20.03.1963
Sameinað þing: 41. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í D-deild Alþingistíðinda. (3370)

195. mál, hafnargerðir við Dyrhólaey og í Þykkvabæ

Sjútvmrh. (Emil Jónason):

Herra forseti. Spurt er: „Hvað líður framkvæmd þál. um athuganir á, hafnarframkvæmdum við Dyrhólaey í Vestur-Skaftafellssýslu og í Þykkvabæ í Rangárvallasýslu, sem samþ. var á Alþingi á öndverðu ári 1961.“ Þessari fsp. hefur verið vísað til vitamálastjóra og óskað eftir umsögn hans um málið, og hann hefur með bréfi, dags. í fyrradag, svarað þannig:

„Með bréfi, dags. 15. marz, óskaði hið háa rn. till. minnar um það, hvernig svara beri fsp. Karls Guðjónssonar alþm. á þskj. nr. 380, 1. liður, þar sem alþm. spyrst fyrir um það, hvað liði framkvæmd þál. um athuganir á hafnarframkvæmdum í Þykkvabæ á Rangárvallasýslu og Dyrhólaey í Vestur-Skaftafellssýslu, sem samþ. var á Alþingi 8. febr. 1961.

Með bréfi, dags. 16. marz 1961, fól hið háa rn. mér að annast framkvæmd rannsóknar þessarar, sem getur í áðurnefndri þál. Nokkrum sinnum hefur Alþingi gert svipaðar ályktanir um rannsóknir og athuganir á hafnarmöguleikum við Dyrhólaós eða Dyrhólaey. Hefur vitamálaskrifstofan því nokkrum sinnum gert athuganir á þessu sviði og því allmiklar upplýsingar fyrirliggjandi. Allar þessar athuganir hafa bent til þess, að hafnargerð á Dyrhólaeyjarsvæðinu sé möguleg, en mjög erfið og kostnaðarsöm. Kemur hér margt til, en þó fyrst og fremst, að hafnarstæðið er fyrir opnu Atlantshafi og án þess að skjól sé fyrir nokkurri hafátt. Þá er og á ferð með suðurströndinni aftur og fram gífurlegt magn lausra efna, sandur og möl, sem óhjákvæmilega hljóta að valda miklum erfiðleikum við byggingu hafnarmannvirkja á þessu sviði.

Árið 1950 samdi dr. Trausti Einarsson prófessor skýrslu á vegum vitamálastjórnarinnar um sandflutning og landbreytingar á svæðinu í kringum Dynhólaós. Komst hann að þeirri niðurstöðu, að sandmagn það, sem er á ferð meðfram ströndinni, muni nema nokkrum hundruðum þúsunda rúmmetra é. ári. Sömuleiðis kemur fram í skýrslunni, að dr. Trausti segist hafa séð brotsjóabelti ekki minna en 100 metra breitt frá, ströndinni og var þó að sögn kunnugra um lítið brim að ræða.

Það mun samhljóða álit allra, sem þessi mál hafa athugað, að komi til greina hafnargerð við Dyrhólaey, verði um mjög mikið og kostnaðarsamt mannvirki að ræða. En með tilliti til þess, hversu þýðingarmikið það er talið af heimamönnum og öðrum að fá höfn á þessu svæði, hefur athugunum verið haldið áfram, eftir því sem tök hafa verið á og tækifæri verið til. Þannig var haustið 1957 gerð allnákvæm dýptarmæling úti fyrir Dyrhólaey. Náði sú mæling frá því lítið austan við Vík og nokkuð vestur fyrir eyna. Eftir samþykkt þáltill. 1961 var gerð allýtarleg könnun á landi, bæði landmæling og boranir á svæðinu austan og vestan eyjarinnar. Niðurstöður athugananna bentu mjög í sömu átt og fyrri athuganir, að hafnargerð væri þar að vísu möguleg, en ef úr mannvirkjagerð yrði, mundi hún verða mjög dýr og erfitt um framkvæmdir.

Niðurstöður þessara rannsókna hafa þó ekki verið teknar saman í skýrsluform eða endanlega úr þeim unnið. En hins vegar eru allar þær athuganir, sem gerðar hafa verið á Dyrhólaeyjarsvæðinu, mjög þýðingarmiklar með tilliti til þess að auðvelda ákvörðun síðar um möguleika á gerð hafnarmannvirkja þar.

Um Þykkvabæjarsvæðið er það að segja, að eftir samþykkt till. 1961 hafa engar sérstakar athuganir verið gerðar af vitamálastjóra. Eru fyrir því tvær meginorsakir: í fyrsta lagi, að skortur sérfræðinga til slíkra starfa hefur verið mikill. Og í öðru lagi, að vitað er, að til eru áætlanir og athuganir bandaríska varnarliðsins um gerð hafnar í Þykkvabæ. Rannsóknir þær bentu til, að möguleikar væru á hafnargerð, en hins vegar mun sú framkvæmd vera bæði erfið og kostnaðarsöm.

Áðurnefndar athuganir hafa allar beinzt að hinum tæknilega hluta verkefnisins, sem er bygging hafnar fyrir Suðurlandsundirlendið austan Þjórsár. Segja má, að niðurstöður þeirra séu, að tæknilega sé hægt að byggja hafnir á öðrum hvorum eða báðum þessara staða, sem um hefur verið rætt. En hins vegar skortir algerlega rannsókn á því, hvaða hagræna þýðingu höfnin mundi hafa og hvaða fjárhagslegur grundvöllur er fyrir byggingu slíkra mannvirkja. Með tilliti til mögulegrar breytingar á atvinnuháttum á Suðurlandi, t.d. með tilkomu stórvirkjana og stóriðju, tel ég rétt, að rannsókn á hafnarstæðum á Suðurlandi verði haldið áfram, og má í því sambandi geta þess, að nú er kominn til lands einn af færari og þekktari vísindamönnum á sviði efnisflutnings með ströndum fram, prófessor Per Bruun frá Florida, og mun hann verða til ráðuneytis íslenzkum ríkisstofnunum nú í sumar. Hef ég farið þess á leit við prófessor Bruun, að hann aðstoði vitamálaskrifstofuna við að gera áætlun um heildarrannsóknir á sandflutningi og möguleikum til hafnargerða á Suðurlandsundirlendinu frá Vík og að Ölfusá. Fullnægjandi rannsóknir á þessu sviði munu án efa taka nokkur ár, en allverulegar upplýsingar ættu að geta legið fyrir innan fárra ára, eða áður en ákvörðun þarf að taka um byggingu hafna á áðurgreindu svæði.

Í fljótu bragði virðist mér fjárhagsgrundvöllum fyrir slíkum mannvirkjum enginn vera nú sem stendur, þar sem ekki mun vera um að ræða, að kostnaður reiknist í tugum millj„ heldur í hundruðum millj. kr. til þess að gera mannvirki, sem að nokkru gagni mega verða. Undirbúningsrannsóknir sem þessar, sérstaklega á svæðum, þar sem sandburður er mikill, taka ætið mjög langan tíma, og er því vissulega mikils virði það, sem þegar hefur verið unnið, og sú rannsókn, sem nú er í gangi.“

Ég get aðeins bætt við þeim orðum frá sjálfum mér, að ég hef um tíma verið með í því að kanna möguleikana fyrir hafnargerð á öðrum þessara staða, þ.e.a.s. við Dynhólaey, og hef sannfærzt um, að öll mannvirkjagerð þar er ákaflega erfið, eins og vitamálastjóri segir, og ég efast ekki um, að það sé rétt hjá honum, að þar velti ekki á tugum millj., heldur á hundruðum millj. kr. Ber þar tvennt til. í fyrsta lagi, að þetta svæði er fyrir opnu Atlantshafinu og þegar af þeirri ástæðu ákaflega erfitt að gera þarna höfn, en hitt veldur þó ekki minni erfiðleikum, að sandflutningurinn með suðurströndinni er, eins og dr. Trausti Einarsson á sínum tíma komst að, gífurlega mikill. Hann telur, að þessi sandburður skipti hundruðum þús. teningsmetra á ári, og ef svo væri, að slíkt sandmagn settist að nafnarmannvirki á þessum stað, þá væri það náttúrulega ekki lengi að fara í kaf, ef ekki væru gerðar sérstakar ráðstafanir. En hér hefur áður tvisvar sinnum verið á ferð danskur verkfræðingur, dr. og núv. prófessor, sem hefur leiðbeint okkur, sem þá, störfuðum á vitamálaskrifstofunni, um sandflutning með ströndum fram. Þessi maður er nú fyrir stuttu, einu ári eða svo, orðinn prófessor við háskólann í Florida og ráðunautur um sandflutninga þar með ströndum fram. Hann dvelst hér í sumar og mun nú halda áfram því verki, sem okkur hefur alltaf skort að láta vinna að fullu, þ.e.a.s. að gera sér eins nákvæma grein og mögulegt er fyrir sandflutningum með suðurströndinni, en það er eitt grundvallaratriðið fyrir því, að til hafnargerðar á þessu svæði sé hægt að hugsa. Hv. alþm. mega ekki vera of óþolinmóðir, þó að nokkuð dragist þessar athuganir, því að þær eru vissulega tímafrekar, en þær eru svo þýðingarmiklar, að það þýðir ekkert til mannvirkjagerða að hugsa, nema þessar athuganir hafi farið fram.