnt með nokkrum hluta af þeirri fjárveitingu, sem ætluð er til flugvallagerða í landinu á næsta árs fjári., en fer ekki fram á aukin útgjöld.

Með þessu, sem ég nú hef sagt, hef ég gert grein fyrir þeim till., sem hv. 2. þm. Vestf. og hv. 4. þm. Vestf. og ég flytjum og samkomulag varð um, að ég mælti fyrir. Þeir munu svo mæla fyrir öðrum þeim tili., sem ég hef ekki minnzt á, en við flytjum í sameiningu.

Læt ég svo máli mínu lokið og vil vænta þess, að allar þessar till. okkar, sem er mjög í hóf stillt og af sanngirni fram bornar, fái góðar undirtektir og stuðning hv. þm.